Eldhúsdagsumræður í fyrrakvöld voru í megindráttum eins og ráð er fyrir gert. Stjórnarliðar töldu almennt að fremur vel hefði tekist til við stjórn landsins en stjórnarandstæðingar voru andstæðrar skoðunar. Rétt eins og vera ber. Hvorir tveggja höfðu á köflum nokkuð til síns máls en stundum minna. Svo voru þeir sem eru svo helteknir af þráhyggju að þeir sjá aðeins eina lausn við öllum vanda og breytir þá engu hversu fjarstæðukennd sú lausn er.

Eldhúsdagsumræður í fyrrakvöld voru í megindráttum eins og ráð er fyrir gert. Stjórnarliðar töldu almennt að fremur vel hefði tekist til við stjórn landsins en stjórnarandstæðingar voru andstæðrar skoðunar. Rétt eins og vera ber. Hvorir tveggja höfðu á köflum nokkuð til síns máls en stundum minna. Svo voru þeir sem eru svo helteknir af þráhyggju að þeir sjá aðeins eina lausn við öllum vanda og breytir þá engu hversu fjarstæðukennd sú lausn er.

Þetta eru þingmenn Viðreisnar sem ganga æ lengra í að mæla fyrir evrunni og aðild að Evrópusambandinu.

Í eldhúsdagsumræðunum lét Sigmar Guðmundsson meðal annars eftirfarandi orð falla: „Það er engin þjóð sem þarf að vita jafn mikið um vexti og verðbólgu á norðurhjara veraldar og Íslendingar.“ Dapurlegt er að með alla þá þekkingu á efnahagsmálum sem þingmaðurinn telur að landsmenn búi yfir skuli hún ekki að neinu leyti hafa skilað sér inn í þingflokk Viðreisnar. Þar halda menn áfram að ræða evruna af sömu grunnhyggninni og fyrr í stað þess að kynna sér málin og afla sér þeirrar þekkingar sem víst má telja að rétt sé hjá Sigmari að landsmenn almennt búi yfir.

Kjör almennings hér á landi eru með þeim allra bestu sem þekkjast og kaupmáttur hér hefur til að mynda aukist á undanförnum árum á sama tíma og kaupmáttarrýrnun er það sem samanburðarlönd okkar hafa mátt búa við.

Fleira skiptir miklu og sýnir þær ranghugmyndir sem umræða þingmanna Viðreisnar byggist á. Hér á landi er verðbólga vissulega hærri en hún er að meðaltali á evrusvæðinu, en það segir fjarri því alla söguna. Verðbólgan hér er 9,5% um þessar mundir og 7% á evrusvæðinu, en hafa ber í huga að ekki er nema hálft ár frá því að verðbólgan þar var sú sama og hún er nú hér og að áður var hún hærri þar. Þá verður að horfa til þess að þetta er meðaltal evrusvæðisins en ekkert segir að við myndum lenda á meðaltalinu, mun líklegra er að við yrðum töluvert fyrir utan meðaltalið enda efnahagsástandið allt annað hér. Þar eru Eystrasaltsríkin þrjú öll með töluvert hærri verðbólgu en er hér á landi og í Austurríki er verðbólgan tæp 9%. Í Slóvakíu er hún yfir 12%. Hvers vegna halda þingmenn Viðreisnar að verðbólgan yrði lægri hér?

Hér á landi er talið að hagvöxtur á fyrsta fjórðungi ársins hafi verið 9%, sem er farið að slaga hátt í það sem hann var á sama fjórðungi árið 2007, enda er Ísland að glíma við þenslu, mikil umsvif í efnahagslífinu og góð lífskjör. Á sama fjórðungi er gert ráð fyrir að hagvöxtur á evrusvæðinu hafi verið 0,1%. En það segir alls ekki alla söguna. Samdráttur mældist í mörgum ríkja evrusvæðisins og enn og aftur verður að minna á, vegna þess að áköfustu talsmenn evrunnar tala alltaf eins og innan evrusvæðisins sé allt eins, að þar er veruleikinn ólíkur á milli ríkja. Í Eistlandi og Litháen var til að mynda samdráttur á fjórðungnum og sömu sögu er að segja um nokkur önnur evruríki, meðal annars hjá nágrönnum okkar Írum þar sem samdrátturinn nam 4,6%. Eiga þeir að þakka evrunni þann árangur?

Atvinnuleysi er enn ein hagstærðin sem gjarnan er skoðuð utan þingflokks Viðreisnar og þar er munurinn á Íslandi og ríkjum evrusvæðisins einnig athyglisverður. Hér mælist atvinnuleysi rúm 2%, sem þýðir í raun að hér er ekkert atvinnuleysi, raunar er frekar skortur á vinnuafli. Hvernig ætli þetta sé á evrusvæðinu? Þar er atvinnuleysið að meðaltali 6,5%, nær þrefalt það sem hér mælist, en aftur segir meðaltalið aðeins hluta sögunnar. Á Grikklandi og á Spáni, sem bæði hafa orðið illa fyrir barðinu á evrunni, er atvinnuleysið rúm 11% og tæp 13%. Þegar horft er til unga fólksins er ástandið mun verra. Er einhver ástæða til að ætla að Ísland yrði í meðaltali á þennan mælikvarða frekar en annan ef landið slysaðist inn í Evrópusambandið og tæki upp evruna? Nei, vitaskuld ekki.

Efnahagsaðgerðir á evrusvæðinu, þar með taldar vaxtaákvarðanir seðlabanka evrunnar, myndu að engu leyti miðast við ástand í efnahagsmálum hér á landi. Og íslenskt efnahagslíf sveiflast ekki náttúrulega nema að litlu leyti með efnahagslífi ráðandi landa á evrusvæðinu. Þess vegna eru allar líkur á að Ísland yrði almennt talað fjarri meðaltali hagtalna evrusvæðisins og þyrfti oft að búa við mun meiri verðbólgu, meira atvinnuleysi, minni hagvöxt og lakari kaupmátt en meðaltöl þess svæðis segja til um. Og eru meðaltölin þó fjarri því að vera freistandi.

Er ekki kominn tími til að þingmenn Viðreisnar kynni sér slíkar staðreyndir og reyni í framtíðinni að forðast að bera á borð fyrir almenning misskilning á borð við þann sem einkennt hefur málflutning flokksins frá stofnun og fer versnandi?