Reykjavíkurborg aflaði tæplega 3,7 milljarða króna í skuldabréfaútboði sem fram fór í fyrrdag, en niðurstaðan var kunngjörð í gær. Annars vegar var um að ræða verðtryggða skuldabréfaflokkinn RVK 32 1 sem ber fasta 2,5% verðtryggða vexti

Reykjavíkurborg aflaði tæplega 3,7 milljarða króna í skuldabréfaútboði sem fram fór í fyrrdag, en niðurstaðan var kunngjörð í gær. Annars vegar var um að ræða verðtryggða skuldabréfaflokkinn RVK 32 1 sem ber fasta 2,5% verðtryggða vexti. Borgin tók tilboðum samtals að nafnvirði 2,71 milljarðs króna á kröfunni 3,90%, sem er hærri krafa en í síðasta útboði þegar borgin tók tæplega 1,3 milljarða að nafnvirði á kröfunni 3,61% í sama flokki. Hins vegar var um að ræða verðtryggðan grænan skuldabréfaflokk RVKG 48 1 sem ber fasta 2,385% verðtryggða vexti. Borgin tók tilboðum samtals að nafnvirði 950 milljóna króna á kröfunni 3,35%, sem er lægri krafa en í síðasta útboði þegar borgin tók tæplega 1,9 milljarða á kröfunni 3,5% í sama flokki.

Heimild borgarsjóðs til lántöku á árinu 2023 er 21 milljarður króna samkvæmt fjármálaáætlun 2023. Samkvæmt tilkynningu borgarinnar nam heildarfjármögnun ársins, fyrir þetta útboð, tæplega 10,1 milljarði króna og því má gera ráð fyrir að lántaka ársins eftir útboð nemi tæplega 13,8 milljörðum króna. Það sem af er ári hefur borgin tekið tilboðum í skuldabréfaútboðum upp á um 10,1 milljarð króna.