Lærður Freysteinn nam við The Royal Conservatorium Den Haag og Escola Superior De Música De Lisbon.
Lærður Freysteinn nam við The Royal Conservatorium Den Haag og Escola Superior De Música De Lisbon. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Stundum þegar ég er að lýsa einhverju eða tala um eitthvað ákveðið reyni ég að gera mig skiljanlegan með því að tengja það við eitthvað allt annað

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Stundum þegar ég er að lýsa einhverju eða tala um eitthvað ákveðið reyni ég að gera mig skiljanlegan með því að tengja það við eitthvað allt annað. Áður en ég veit af er ég búinn að tapa þræðinum,“ er útskýring Freysteins Gíslasonar tónskálds, djassara og kontrabassaleikara á titli annarrar breiðskífu sinnar Í allar áttir en samt bara eina sem kom út í lok apríl. Fyrri platan Lokun sem varð að byrjun kom út árið 2021.

Myndirðu segja að tónlistin sé undir sömu sök seld?

„Já, ætli það ekki. Hún fer stundum úr einu í annað eins og maður sé að hoppa á milli sjónvarpsstöðva. Þetta hefur verið kallað ADHD.“

Að því sögðu vill hann ekki gera lítið úr áhrifavöldunum, tilraunarokksveitum á borð við Mr. Bungle og Fantômas sem Freysteinn hlustaði á og hreifst af á unglingsárunum á Ísafirði. Hann nefnir líka Boards of Canada, Squarepusher og fleiri jaðarlistamenn.

„Ég kem úr artífartí geiranum þannig að þetta er eiginlega artífartí djass sem ég er að semja og flytja. Ég lék með mörgum tilraunahljómsveitum hér áður fyrr þótt ég hafi kannski ekki verið fastur meðlimur í neinni þeirra og músíkin sem ég samdi á þessum árum komst ekkert sérlega langt á leið. Aðallega vegna þess að við fundum ekki trommara sem hafði tæknilega getu til að spila lögin,“ segir hann kíminn.

Klunnalegt hljóðfæri

Aðspurður hvernig það atvikaðist að Freysteinn lagði fyrir sig kontrabassann er svarið að það hafi gerst fyrir helbera slysni.

„Það vantaði bassaleikara í pönkband. Mig langaði ekkert að verða bassaleikari. Mig langaði miklu frekar að vera söngvari eða gítarleikari og geta baðað mig í athyglinni sem þeir fá. En ég endaði á að spila á rafbassa og á einhverjum tímapunkti tók kontrabassinn svo við og eignaði sér mig. Kannski af því að þetta er svo erfitt hljóðfæri. Kann að vera.“

Hvað er svona strembið við kontrabassann miðað við önnur hljóðfæri?

„Það sem er erfiðast er að halda honum ófölskum. Það heyrist mjög vel ef bassinn er falskur eða fölsk nóta slegin og það þykir ekki fallegt. Þetta er frekar klunnalegt hljóðfæri upp á það að gera. Til dæmis getur það gerst ef maður er að spila með hljómsveit og píanóið er örlítið falskt að þá er skuldinni oft skellt á bassann.“

Þetta er heldur ekki meðfærilegasta hljóðfærið

„Það er svo önnur saga. Ég var hérna áður fyrr oft að ferðast með kontrabassann í strætó og spurði mig í hvert skipti hvað ég væri eiginlega að pæla. En þetta er skemmtilegt hljóðfæri þótt það sé erfitt að leika á það og burðast með það.“

Djassinn yfirsterkari

Freysteinn lauk BA-prófi í kontrabassaleik frá The Royal Conservatorium Den Haag árið 2016 og í framhaldi nam hann við Escola Superior De Música De Lisbon í Portúgal en lengi vel leit ekki út fyrir að hann yrði á endanum langskólagenginn á hljóðfærið.

„Ég æfði mig aldrei til að byrja með. Fannst það fyrir neðan mína virðingu. Kunni varla að stilla bassann. Svo gerist það þegar ég er 21 árs að ég fer að taka bassann alvarlega. Fór í FÍH og með þá skýru sýn að sameina djass og þungarokk. Djassinn varð svo yfirsterkari að lokum.“

En aftur að plötunni. Með Freysteini spila þeir Hrafnkell Gauti Sigurðarson á rafmagnsgítar, Helgi R. Heiðarsson á tenórsaxófón og Óskar Kjartansson á trommur. Freysteinn segir plötuna töluvert frábrugðna Lokun sem varð að byrjun.

„Þessi er mun þyngri. Meira rokk og hávaði.“

Þetta sé samt enginn frí-djass og nánast allar nótur og taktskipanir skrifaðar niður.

„Þetta er mjög strúktúrerað en samt með frjálsu væbi.“