Dalir Reisulegt fjögurra hæða hús sem nú fær nýtt hlutverk.
Dalir Reisulegt fjögurra hæða hús sem nú fær nýtt hlutverk. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Endurbætur og uppbygging eru nú í undirbúningi á Staðarfelli í Dölum þar sem til stendur að opna þægindahótel á næsta ári. Baldur Ingvarsson, sem stendur að fjárfestingarfélaginu V 69 ehf., keypti nú í ársbyrjun eignir á staðnum af ríkinu; það er…

Endurbætur og uppbygging eru nú í undirbúningi á Staðarfelli í Dölum þar sem til stendur að opna þægindahótel á næsta ári. Baldur Ingvarsson, sem stendur að fjárfestingarfélaginu V 69 ehf., keypti nú í ársbyrjun eignir á staðnum af ríkinu; það er gamla skólahúsið sem er fjögurra hæða bygging reist árið 1912. Sú bygging er um 750 fermetrar. Einnig fylgdu með í kaupum tvö íbúðarhús, byggð um 1970. „Á Staðarfelli og í Dölunum eru miklir möguleikar til sóknar og uppbyggingar. Vesturland og Vestfirðir eiga mikið inni sem ferðamannasvæði með einstakan söguarf og náttúrufegurð,“ segir Baldur.

Frá því um 1980 og fram á síðustu ár var á Staðarfelli meðferðarstofnun á vegum SÁÁ. Þar áður var á Staðarfelli húsmæðraskóli um áratugaskeið. Baldur segir stefnt að því að koma upp á Staðarfelli 50 herbergja hóteli. Húsakostur þar hafi verið kominn á tíma og mörgu þurfi að breyta til að svara kröfum nútímans. Að útbúa gott hótel á þessum merka stað sé talsverð framkvæmd sem kosti nokkur hundruð milljónir króna.

„Verkefnið er vel undirbúið og nú eru hönnuðir að gera teikningar. Sækja þarf um leyfi og fara í samvinnu við skipulagsyfirvöld. Síðan taka iðnaðarmenn við og stefnt er að opnun hótelsins að ári fari allt að óskum,“ segir Baldur. „Uppbyggingu og markaðssetningu verður þannig háttað að Staðarfell freisti fólks sem vill vera í friði og ró í framúrskarandi fallegu umhverfi á Fellsströnd. Það er mikilvægt að kynna gestum einstakan söguarf svæðisins; þarna voru til dæmis heimkynni helstu kvenskörunga Íslendingasagna. Dalafólk er einkar samhent, liðlegt og stolt af sínu svæði. Þarna verður auðvelt að bera fram framúrskarandi mat og kynna handverk og umhverfi. Sérstaða svæðisins er margvísleg og nokkuð til að byggja á til framtíðar.“ sbs@mbl.is