Ármann Ægir Magnússon fæddist 19. maí 1952. Hann lést 31. maí 2023.

Útför Ármanns Ægis fór fram 9. júní 2023.

Fyrstu kynni mín af Ármanni Ægi voru þegar þeir félagar Sigurður Randver komu blaðskellandi inn á fund hjá Alþýðubandalagi Hveragerðis, stóðu inni á miðju gólfi og sögðust vera með rútu úti og hópur fólks væri á leið í göngu herstöðvaandstæðinga. Hvort við ætluðum ekki að koma með? Seinna meir átti ég eftir að kynnast þessum köppum betur, sérstaklega Ármanni Ægi, eftir að hann flutti í Ölfusborgir og tók virkan þátt í félagsstarfi í Hveragerði.

Ármann Ægir var mjög traustur félagi og í störfum mínum í sveitarstjórn var hann minn helsti samstarfs- og stuðningsmaður. Hann gat líka verið afar erfiður og áttum við í ýmsum rimmum þegar honum fannst ég ekki ganga nógu hart fram en það var fljótt að rjúka úr okkur.

Réttindamál fatlaðra voru honum ofarlega í huga og voru árin hans í bygginganefnd Hveragerðis ómetanleg. Hann yfirfór allar teikningar og gerði athugasemdir ef dyr voru of mjóar fyrir hjólastóla og ef aðgengi að húsum var ekki fyrir fatlaða. Á þessum árum hvarflaði það ekki að neinum að það yrði hlutskipti Ármanns Ægis að þurfa síðustu árin að nota hjólastól.

Ármann Ægir hugsaði alltaf meira um aðra en eigin hag og fór þá stundum fram úr sér en oft þarf það til svo á sé hlustað. Það þarf öfluga rödd og áræði til að koma skoðunum sínum á framfæri. Ármann Ægir vildi ekki vinna vinsældakosningu heldur vildi hann réttlæti fyrir alla. Hann var sannur jafnaðarmaður.

Að leiðarlokum þakka ég góðan vinskap og votta Mónu, dætrum og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð.

Ingibjörg Sigmundsdóttir.