Halldór Bjarni Pálmason fæddist í Bolungarvík 23. nóvember 1961. Hann lést á heimili sínu, Skálahlíð 11 í Mosfellsbæ, 1. júní 2023.

Foreldrar hans voru Guðlaug Magnúsdóttir, f. 21. mars 1922, d. 9. nóvember 2018, og Pálmi Sveinsson, f. 24. október 1921, d. 16. nóvember 1987. Halldór Bjarni átti fimm systkini, samfeðra Guðrúnu Konný, Þorvald og Konráð Breiðjörð. Sammæðra Þorstein og albróður, Svein Grétar.

Hann ólst upp á Bolungarvík til sex ára aldurs er hann fluttist suður til Reykjavíkur með foreldrum sínum.

Um tíma dvaldi hann á Kópavogsheimilinu, en fór svo að Skálatúni í Mosfellsbæ og dvaldi þar til æviloka.

Útför hans fer fram frá Lágafellskirkju, 12. júní 2023, klukkan 11.

Mig langar að kveðja föðurbróður minn hann Halldór Bjarna.

Það var alltaf gaman hjá okkur Halldóri, alveg frá því ég var pínulítil.

Þegar ég fór í heimsókn til ömmu var Dóri oft þar og alltaf mikið líf og fjör.

Hann var alltaf til í að leika, við fórum í óteljandi ólsen ólsen og skipti þó engu máli ef ég var aðeins of sein, hann byrjaði bara án mín.

Honum var líka alveg sama þótt ég svindlaði, alltaf hélt hann áfram að spila við mig.

Það var líka alltaf gaman að koma í Skálatún, til dæmis í afmælisveislurnar hans, að hitta Dóra, Dísu og alla vini þeirra, þvílíka gleðin og ég skemmti mér alltaf konunglega.

Það voru mikil forréttindi að eiga Halldór Bjarna sem frænda, ég lærði það snemma af honum að allir mega vera eins og þeir eru og að við fögnum fjölbreytileikanum, eða eins og mamma og amma sögðu: Það er allt í lagi að vera öðruvísi en aðrir.

Ég er þakklát fyrir dýrmæta tíma með Halldóri í gegnum lífið, ferðast saman til Noregs til pabba, þegar hann kom í heimsókn til mín til að hitta börnin mín nýfædd, kom í skírnirnar þeirra og núna síðast samverustundirnar í brúðkaupi okkar hjóna.

Ég veit að amma Lauga og afi Pálmi taka vel á móti þér elsku Halldór Bjarni.

Þín litla frænka,

Jóhanna Sigríður.

Það var sársaukafullt símtal sem ég fékk að morgni 1. júní síðastliðins um að þú, elsku besti Dóri minn, værir farinn. Sársaukinn og söknuðurinn nísti mig og ég fann hvernig tárin fóru að renna. Elsku besti bróðir minn er dáinn og ég fæ aldrei að hitta þig aftur.

Það voru alltaf svo miklir kærleikar milli okkar, þú varst litlu eldri en ég og það var mikið leikið saman á meðan þú varst heima. Fyrstu minningarnar eru frá þeim tíma þegar við vorum litlir guttar vestur í Bolungarvík, þegar þú fórst á sleðanum ofan í gil sem var fullt af snjó og tapaðir stígvélunum þínum þar sem fundust svo ekki fyrr en um vorið þegar snjórinn var farinn. Þú varðst oft fyrir aðkasti fyrir vestan frá öðrum börnum og þurfti ég þá stundum að verja þig þó svo að ég hafi verið næstum tveimur árum yngri. Það urðu miklar breytingar í okkar lífi þegar þú fórst á Kópavogshælið þegar þú varst sex ára gamall árið 1967 og fluttist svo í Skálatún í mars 1968. Á þeim tíma vorum við fluttir suður til Reykjavíkur með mömmu. Það var alltaf gaman þegar þú komst heim um helgar og vorum við miklir félagar og það var alltaf svo sterkur strengur á milli okkar.

Ég man hvað þér fannst gott að fá góðan mat að borða og varst duglegur að borða. Þú elskaðir að fá ís og mamma átti oft til ís og ávexti þegar þú komst í heimsókn. Þú sást um ísinn en ég borðaði ávextina. Við vorum líka alltaf saman á jólum, áramótum og páskum meðan ég bjó heima og þá var oft gaman. Eftir að ég flutti að heiman voruð þið mamma oft hjá Steina og fjölskyldu um jól en seinna meir líka hjá mér, sérstaklega eftir að við fluttumst í Mosfellsbæ og bjuggum nánast í næsta húsi við Skálatún. Þú varst líka svo duglegur að heimsækja okkur eftir að við fluttumst til Noregs 2010 og komst í allavega fimm skipti til okkar og varst hjá okkur yfir jól og/eða áramót. Það voru ljúfar stundir þegar þú komst til okkar og við elskuðum að að hafa þig hjá okkur og Pjakkur var svo hrifinn af þér.

Þú varst svo yndislegur ljúflingur og allir elskuðu þig sem voru svo heppnir að kynnast þér. Þú varst líka mikill íþróttamaður og hafðir mikið keppnisskap, kepptir í sundi, frjálsum íþróttum og boccia og fórst tvisvar á Special Olympics. Ég man hvað ég var stoltur af þér þegar þú komst heim með verðlaunapeninga þaðan. Svo varstu fyrsti íþróttamaður ársins í íþróttafélaginu Gáska í Skálatúni og fékkst flottan bikar.

Ég man líka svo vel hvað þér fannst gaman að fara í búðir í Noregi og kaupa þér eitthvað flott eins og föt eða eitthvað fallegt fyrir sjálfan þig og þú vildir alltaf vera vel til fara og eiga fallega hluti í kringum þig.

Þú elskaðir að hlusta á tónlist og elskaðir Elvis Presley mjög mikið. Svo mikið að þú gafst kisunni þinni nafnið Elvis.

Það er mikið áfall að missa þig og söknuðurinn er mikill. Ég reyni að hugga mig við það að þú sért kominn í fangið á mömmu og pabba og er viss um að Pjakkur er líka með þér.

Takk fyrir allt elsku besti bróðir minn og mundu að ég elska þig alla tíð og mun aldrei gleyma þér.

Þinn bróðir, Svenni.

Sveinn.

Ég minnist hans sem ljúfs drengs í alla staði. Í Bolungarvík fórum við oft í göngutúra og fórum oftast á bryggjuna að sjá bátana, það veitti honum mikla gleði enda faðir hans sjómaður og átti þar bát sem hann gerði út. Við áttum góðar stundir saman er hann var ungur að árum. Hann var voðalegur prakkari og stríðinn þegar hann var lítill, tók dót sem vakti forvitni hans og tók það jafnvel í sundur til að skoða betur, þá var Steini bró ekki glaður því það gat verið erfitt að laga svo vel færi. Hann var mikill grínari, tók hluti og faldi þá, svo þegar allir fóru að leita þá sat hann og hló og dillaði sér, eins og þegar ég og mamma okkar spiluðum Elvis Presley.

Að fara í bíó þótti honum gaman og ekki síst starfsfólki sem fór með honum, við fórum stundum í bíó en það var hjá honum mikið frekar að fara í bíltúr og kaupa ís. Svo komu heimabíóin, þá varð að fara og leigja spólu með James Bond, hann var sko í uppáhaldi. Hann valdi alltaf dvd með honum í jólagjöf.

Svo var það þegar ég og mágkona hans, Þórunn Ósk, hófum búskap, þá kom hann oft um jól og páska og þá var gaman hjá honum og Tótu, en það var mágkona hans kölluð, því það var lambalæri í matinn með öllu tilheyrandi og svo var ís og súkkulaði á eftir. Þetta þótti honum gott að fá.

Nú er elskulegur Dóri okkar kominn í faðm foreldra sinna, blessuð sé minning hans og þeirra. Við vottum kærustu hans Hjördísi innilega samúð og við viljum þakka yndislegu starfsfólki fyrir umönnun og væntumþykju í garð Halldórs Bjarna. Hann átti yndislega ævi í faðmi ykkar.

Komin er kveðjustund, elsku Dóri, vertu sæll og minning þín lifir í hjörtum okkar.

Þorsteinn og Þórunn Ósk.