Skotland Lögreglubíll sést hér við heimili Sturgeon í Glasgow í gær.
Skotland Lögreglubíll sést hér við heimili Sturgeon í Glasgow í gær. — AFP/Andy Buchanan
Nicola Sturgeon, fyrrverandi forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, var handtekin í gær og færð til yfirheyrslu vegna rannsóknar lögreglunnar í Skotlandi á fjármálum Skoska þjóðarflokksins, SNP

Nicola Sturgeon, fyrrverandi forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, var handtekin í gær og færð til yfirheyrslu vegna rannsóknar lögreglunnar í Skotlandi á fjármálum Skoska þjóðarflokksins, SNP. Sturgeon var svo sleppt að yfirheyrslu lokinni, en hún stóð yfir í um sjö klukkutíma.

Sturgeon, sem lét af formennsku í SNP í mars á þessu ári, sagði í yfirlýsingu á Twitter síðar um daginn að hún væri alsaklaus af öllum ásökunum og það hefði verið sér verulegt áfall að vera handtekin þegar hún væri þess fullviss að hafa ekki gert neitt rangt. „Ég myndi aldrei gera neitt til að skaða SNP eða landið,“ sagði Sturgeon í yfirlýsingu sinni.

Sturgeon bætti við að hún hefði takmarkað svigrúm til þess að tjá sig meira, en í tilkynningu skosku lögreglunnar sagði að rannsókn málsins héldi áfram. Þetta er þriðja handtakan sem tengist rannsókninni, sem kallast „Operation Branchform“ á ensku, en hún beinist að meintu misferli sem hafi verið framið við fjármögnun flokksins.

Málið hefur valdið miklum titringi í skoskum stjórnmálum, þar sem SNP hefur borið ægishjálm yfir keppinauta sína um alllangt skeið.