Ljóð Myndmál Ragnheiðar „um áhyggjur, áföll, náttúruna og konuna“ í ljóðinu „Fléttur“ er sagt áhrifamikið.
Ljóð Myndmál Ragnheiðar „um áhyggjur, áföll, náttúruna og konuna“ í ljóðinu „Fléttur“ er sagt áhrifamikið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljóð Urðarflétta ★★★·· Eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur. Una, 2022. Mjúkspjalda, 55 bls.

Bækur

Ingibjörg Iða Auðunardóttir

Fyrir jól kom út hjá Unu ljóðabókin Urðarflétta eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur. Una útgáfa hefur á sínum fáu en afkastamiklu starfsárum gefið út margs konar verk sem auðga íslenska bókmenntaflóru, allt frá þýðingum nokkurra okkar virtustu þýðenda til spennandi nýrra skáldsagna eftir svokölluð „Unu-skáld“, sem forlagið nefnir þau skáld sem gefa út hjá því. Ragnheiði mætti því kalla Unu-skáld, en hún er einnig hluti af Svikaskáldum, sem skrifuðu skáldsöguna Olíu, sem hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2021. Áður hafa Svikaskáld gefið úr ljóðabækurnar Ég er ekki að rétta upp hönd, Ég er fagnaðarsöngur og Nú sker ég netin mín. Sjálf hefur Ragnheiður gefið út eina ljóðabók áður, bókina Sítrónur og náttmyrkur, sem kom út árið 2019.

Í Urðarfléttu er prósaljóðið allsráðandi – öll ljóðin eru í prósastíl og óbundinn stíll því áberandi. Prósaljóðið hefur margt að bjóða höfundi sínum. Þar sem það er lausara í forminu hefur höfundurinn meira frelsi til tjáningar en ef um ljóð í bundnu máli væri að ræða. Þrátt fyrir að ljóðlistafólk nútímans velti ef til vill ekki jafnmikið fyrir sér hákveðum og lágkveðum, stuðlum og höfuðstöfum er prósaformið sérstaklega frjálslegt, þar sem hvert ljóð getur raunar orðið að örsögu – örlítilli frásögn sem getur þó skilið eftir sig stórt spor í huga lesenda.

Gagnrýnandi kom að þessari bók með opnum hug. Ég hef hingað til verið ágætlega hrifin af skrifum Svikaskálda, þó svo þau séu sannarlega misgóð, enda um hóp skálda að ræða. Urðarflétta er að mati gagnrýnanda að mörgu leyti nokkuð gott verk, en það er ekki eins ferskt og ég sem lesandi var að vona þegar ég tek upp bók eftir ungan ljóðahöfund. Þrátt fyrir að hugmyndirnar um náttúruna, rætur og tré og tengsl þess við móðurhlutverkið og fjölskylduna sé flott viðfangsefni sér gagnrýnandi ekki að unnið sé með efnið á nýstárlegan hátt. Ég veit ekki alveg við hverju ég var að búast af þessari ljóðabók – kannski þyrsti mig bara í eitthvað súrrealískt og skrítið – en tilfinningin var að lítið sæti eftir.

Höfundur varpar engu að síður upp flottum myndum með listrænum setningum. Gagnrýnandi naut sérstaklega ljóðsins „Fléttna“ sem byrjar svona:

„Þegar ég var barn og lá andvaka kom mamma. Hún sagði mér að úr rófubeininu lægi rót djúpt ofan í jörðina. Hún bað mig um að sjá fyrir mér fíkju. Fylla hana af öllu því sem ég óttaðist. Kasta henni upp í himinhvolfið og horfa á hana springa. […]“ (bls. 9).

Þetta myndmál um áhyggjur, áföll, náttúruna og konuna í heild sinni í fíkjunni er áhrifamikið. Fíkjan er þrungin merkingu, sérstaklega vegna sögu hennar og lögunar, og því má líta á hana sem sérlega kvenlegt tákn. Myndmál náttúru og konunnar er annars ríkjandi í ljóðabókinni, en það er raunar einn af fáum þráðum sem halda sér í gegnum alla bókina. Við lestur hennar leið mér stundum eins og ég væri að lesa verk eftir Svikaskáld en ekki eftir einn höfund. Ef til vill endurspeglar form verksins í heild „stjórnleysi“ prósans – en ég saknaði þess að verkið hefði sterkari þráð í gegn, einhvers konar leiðarstef. Þrátt fyrir að ljóðin séu mörg hver góð eru of mörg sem skjóta skökku við inn á milli. Verkið skortir heildarmynd.

Það er engu að síður óhætt að mæla með lestri Urðarfléttu fyrir ljóðlestrarþyrsta sem vilja kynnast Ragnheiði Hörpu betur, enda býr margt að baki þessu verki, þrátt fyrir að heildarútfærslunni sé að vissu leyti ábótavant.