Sigrún Andrewsdóttir fæddist 28. september 1939. Hún andaðist 20. maí 2023. Útför hennar fór fram 1. júní 2023.

„Varstu að tala við Sigrúnu Andrews?“ var ég iðulega spurð um þegar ég hafði varið löngum stundum í símanum á síðkvöldum á ofanverðri 20. öldinni. Það var oft reyndin og þá var ég spurð út í hið mikilvæga umræðuefni, var það kannski skildagatíð eða jafnvel þáskildagatíð? „Nei,“ sagði ég þá gjarnan, „við vorum bara að ræða um mennina í lífi okkar, þá Súrssyni frá Súrnadal. En félagar okkar Sigrúnar í Breiðholtsskóla voru einhuga um að þeir bræður væru okkar menn.

Við kenndum saman íslensku á unglingastigi í allmörg ár. Þegar von var á vorboðanum ljúfa sem birtist í formi samræmdra prófa í byrjun maí ár hvert gátu kvöldsamtölin dregist úr hömlu, jafnvel fram yfir miðnætti. Þá tíðkaðist ekki að hugsa um tímaramma vinnunnar. Bara alls ekki.

Sigrún, sem var áratugnum eldri en ég og reyndari í faginu, var mín lærimóðir og víst er að betri mentor hefði ég ekki getað fengið. Við sóttum saman ótal námskeið í íslensku og fornsögunum brunnum við fyrir.

Þetta voru góðir tímar og Sigrún var ekki bara metnaðarfullur og ákaflyndur kennari, hún var einnig hlý og skemmtileg, velvirk og vandvirk.

Þessir eiginleikar ásamt mörgum fleirum gerðu hana að eftirminnilegum og einstaklega góðum kennara.

Allt sem hún fékkst við var mikilfenglegt og má þar nefna kennsluna, heimboðin og ekki síst uppeldi barnanna, þeirra Andra, Guðfríðar, Helga og Sigurðar sem öll voru sérstaklega góðir nemendur í skólanum okkar.

Í Breiðholtsskóla var og er öflugt starfsmannafélag þar sem skipt er um stjórn ár hvert. Eitt haustið tók Sigrún og nokkrar vinkonur hennar við keflinu og varð Sigrún formaður, foringinn í hópnum. Þær kölluðu sig að sjálfsögðu Andrewssystur – The Andrews Sisters – sem oft tóku lagið í fjörugum starfsmannaferðum og öðrum gleðskap. Höfðingjarnir Sigrún og eiginmaður hennar Grétar opnuðu þá glæsileg húsakynni sín í Brúnastekk og buðu oftar en ekki til rausnarlegra og sprellfjörugra samkvæma. Það var alltaf fjör og gleði þar sem Sigrún var.

Eitt sinn sem oftar fór full rúta af kátum vinnufélögum í vorferð þar sem komið var við á Þingvöllum. Sól skein í heiði og allir vinirnir í góðum gír. Við stóðum við Almannagjá og dáðumst að fegurð landsins og þess helga staðar sem við vorum á.

Í hrifningu augnabliksins hóf Sigrún upp raust sína og flutti Gunnarshólma, sem hún kunni auðvitað aftur á bak og áfram, hiklaust og með miklum tilþrifum. Þessi stund á Þingvöllum er mér einkar minnisstæð og svo lýsandi sem hún var fyrir Sigrúnu Andrewsdóttur.

Því miður hafa samverustundir okkar skemmtilegu og góðu vinkonu ekki verið margar eftir að hún lauk störfum við Breiðholtsskóla þar sem fljótlega eftir andlát Grétars veiktist hún og hvarf okkur að mestu, gömlu félögunum.

Ég minnist Sigrúnar með mikilli hlýju og virðingu og þakka af öllu hjarta fyrir samfylgdina.

Hildur
Sigurðardóttir.