Sesselja Hildigunnur Jónsdóttir fæddist 4. nóvember 1936. Sesselja lést 23. maí 2023.

Útförin fór fram 3. júní 2023.

Elsku amma Sella, nú ertu komin í sumarlandið til afa sem hefur tekið rólegur á móti gæsku sinni. Ég veit að þú varst meira en tilbúin að fá að fara til hans en ég var ekki alveg jafn tilbúin þegar símtalið kom. Ég er þó afar glöð að hafa haft tök á því að keyra austur í hvelli og kveðja þig og ekki síður fyrir að hafa fengið að vera hjá þér síðustu nóttina og halda í höndina á þér þegar þú kvaddir. Það var gott að fá að segja þér allt sem ég vildi segja þér áður en þú fórst, rifja upp allar dásamlegu minningarnar, en þú átt svo stóran part af hjarta mínu og tilveru. Allir sem mig þekkja þekktu þig, ýmist af eigin kynnum eða í gegnum mína frásögn, og bað Lilja þín sérstaklega vel að heilsa.

Þinn karakter var engum líkur og hélt sér að mestu fram á síðustu stundu. Mörgu deili ég með þér og mamma kemur varla í heimsókn án þess að nefna eitthvað í mínu fari sem minnir á þig. Hvort sem það er að vilja vera sjálf við stýrið, gleyma að loka skápunum, baka án svuntu eða þegar hún kíkir í kjólaskápinn minn. Já dálæti á fallegum kjólum er líklega það sem við höfum deilt hvað lengst, eða frá því ég var bara nokkurra ára gömul. Í hverri heimsókn hef ég fengið að kíkja í kjólaskápinn og dásama. Þú færð líka að kveðja okkur í fallega sinfóníukjólnum þínum, eins og þú hafðir óskað, og síðasta spölinn fylgi ég þér í kjól af þér, rétt eins og ég var í kjól af þér um síðustu jól.

Þá hefur enginn sýnt sælgætis- og sykurþörf minni eins mikinn skilning og þú; allt kókópöffsið, hunangsseríosið, lakkrísinn og perubrjóstsykurinn. Minningarnar úr sveitinni eru ótal margar og mikil forréttindi að hafa fengið að læra á lífið í sveitinni hjá þér; að hafa fengið að taka þátt í sauðburði, heyskap og öllu því sem sveitin hefur upp á að bjóða og nú reyni ég að njóta þess með mínum syni hér á Borgarfirði, þegar þetta er skrifað. Takk fyrir alla bíltúrana og þjóðsögurnar, takk fyrir allt bakkelsið og seðlana, takk fyrir búðarferðirnar og traktoraskröltið. Takk fyrir allt amma mín, þín verður sárt saknað en minning þín lifir áfram í hjarta mínu.

Þín ömmustelpa,

Selma.