Listin Samúel Jónsson er einn þekktasti alþýðulistamaður Íslands þótt lítið hafi verið fjallað um hann til þessa.
Listin Samúel Jónsson er einn þekktasti alþýðulistamaður Íslands þótt lítið hafi verið fjallað um hann til þessa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
List Samúels Úr kafla Ólafs J. Engilbertssonar: Hið undraverða listasafn sem Samúel byggði á Brautarholti í Selárdal, auk steinsteyptra höggmynda á þessum afskekkta stað, vekur hugleiðingar um hvaðan þessi ástríða fyrir listsköpun kom og hvernig…

List Samúels

Úr kafla Ólafs J. Engilbertssonar:

Hið undraverða listasafn sem Samúel byggði á Brautarholti í Selárdal, auk steinsteyptra höggmynda á þessum afskekkta stað, vekur hugleiðingar um hvaðan þessi ástríða fyrir listsköpun kom og hvernig þessi aldraði bóndi gat komið öllu þessu í verk einn síns liðs. Samúel var sjálfmenntaður í listinni en varði allri sinni orku í að sinna hugðarefnum sinum og listsköpun eftir að hann fékk lífeyri og þurfti ekki að hafa áhyggjur af búksorgum og brauðstriti. Elja hans var undraverð og undrum sætti að maður án listrænnar menntunar gæti skapað slík verk. Til annarra landa kom Samúel aldrei, en fór nokkrum sinnum til Reykjavíkur og einu sinni til Akureyrar. En listagyðjan hefur sjálfsagt vitjað Samúels alla hans ævi í draumi, þó hann næði ekki að sinna henni að ráði fyrr en hann fékk lífeyri.

Varðveittar eru vatnslitamyndir eftir Samúel frá yngri árum hans, 1913-1916, þar sem vatnslit er beitt af hugkvæmni. Flestar myndanna eru vel útfærðar teikningar af skipum. Í þeim efnum má segja að hann sé á svipuðum slóðum og meistari Kjarval sem byrjaði á því að mála seglskip. Þessi fyrstu verk sín gerir Samúel þegar hann er búsettur á Neðri-Uppsölum, en þá er hann loks farinn að ráða sjálfur sínum tíma. Samúel teiknaði einnig fólk. Í viðtali við Alþýðublaðið 1955 sagði Samúel að hann hafi reynt að teikna eftir mannamyndum í útlendum blöðum, en kveðst ekki hafa náð vel svip á fólki, sig hafi líklega skort tækni til þess. Vera má að fyrirmyndirnar liggi vel þar fyrir honum sem ljósmyndir í blöðum og bókum. Ekki er ljóst hvort Samúel vann mikið að listsköpun eftir að móðir hans lést árið 1916, en um það leyti kynnist hann Salóme og eftir það hafði hann fyrir fjölskyldu að sjá. Eitthvað virðist Samúel þó hafa sinnt myndlistinni því Þórarinn Samúelsson segir Samúel hafa átt vatnslitakassa, pelicankassa úr járni, sem var pantaður úr vörulista um 1920. Litirnir hafi verið mjög drjúgir og sterkir. Hann sá Samúel aldrei mála með olíu, bara vatnslit öll árin sín í Krossadal.

Samúel kveðst í fyrrnefndu viðtali fyrst hafa farið á myndlistarsýningu 1953 þegar hann hélt sjálfur sína fyrstu sýningu í Reykjavík. Það hafi verið abstrakt. Hann sé nú ekkert mikið hrifinn af því, en hann hafi samt málað eina svoleiðis mynd sjálfur. Sig hafi langað að vita hvernig til tækist. Samúel nefnir einnig að hann hafi hitt Kjarval og séð myndir hans. Ganga þurfi langt frá myndum Kjarvals til að sjá þær – og þá séu þær hreinasta snilld. Einnig kvaðst Samúel í þessu viðtali hafa séð myndir eftir Ásgrím Jónsson. Ásmundur Sveinsson var á þessum tíma að steypa höggmyndir sínar og gera höggmyndagarð í Sigtúni í Reykjavík, en engar sögur fara af því að þeir hafi hist.

Aðalsteinn Ingólfsson segir í bók sinni Einfarar í íslenskri myndlist að skúlptúrar Samúels beri vott um makalaust frjótt og einlægt hugarflug og að þeir leiði hugann einna helst að höll þeirri sem bréfberinn Ferdinand Cheval reisti í heimahéraði sinu, Drome í Frakklandi. Aðalsteinn segir málverk Samúels meira í ætt við póstkort af landslagi heldur en landslagið sjálft, enda muni hann hafa stuðst við slík kort.

Málverk Samúels voru þó fjölbreyttari en svo að þau hafi öll minnt á póstkort. Varðveist hafa nokkur málverk sem Samúel málaði af Selárdal og nágrenni og þau skera sig um margt úr vegna þess hve þar er frjálslega farið með hlutföll, fjarvídd og liti, í meira mæli en í þeim verkum sem eru máluð eftir myndum í bókum eða blöðum. Í þessum Selárdalsverkum er eins og listamaðurinn með barnshjartað sé eins og spörfugl að fljúga um dalinn sinn þar sem gleðin ríkir yfir hverri þúfu og hverjum bæ. Samúel málaði nokkrar fleiri myndir af stöðum og bátum sem hann þekkti, en þar er eins og hann leggi megináherslu á að skrá staðinn rétt með litunum og ramma vel inn, líkt og flestar aðrar myndir sem eru málaðar eftir prentuðu efni. Líkönin og höggmyndirnar eru annars eðlis, þar er sköpunargleðin ríkjandi og mestu skipti að ná yfirbragðinu en nákvæmni í útfærslu látin lönd og leið.

Flokka má verk Samúels gróflega í annarsvegar málverk sem hann vann að á veturna og hinsvegar höggmyndir sem hann vann að á sumrin.

Elsta varðveitta verkið eftir Samúel er teikning af stúlku frá árinu 1912. Það vekur sérstaka athygli hve teikningin er vel gerð. Samúel var þá 28 ára og alveg ólærður á þessu sviði. Teikningar Samúels frá yngri árum eru talsvert annars eðlis en seinni verk hans. Á sínum yngri árum lagði Samúel meira upp úr nákvæmni í teikningu. Í þessum eldri teikningum Samúels sést að hann er slyngur í fjarvíddarteikningu og skyggingu.

Fyrsta sýning Samúels að Brautarholti mun hafa verið þegar hann bauð kirkjugestum, þegar afmæli Selárdalskirkju var fagnað, að skoða sýningu á loftinu á Brautarholti. Hélt fólkið fótgangandi niður eftir til að skoða verk Samúels á efri hæð íbúðarhússins, þar á meðal biskupinn yfir Íslandi, herra Sigurbjörn Einarsson. Samúel hengdi verk sin ekki upp, heldur stillti þeim upp við veggina svo hægt væri að fletta þeim. Samúel hafði innréttað loft til sýningarinnar á Brautarholti. Guðmundur Hjálmarsson var þá ungur sumardrengur á Fífustöðum og var viðstaddur. Hann segir að þegar fór að braka í gólfinu hafi komið óðagot á gestina sem hafi þust niður stigann og hundarnir gelt ákaft þegar kjólar og hempur lyftust í hamaganginum.

Eins og fyrr greinir hélt Samúel sina fyrstu myndlistarsýningu í Miðbæjarbarnaskólanum í Reykjavík í júlí 1953 og var fjallað um hana í Alþýðublaðinu. Þar sýndi Samúel ýmsa listmuni. Meðal þeirra var skápur, alsettur kuðungum, skeljum og kóröllum. Einnig sýndi Samúel stóran fjölskyldumyndaramma fyrir átta myndir sem var einnig skreyttur skeljum og kóröllum. Þá voru á sýningu Samúels átján olíumálverk og fjórar vatnslitamyndir. Meðal myndanna var olíumálverk, sem sýndi afstöðu og húsaskipun á prestsetrinu í Selárdal árið 1895, í tíð séra Lárusar Benediktssonar, en Samúel var þar niðursetningur. Ári síðar, nánar tiltekið 23. júní 1954, birtist á forsíðu Tímans grein um aðra sýningu Samúels með fyrirsögninni: „Sjötugur bóndi sýnir málverk og listmuni hér í Reykjavík“.

Í viðtali við Baldur Óskarsson sem birtist í Tímanum 1958 segist Samúel vera búinn að halda fjórar sýningar í Reykjavík og selt einu sinni allt sem hann var með. Sýningin hafi verið í Miðbæjarskólanum. Kjarval hafi komið til sín. Hann hafi séð hjá honum mynd af Krossadal, en hann hafi verið búinn að selja hana. Kjarval hafi þá sagt: „Ég hefði keypt af þér myndina, hefðirðu ekki verið búinn að selja hana.“ Samúel sagði að sér hefði líkað vel við hann. Hann hafi gefið sér besta vitnisburð. Birni Th. Björnssyni hafi líka litist vel á málverkið af Krossadal. Hann bað Samúel að senda sér málverk og myndir af altaristöflunni. Svo kveðst Samúel hafa sýnt á Akureyri. Sýningin hafi verið illa sótt. Það hafi komið til sín tveir málarar og sagt að það þýddi ekkert að sýna þar. Samúel sýndi líka verk sin á Bíldudal og raðaði þétt á veggina.

Samúel notaði oft óhefðbundinn efnivið í verk sin og yfirleitt það sem hendi var næst. Hann var að eðlislagi mjög nýtinn og útsjónarsamur í endurnýtingu. Þannig má segja að hann hafi verið umhverfisvænn á þessum tíma þegar það hugtak var varla til. Oft notaði hann masónit plötur til að mála á og málaði þá á grófu hliðina. Líklega hefur hann notað olíuliti, en þynnt þá vel út. Málverk af Hvitserk málar hann á hveitipoka og málverkið af Salóme og Heródesi er málað á veggfóður sem er límt á grófan hessian-striga. Verkin eru mjög þunnt máluð alla jafna en hann notar gyllta olíumálningu á rammana.

[...]

Samúel var þekktur fyrir listræna hæfileika sína. Hans er þó ekki getið í ritum um íslenska listasögu nema að litlu marki. Hannibal Valdimarsson kallaði Samúel í grein í Lesbók Morgunblaðsins 1976 „listamanninn með barnshjartað“.

Sú skilgreining sýnir þó aðeins eina hlið á listamanninum Samúel sem vissulega varðveitti barnið í sér og einlæga sköpunargleði og hafði yndi af börnum. En hann var líka eljusamur einfari sem hafði mikið verkvit og unni sér vart hvíldar við verk sín.

Verk Samúels eru til vitnis um óbilandi elju eldsálar sem lét ekkert aftra sér í að láta drauma sína rætast á þessum stað sem var hans unaðsreitur á hjara veraldar.