Guðmundur Ingvason Hraunfjörð Guðmundsson fæddist 18. júlí 1936. Hann lést 26. maí 2023.

Útförin fór fram 6. júní 2023.

Það er með miklum söknuði sem maður sest niður og semur minningargrein um föður sinn. Pabbi varð fyrir því óhappi að detta heima hjá sér og fót- og axlarbrotna. Líkaminn réð ekki við aukaálagið sem fylgdi beinbrotunum og því fór sem fór og hann andaðist aðfaranótt 26. maí, þá vantaði hann tvo mánuði í 87 árin. Þó svona slys verði og séu erfið þá hefur maður margs að minnast og þakka fyrir á þessum árum sem maður átti með kappanum.

Pabbi var af þeirri kynslóð Íslendinga sem þekktu ekki annað en að vinna, sjá fyrir fjölskyldunni og koma sér upp heimili. Hann fæddist í torfbæ, sem sýnir hvað það er stutt síðan Íslendingar bjuggu í torfbæjum, ekki nema ein mannsævi. Hann byrjaði snemma að vinna, fór til sjós og svo þegar hann stofnaði fjölskyldu með mömmu hætti hann á sjó og fór í málaranám sem svo varð hans ævistarf.

Hann og mamma gerðu allt sem þau gátu fyrir barnahópinn enda vorum við fimm krakkarnir og því oft mikið í gangi og í mörg horn að líta. Þegar við systkinin byrjuðum að æfa íþróttir tóku þau þátt í því og hvöttu okkur áfram og fylgdu okkur á mót, hvort sem var í frjálsum íþróttum, fótbolta eða körfubolta.

Þau tóku þátt í að endurreisa frjálsíþróttadeild FH árið 1972. Pabbi var í stjórn deildarinnar í nokkur ár ásamt því að vera í aðalstjórn FH.

Pabbi og mamma náðu þeim skemmtilega áfanga að verða afi og amma 1975 þegar Siggi bróðir eignaðist Hrafnhildi. Þau tóku nýju hlutverki fagnandi og leystu það með stæl, voru mjög virk í ömmu- og afahlutverkinu og hugsuðu vel um litlu ömmu- og afastelpuna.

Það blundaði í þeim að prufa að flytja utan til að upplifa eitthvað nýtt og gefa okkur tækifæri til að æfa við betri aðstæður og í betra veðri svo það var tekin ákvörðun um að leigja út húsið og flytja til Svíþjóðar haustið 1978, í 20 þúsund manna bæ sem heitir Finspång. Að mínu mati var það gæfuspor hjá þeim, lífið varð ekki bara vinna, og veðrið mun betra. Það eina sem var erfitt hjá þeim var að Hrafnhildur litla ömmu- og afastelpa var á Íslandi.

Mamma greindist með krabbamein í ágúst 1980, lést hún í nóvember 1980, þá 41 árs, og pabbi orðinn ekkjumaður 44 ára.

1983 kynnist pabbi eftirlifandi eiginkonu sinni Margréti Kolbeinsdóttur og hefja þau sambúð. Margrét var þriggja barna móðir og voru það flottir krakkar sem bættust við fjölskylduna, þau Kjartan sem er látinn, Beta og Halldór Kjartansbörn.

1985 eignuðust þau Pétur Örn og gaman að segja frá því að ég og Gunna eignuðumst líka strák það sama ár, Guðmund Hrafn, sem skírður var í höfuðið á afa sínum og ömmu, þ.e. Guðmundi og Hrafnhildi, og voru þeir Pétur Örn bróðir minn og Guðmundur Hrafn sonur minn bekkjarbræður alla grunnskólagönguna.

Í kjölfarið á því að pabbi var kominn með ungbarn og þrjú börn undir fimmtán ára aldri breytast hlutirnir skiljanlega, sambandið minnkar og breytist, allir í því að koma sér upp fjölskyldu og hann á sextugsaldri að vinna eins og skepna til að sjá fyrir sínum, með barnabörn á sama aldri og börnin sem hann er að alla upp. Miðað við allt stóð hann sig eins og hetja reyndi að fylgjast með öllum og sérstaklega síðustu árin. Pabbi skilur eftir sig átta börn á lífi, 22 barnabörn, 18 barnabarnbörn og svo eru tvö barnabarnabörn á leiðinni í sumar, stór og flottur hópur.

Það brjótast í manni margar tilfinningar þegar maður er að kveðja góðan mann en ég held það sé nokkuð ljóst að hann getur farið frá þessum heimi sáttur og stoltur með sína ævi. Hann var góður og traustur maður sem sýndi ábyrgð, dugnað og skilur eftir sig helling af góðum minningum sem ég og mínir eigum eftir að muna og tala um í framtíðinni, það er það sem skiptir mestu máli þegar upp er staðið. Takk fyrir mig og mína pabbi minn, hvíl í friði og minning þín mun lifa áfram með okkur.

Kveðja,

Yngvi Óðinn og fjölskylda.

Elsku afi.

Sorgin er skrítið fyrirbæri, hún getur verið grimm en hún getur einnig verið ljúf. Það að syrgja er sárt en um leið heilandi. Minningabrot fara að streyma fram, minningar sem jafnvel voru fallnar í djúpt dá. Sumir verða reiðir af sorg, sumir dofna upp, já sorgin er allskonar.

Fyrst eftir að þú fórst var ég reið, öskureið, reið yfir svo mörgu, reið yfir því sem ég missti, reið yfir því að þú þurftir að fara en þegar börnin mín fóru að spyrja mig: „Mamma, hvernig afi var langafi? Verður afi Siggi eins langafi og hann er afi?“ Þá fóru allar minningarnar að spretta fram og reiðin vék fyrir yndislegum minningum um yndislegan afa.

Ég var algjör afa- og ömmustelpa, mér skilst á systkinum pabba að þau sæju ekki sólina fyrir barnabarninu. Hún er yndisleg, sögðu þau við foreldra mína þegar þau fengu að passa mig, meðan systkini pabba hlutu varanlega heyrnarskaða af öskrunum í mér. En þau kvörtuðu ekki.

Ég á ekki margar ljóslifandi minningar um elsku ömmu mína sem fór alltof fljótt en á þó nokkrar af henni og afa saman. Ég á mynd af afa sem amma gaf mér þegar ég vildi ekki fara heim frá Svíþjóð. Nei, þessa mynd vil ég ekki, ég vil mynd af ykkur, ekki bara afa! Jú, sjáðu, hún amma þín er á bak við gardínuna að elda mat, sérðu það ekki? Og amma samsinnti honum, já sérðu mig ekki?

Þessi mynd á stóran stað í hjarta mínu.

Minningar um afa minn hrannast upp, afa sem var alltaf til í glens og grín. Skemmtilegast þótti mér að sitja á hnjánum á honum þegar hann var að gera æfingar og magabeygjur, því í einhverri magabeygjunni kom það óvænta að maður datt í gólfið þegar hann rétti úr fótunum eða setti þá í sundur. Hann sagði iðulega þegar hann hellti í glas: „Þú verður að segja stopp“ og maður sagði NÓG!! Þá hellti hann áfram og stundum út fyrir.

Hönd í hönd gengum við í sjoppuna í Kaupfélagsblokkinni og hann keypti handa mér röndóttan frostpinna.

Þegar ég varð sjö ára gaf hann mér gullitaðan parker-penna og skrúfblýant, þetta hitti ekki alveg í mark hjá einni sjö ára en nú 41 ári seinna er hann enn í notkun og hefur verið alla mína skólagöngu. Ferðast með mér milli ólíkra landa og í allskonar nám. Hann kom þó með annan glaðning skömmu seinna, stærsta pennaveski sem nokkur maður á Akureyri hafði séð, það voru sko átta blýantar í því og það var á tveimur hæðum.

Við systir mín áttum hug hans allan og hann var besti afi sem nokkur getur hugsað sér.

Svo ég svara börnunum mín með spurningunni: „Var langafi góður langafi?“ Já, svara þau án þess að hugsa sig tvisvar um.

Já krakkar mínir, hann var ennþá betri afi!

Elsku besti afi, góða ferð og við sjáumst þegar við sjáumst.

Ég elska þig.

Hrafnhildur
Sigurðardóttir.