Björg Finnbogadóttir fæddist 25. maí 1928. Hún lést 23. maí 2023.

Útför Bjargar fór fram 2. júní 2023.

Bella frænka, ömmusystir mín, var ein sú fyrsta sem ég hitti fyrir þegar ég kom í heiminn. Hún hljóp í skarðið þegar pabbi þurfti að fara að gera sig kláran í ræðuhöld í tilefni af 1. des.-hátíð í MA og var mömmu til halds og trausts á spítalanum. Það má velta fyrir sér hvort hún hafi átt þátt í nafngift minni eða hvort foreldrarnir höfðu þegar ákveðið að ég fengi nafn ömmu minnar, allavega hafði hún það á orði þegar ég var mætt: „Eins gott að þetta hafi verið lítil Esther, annars hefði ég troðið henni inn aftur.“ Bella var alltaf með húmorinn á réttum stað, ekki síður en hjartað. Lífsgleðin og hlýjan veitti birtu öllum sem hana þekktu. Hún var fjölskyldunni afar kær. Ég man heimsóknirnar norður með ömmu á æskuárunum og allar góðu stundirnar með henni og fjölskyldunni í gegnum árin. Bella var líka alltaf til í allt, vílaði til að mynda ekki fyrir sér að skjótast á milli landshluta, gjarnan á bílnum, bæði við minni og stærri tækifæri. Hún lét sig ekki vanta þegar við pabbi héldum sameiginlega upp á 120 ára afmæli okkar fyrir þremur árum. Þá var mikið dansað, hlegið og notið. Hún var líka höfðingi heim að sækja og þegar ég leit inn hjá henni á Lindarsíðu með krakkana á síðustu árum var iðulega reitt fram hlaðborð af kaffiveitingum. Hún sýndi einlægan áhuga á því sem allir voru að fást við og börnum mínum fannst alltaf gaman að hitta hana og spjalla. Hún var einstaklega frændrækin. Þegar við fluttum til Akureyrar á táningsárum mínum varð ég þess aðnjótandi að fá að búa fyrstu mánuðina hjá Bellu í Kotárgerðinu svo ég gæti hafið skólagöngu á réttum tíma um haustið og meðan foreldrar mínir gengu frá sínum málum fyrir sunnan. Hún var snillingur í að hræra skyr og ég fékk svo mikið af því að ég gat ekki borðað skyr í mörg ár eftir þessa mánuði hjá Bellu. Hún var pabba líka alveg einstök og á hans yngri árum fékk hann oft að njóta góðmennsku hennar og þeirra hjóna, sem bæði voru honum miklar fyrirmyndir. Þau amma bjuggu einnig hjá þeim hjónum um tíma. Pabbi leit á hana eins og aðra móður sína enda sýndi hún honum einstaka umhyggju alla tíð. Bönd þeirra Bellu voru sterk og styrktust enn frekar þegar pabbi flutti norður aftur, tæpu ári áður en hann kvaddi. Samverustundir þeirra voru þá ekki síst við spilaborðið, en það var gjarnan tekinn bridge þegar hann og Berglind voru í bænum. Ég veit að pabbi tekur vel á móti þér og er örugglega til í að taka nokkur létt spor með þér eins og í stórafmæli okkar feðgina um árið. Takk fyrir allt, elsku Bella, ég hefði ekki getað verið stoltari af fallegu og flottu ömmusystur minni.

Esther.

Ég er leiðastur yfir því að hafa ekki kynnst fyrr í lífinu þeirri stórbrotnu og góðu hefðarkonu sem Bella var en það gerðist ekki fyrr en eftir glæsilegan feril hennar sem formaður Félags eldri borgara á Akureyri sem hún sinnti af sinni alkunnu röggsemi tvisvar eða frá árunum 1994-1996 og aftur frá 2001- 2006 og að vanda lét vel til sín taka, ekki síst hvað varðaði málefni okkar eldri borgara þar sem bæjarstjórn Akureyrar hefur ekki staðið sig sem skyldi og þá sérstaklega í húsnæðismálum. Þannig er að ég undirritaður sé um spilatíma hjá eldri borgurum einu sinni í viku í Bugðusíðu 1, í húsnæði sem við höfum til afnota. Bella var mjög áhugasöm um þessa spilatíma og mætti hnarreist og vel til fara, glæsileg með bros á vör, alltaf létt og í góðu skapi.

Þannig kynntist ég og þekkti þá góðu konu Bellu. Við Bella spjölluðum margt þegar tími vannst til og það voru yfirleitt uppbyggileg samtöl enda hún afburða vel að sér á mörgum sviðum og hreinskiptin mjög. Sem dæmi vil ég nefna að ég skrifa stundum blaðagreinar og oftar en ekki kom Bella brosandi til mín og þakkaði mér fyrir einstaka greinar og ef henni líkaði innihaldið hengdi hún viðkomandi grein á ísskápshurðina hjá sér, það mátti ekki minna vera. Bella, þessi góða kona, var ótrúleg. Eftir langa ævi hefur mér lærst að kalla ekki hvern sem er vin minn en gjörsamlega óhikað kallaði ég Bellu, þessa góðu, hreinskiptnu, hjartahlýju og heiðarlegu konu, vinkonu mína því það var óhætt eftir oft á tíðum gott og hreinskiptið spjall og ekki síður spilamennsku. Áður en ég kynntist Bellu fylgdist ég mjög vel með í fréttum af miklum áhuga hennar á íþróttum og þá sér í lagi afrekum hennar á skíðum en þar var hún sannarlega skíðadrottningin í Hlíðarfjalli og vann til fjölda verðlauna. Hún var ótrúleg en tekið skal skýrt fram að hér er á engan hallað því KA átti margt frábært skíðafólk. Bella spilaði líka handbolta og renndi sér einnig á skautum á Pollinum þegar svo bar undir enda lét hún vel til sín taka á mörgum sviðum íþróttanna.

Eftir að Bella var komin upp á dvalarheimilið Hlíð heimsótti ég hana að sjálfsögðu og þá virkaði hún þreytt en hress og skýr en eftir á hugsaði ég að e.t.v. hefði þetta verið mitt síðasta spjall í þessu lífi við þessa hreinskiptnu, heiðarlegu og hjartahlýju konu.

Eiginmaður Bellu var heiðursmaðurinn og aflaskipstjórinn Baldvin Þorsteinsson, betur þekktur sem Baldi á Súlunni, en hann féll frá alltof ungur aðeins rúmlega 60 ára gamall.

Ég votta að lokum mína dýpstu samúð börnum þeirra frábæru hjóna, þeim Þorsteini Má, Margréti og Finnboga Alfreð, svo og öðrum aðstandendum.

Ég er viss um að Herrann sá eini tekur vel á móti heiðurskonunni og góðum vini, Bellu. Farðu í Guðs friði.

Hjörleifur Hallgríms.