Hjúkrunarfræðingur Auðbjörg Bjarnadóttir við útkallsbíl heilsugæslu á Klaustri. Mörgum krefjandi verkefnum svo sem slysum þarf að sinna.
Hjúkrunarfræðingur Auðbjörg Bjarnadóttir við útkallsbíl heilsugæslu á Klaustri. Mörgum krefjandi verkefnum svo sem slysum þarf að sinna. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Gott neyðarviðbragð á fjölförnustu ferðamannastöðum landsins er mikilvægt og ég hef lagt sérstaka áherslu á þau mál sem ferðamálaráðherra. Aukinn viðbúnaður í Reynisfjöru í Mýrdal er gott dæmi um slíkt,“ segir segir Lilja Alfreðsdóttir ráðherra ferðamála.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Gott neyðarviðbragð á fjölförnustu ferðamannastöðum landsins er mikilvægt og ég hef lagt sérstaka áherslu á þau mál sem ferðamálaráðherra. Aukinn viðbúnaður í Reynisfjöru í Mýrdal er gott dæmi um slíkt,“ segir segir Lilja Alfreðsdóttir ráðherra ferðamála.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu um helgina eru uppi áhyggjur meðal forystufólks á Hornafirði, þess víðfeðma sveitarfélags, af stöðu öryggismála í Öræfasveit og víðar þar í kring. Þúsundir ferðamanna fara þar í gegn á degi hverjum, en nauðsynlegt þykir að styrkja innviði á svæðinu. Óskað er eftir meiri viðveru lögreglu á svæðinu, að hjúkrunarfræðingur sé þar með vakt að staðaldri og fleiri öryggisatriði mætti telja.

Lilja Alfreðsdóttir segist taka undir sjónarmið og óskir Hornfirðinga í málum þessum. Ráðuneyti ferðamála muni fjármagna svonefnda láglendisvakt í Skaftafelli og Öræfum í sumar en henni er sinnt í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörg. Einnig er samvinna ráðuneyta dóms- og heilbrigðismála mikilvæg til að ná raunverulegum árangri. Sérstaklega er þörf á vakt á þessu svæði því langt er á milli þéttbýliskjarna og þörf á að bæta viðbragð á svæðinu. Allt þetta verði annars skoðað heildstætt í tengslum við aðgerðaáætlun ferðaþjónustunnar til 2030. Sú verður byggð á þingsályktunartillögu sem lögð verður fram á Alþingi næsta vetur.

Mörg útköll og alvarleg slys hafa orðið á svæðinu

„Eg tel mikilvægt að bráðaviðbragð í Öræfum og nágrenni verði styrkt, en ekki síður þeir innviðir almannaöryggis sem fyrir eru,“ segir Auðbjörg Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Kirkjubæjarklaustri. Þangað sækir gjarnan fólk úr Skaftafelli og Öræfasveit sem þarfnast bráðrar heilbrigðisþjónustu. Flestum tilfellum sem verða vestan Fagurshólsmýrar í Öræfum er sinnt af þeim sem standa vaktina á Klaustri. Á stöðinni þar er sjúkrabíll en einnig fólksbíll sem notaður er í útköll á svæðinu. Þau hafa verið mörg og má þar nefna slys í árslok 2018; þá létust þrír þegar bíll fór út af brúnni yfir Núpsvötn. Þá hafa orðið rútuslys á þessum slóðum.

„Viðbragðsbíll heilsugæslunnar er gjarnan staðsettur í sveitinni fyrir austan Klaustur vegna búsetu okkar í áhöfninni. Það styttir viðbragðstímann aðeins þegar bráðatilvik í Skaftafelli koma upp. Þar eystra eru líka vettvangsliðar úr björgunarsveit; fólk sem hefur fengið þjálfun í að veita fyrstu hjálp. Þeir geta líka veitt mikilvægar upplýsingar við mat á hvort frekari bjargir þurfi, svo sem þyrlu. Lögreglan gegnir einnig mikilvægu hlutverki í öllu viðbragði,“ sagði Auðbjörg í samtali við Morgunblaðið í gær. Þá var hún stödd á heilsugæslustöðinni á Klaustri að sinna fótbrotnum sjúklingi.

Vel þjálfað reynslufólk skapar grunnþjónustu

„Alvarlegu atvikin; veikindi og slys, sem upp hafa komið í Öræfum og þar í kring hafa vissulega verið áskorun en viðráðanleg. En auðvitað væri mjög gott ef til dæmis hjúkrunarfræðingur væri með aðsetur í Skaftafelli á álagstímum þegar mikill fjöldi ferðafólks er á svæðinu. Tetra-fjarskipti, sem neyðarþjónusta landsins notar, skipta líka miklu máli og er þeim ábótavant eins og staðan er í dag. En því verður að halda til haga að eins og nú háttar er viðbragðsþjónustu á svæðinu sinnt af vel þjálfuðu og reyndu fólki. Með því er kominn grunnur, viðbragð sem hefur sannað gildi sitt,“ segir Auðbjörg.