Umskipti Netin dregin á land í Galle í suðurhluta Srí Lanka.
Umskipti Netin dregin á land í Galle í suðurhluta Srí Lanka. — AFP/Ishara S. Kodikara
Stjórnvöld í Kólombó tilkynntu á laugardag að í ljósi batnandi efnahags yrði innflutningshömlum aflétt af 286 vörutegundum. Reuters greinir frá að þegar djúp kreppa skall á hagkerfi Srí Lanka í fyrra hafi ráðamenn á eyjunni gripið til þess ráðs að…

Stjórnvöld í Kólombó tilkynntu á laugardag að í ljósi batnandi efnahags yrði innflutningshömlum aflétt af 286 vörutegundum.

Reuters greinir frá að þegar djúp kreppa skall á hagkerfi Srí Lanka í fyrra hafi ráðamenn á eyjunni gripið til þess ráðs að takmarka innflutning rúmlega 3.200 vörutegunda með það fyrir augum að vernda gjaldeyrisforða landsins. Eftir tilslakanir helgarinnar eru áfram skorður á innflutningi 928 vörutegunda og eru ökutæki þar á meðal.

Hefur Srí Lanka smám saman rétt úr kútnum og hlaut landið nýlega 2,9 milljarða dala lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ferðaþjónustugeirinn hefur eflst og peningasendingar brottfluttra Srí Lanka-manna aukist að undanförnu og hefur það aukið innstreymi gjaldeyris svo mikið að í maí jókst gjaldeyrisforði landsins um 26%. Þá hefur srílankska rúpían styrkst um 24% það sem af er þessu ári. ai@mbl.is