Fríður Helgadóttir fæddist 13. júní 1942 á Rauðalæk, Holtum, Rangárvallasýslu. Hún lést í Ottawa í Kanada 21. júní 2021.

Fríður var dóttir hjónanna Helga Hannessonar frá Sumarliðabæ, f. 23.6. 1896, d. 23.4. 1989, og Margrétar Sigurðardóttur frá Brekkum í Holtum, f. 22.7. 1917, d. 3.2. 1987, og var Fríður þriðja í röð fimm systkina. Systkini Fríðar eru Heiður, f. 19.2. 1940, Hugi, f. 11.3. 1941, Þrúður, f. 10.5. 1944, og Hilmir, f. 12.11. 1945.

Fríður giftist Bruce Moody Kalbfleisch, f. 6.12. 1944 í Kanada. Foreldrar hans voru hjónin Moody Edward Kalbfleisch og Ruth Verona Boese, sem bæði eru látin. Systir Bruce er Karol Katherine, gift Allan Kovacs.

Fríður og Bruce bjuggu allan sinn búskap í Ottawa, höfuðborg Kanada.

Börn Fríðar og Bruce eru: 1) Adam Lance lögmaður (ræðismaður Íslands í Toronto), f. 8.5. 1971, giftur Jessicu Roberts, f. 4.7. 1984. Börn þeirra eru Atli Jasper, f. 5.7. 2019, og Linnéa Rita, f. 22.2. 2022. Dóttir Adams af fyrra hjónabandi er Isadora Freyja, f. 11.3. 2008. 2) Dale Robert, trésmiður og kvikmyndagerðarmaður, f. 29.3. 1974. Kona hans er Lee-Anne Sant ’Andrea, f. 9.9. 1965.

Fríður ólst upp á Brekkum í Holtum og Ketlu á Rangárvöllum. Hún gekk í barnaskóla á Skammbeinsstöðum í Holtum og Strönd á Rangárvöllum og fór síðar í Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Hún stundaði ung ýmis störf, m.a. við fatagerð, fiskvinnslu, o.fl.

Fríður kynntist unnusta sínum Bruce í Vestmannaeyjum og fluttu þau til Kanada, þar sem hún bjó upp frá því, í rúma hálfa öld.

Þar fór hún síðan í nám og lærði verndun og viðgerð gamalla bóka og starfaði að því loknu sem forvörður við landsbóka- og skjalasafnið í Ottawa (Library and Archives, Canada) þar til hún lét af störfum vegna aldurs.

Fríður tók virkan þátt í félagsskap Íslendinga í Ottawa, „Friends of Iceland“.

Ekki var hægt, sökum Covid-faraldursins, að halda útför Fríðar á sinum tíma og var því ákveðið að hafa minningarathöfn síðar. Hún fer fram í Cedar Hill Golf and Country Club í Ottawa í dag, 12. júní 2023, og hefst klukkan 13.

Fríður og systkini hennar áttu æskuár sín í Holtum og á Rangárvöllum, þar sem víða er flatlent og frjósamt land. Fjallakóróna til norðurs og höfuðdjásnið Hekla, sem minnti á sig á stundum með eldi og ösku.

Húsdýrin voru vinir og leikfélagar systkinanna og enn heimsækja þau, sem því við koma, uppáhaldsstaðina eystra. Þau voru umkringd sagnafólki og íslenskri menningu eins og hún var best. Mikið var lesið og bækur í hávegum hafðar.

Á unglingsárum fór Fríður að vinna fyrir sér og vann m.a. á Álafossi og eignaðist þar vinahóp sem hittist reglulega, þótt fækkað hafi í hópnum. Hún fór í Húsmæðraskólann á Laugarvatni og eignaðist þar ævivinkonur. Ýmsa vinnu stundaði hún innan lands og utan, var m.a. au-pair á Englandi, starfaði á hóteli í Danmörku, saltaði síld og vann í frystihúsum og safnaði til ferðalaga. Bruce, mannsefnið sitt, hitti hún í Vestmannaeyjum. Þau fóru saman til Spánar, en 1967 flytja þau til Kanada, þar sem þau bjuggu síðan. Bruce var háttsettur í stjórnsýslu Kanada að námi loknu.

Fríður lærði verndun, viðgerðir og varðveislu bóka og skjala og vann við það hjá kanadíska ríkinu. Ástin á bókunum fluttist með henni til nýrra heimkynna.

Hún var dugleg að heimsækja Ísland með alla fjölskylduna og ferðaðist þá um landið oft með Sólveigu frænku sinni og Guðjóni manni hennar og okkur systkinunum.

Í þessum ferðum urðu synir Fríðar miklir Íslendingar og Dale kom hingað í skóla og vinnu til að læra íslensku. Hann gerði síðar kvikmynd um íslensku fjölskylduna sína og tengslin við Kanada, sem vakti athygli víða.

Adam er lögmaður í Toronto og er nú ræðismaður Íslands í borginni og býr þar með fjölskyldu sinni.

Fríður og fjölskylda hennar buðu stelpunum okkar ungum, þeim Söru Lind og Heklu Dögg, sitt hvort árið til sumardvalar í Ottawa þar sem þær kynntust kanadíska frændfólkinu sínu og náðu tökum á enskunni. Við og þær erum alltaf þakklát fyrir þennan höfðingsskap.

Fríður var ein af stofnendum „Friends of Iceland“ í Ottawa og var alltaf virk í því starfi.

Hún átti góðan bókakost á heimilinu, bæði íslenskar og kanadískar bækur. Hún hafði áhuga á ættfræði og sagnahefð enda alin upp við hvort tveggja.

Fríður ferðaðist mikið í Norður-Ameríku enn einnig fór fjölskyldan í stórar ferðir til Evrópu.

Fríður var ráðagóð, yfirveguð og gestrisin, en þeir kostir prýða kvenlegg ættarinnar langt aftur í aldir.

Ég votta aðstandendum Fríðar samúð mína og þakka áratuga vináttu og velvild.

Guð blessi minningu Fríðar mágkonu minnar.

Atli
Ásmundsson.