Skólaseinkun Niðurstöður svefnrannsókna og álit borgarfulltrúa, kennara og nemenda ýta undir að seinkun skóladags verði hrint í framkvæmd.
Skólaseinkun Niðurstöður svefnrannsókna og álit borgarfulltrúa, kennara og nemenda ýta undir að seinkun skóladags verði hrint í framkvæmd. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Mist Þormóðsd. Grönvold mist@mbl.is Tillaga borgarstjóra um útfærslu á seinkun á upphafi skóladags grunnskóla í Reykjavík hefur verið samþykkt. Í tillögunni er skóla- og frístundasviði falið að leggja grunn að breiðu samráði um áhugaverðustu og bestu leiðir til að seinka upphafi skóladags í grunnskólum Reykjavíkur.

Sviðsljós

Mist Þormóðsd. Grönvold

mist@mbl.is

Tillaga borgarstjóra um útfærslu á seinkun á upphafi skóladags grunnskóla í Reykjavík hefur verið samþykkt. Í tillögunni er skóla- og frístundasviði falið að leggja grunn að breiðu samráði um áhugaverðustu og bestu leiðir til að seinka upphafi skóladags í grunnskólum Reykjavíkur.

Í tillögunni segir að við útfærslu seinkunar upphafs skóladags verði horft til ólíkra valkosta og leiða sem í boði eru, þar á meðal til nýlegra rannsóknarniðurstaðna um áhrif á upphaf skóladags á svefn.

Sterkar forsendur og samstaða um seinkun skóladags

Sterkar forsendur eru fyrir seinkun upphafs skóladags grunnskólabarna og hefur hugmyndin nú þegar fengið talsverðan hljómgrunn hjá borgarstjórnarfulltrúum, sérfræðingum, kennurum og nemendum grunnskóla Reykjavíkur.

Í fundargerð borgarráðs koma fram sjónarmið tveggja áheyrnarfulltrúa sem lýsa stuðningi sínum við seinkunina. Borgarráðsfultrúi sósíalistaflokks Íslands bendir á stillingu klukkunnar á Íslandi og neikvæðar afleiðingar núverandi fyrirkomulags. „Þegar klukkan er 8:00 samkvæmt opinberum tíma hérlendis er hún í raun 7:00, og jafnvel má færa rök fyrir því að hún sé 06:00. Í raun lifa Íslendingar á vitlausum tíma sem hlýtur að hafa áhrif á svefngæði,“ segir í bókuninni.

Þá vísar áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins til svefnrannsókna sem sýnt hafi fram á áhrif svefns á heilsu barna og hvetur til þess að verkefninu verði hrint í framkvæmt við fyrsta tækifæri.

Við gerð tillögunnar var sérstaklega horft til nýlegrar íslenskrar rannsóknar sem kannaði áhrif seinkunar skóladags á klukkuþreytu barna á grunnskólaaldri. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á almenna ánægju bæði nemenda og kennara með seinni skólabyrjun.

Betri svefn unglinga í Reykjavík – áhrif seinkunar skólabyrjunar á svefn unglinga er heiti rannsóknarinnar sem höfð var til hliðsjónar við gerð tillögunnar. Rannsóknin, sem er meistaraverkefni Ágústu Dan Árnadóttur við Háskólann í Reykjavík, var unnin í samstarfi við Reykjavíkurborg, Betri svefn og embætti landlæknis.

Skoða ólíkar útfærslur

Borgarráð leggur áherslu á að sú útfærsla á seinkun skóladags sem verði fyrir valinu kallist á við menntastefnu borgarinnar og styðji því við nám, lýðheilsu og góðan skólabrag. Þá kemur einnig fram að mikilvægt sé að huga að því hvaða móttaka eða þjónusta gæti verið í boði á morgnana svo hægt sé að koma til móts við nemendur sem búi við krefjandi aðstæður eða kjósi að koma fyrir upphaf skóladags.

Seinkun á upphafi skóladags þarf ekki að þýða að skóladagurinn lengist, en tillagan kveður á um að lagt verði upp úr því að kanna hvaða tækifæri séu fyrir hendi til þess að innleiða breytingar á stundatöflum án þess að lengja heildar skóla- og frístundadag barna. Þá verður einnig hugað að því hvernig breytt fyrirkomulag skóladags geti komið til móts við hugmyndir skólastjórnenda, kennara og annars starfsfólks og óskir þeirra um að sinna undirbúningi fyrir eða eftir skipulagðan skóladag.

Til að vinna að hugmyndum um seinkun skóladags verða kallaðir til fulltrúar nemenda, kennara, starfsfólks og sérfræðinga á sviði svefns, lýðheilsu og fjármála.

Betri svefn unglinga

Með minni klukkuþreytu

Í meistaraverkefni Ágústu Dan Árnadóttur var svefn 104 grunnskólabarna þriggja ólíkra skóla Reykjavíkur mældur með snjallúrum og byrjaði þriðjungur barnanna 40 mínútum seinna í skólanum en hinir tveir. Sá hópur svaf lengur en hinir og mældist einnig með marktækt minni klukkuþreytu.

Klukkuþreyta (social jetlag) er þegar einstaklingar bæta upp skertan svefn á virkum dögum með því að sofa meira um helgar. Hún veldur ójafnvægi á svefni og hefur verið tengd við lakari námsárangur, aukna offitu og hegðunarvanda unglinga.

Auk niðurstaðna sem bentu til jákvæðra áhrifa af seinkun skóladags sýndi viðhorfskönnun rannsóknarinnar einnig fram á almenna ánægju meðal nemenda og kennara með seinni skólabyrjun.

Höf.: Mist Þormóðsd. Grönvold