Stjórnleysi í málefnum hælisleitenda er orðið dýrkeypt

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins nefndi í umræðum á þingi á dögunum að stjórnleysi ríkti í málefnum hælisleitenda. Benti hann á að hingað væri hlutfallslega 20 sinnum meiri aðsókn hælisleitenda en til Danmerku og að á þessu ári mundu líklega fleiri koma til Íslands í slíkum tilgangi en til Danmerkur.

Í samtali við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, á mbl.is um helgina kom fram að það setti „strik í reikninginn í fjármálum ríkissjóðs þegar flóttamannavandinn skellur á okkur, ekki bara vegna Úkraínustríðsins heldur víða annars staðar frá. Það hefur tekið Alþingi allt of langan tíma að bregðast við með breytingu á lögum og reglum,“ sagði hann, og bætti við að dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hefðu ár eftir ár lagt fyrir þingið tillögur um að bregðast við vandanum en loks á þessu ári náðust fyrstu breytingarnar í gegn á þinginu.

Þetta er alvarlegt, ekki síst í ljósi þess hve skammt nýsamþykktar breytingar ganga. Þegar horft er á upphæðirnar sem þetta kostar skattgreiðendur verður málið enn alvarlegra. Bjarni sagði að kostnaður ríkissjóðs hefði aukist mikið og hann væri nú orðinn meira en fimmtán milljarðar króna á ári. „Þetta eru mjög stórar fjárhæðir. Þetta eru fjárhæðir sem voru innan við milljarður þegar ég byrjaði í ráðuneytinu,“ sagði Bjarni.

Þegar þróunin er með þessum hætti er ekki skrýtið að rætt sé um stjórnleysi. Jákvætt er að formenn þessara tveggja flokka skilji vandann, en því miður virðist mikið vanta upp á að sá skilningur sé útbreiddur á Alþingi.