Steinn Jónsson
Steinn Jónsson
Nú hafa hins vegar verið teknar tímamótaákvarðanir um að ljúka þessari uppbyggingu eins fljótt og auðið er og leggja 210 milljarða króna í verkefnið.

Steinn Jónsson

Nú stendur yfir stærsta innviðauppbygging í sögu landsins þar sem er bygging Landspítalans við Hringbraut. Hugmyndir um nýbyggingu fyrir sjúkrahúsin í Reykjavík höfðu verið til umræðu lengi en komust á skrið eftir sameiningu sjúkrahúsanna árið 2000 en húsnæði þeirra er komið mjög til ára sinna og þarfnast endurnýjunar. Sameining sjúkrahúsanna var umdeild á sínum tíma og ekki er víst að allir séu sannfærðir enn þann dag í dag um að rétt hafi verið að steypa öllum sjúkrahúsrekstri á höfuðborgarsvæðinu í einn ríkisrekinn spítala. Þó var ljóst frá upphafi að ef faglegur ávinningur og rekstrarlegt hagræði ætti að geta tekist væri alger forsenda fyrir því að sameina spítalann á einum stað, helst undir sama þaki.

Undirbúningur fyrir þessar stórframkvæmdir tók hins vegar lengri tíma en æskilegt hefði verið. Efnahagshrunið setti stórt strik í reikninginn og frestaði endanlegum ákvörðunum um allt að tíu ár. Þetta var auðvitað óheppilegt en óhjákvæmilegt úr því að ekki tókst að vinna verkefnið hraðar. Starfsemi LSH hefur liðið fyrir það að vera stunduð í mörgum húsum þar sem mikilvægar sérgreinar sem eiga að styðja hver aðra eru hver sínum megin við Öskjuhlíðina. Starfsfólk LSH hefur hins vegar sýnt ótrúlega þrautseigju og unnið þrekvirki dag eftir dag við að halda uppi þjónustunni við erfiðar aðstæður. Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika hefur Ísland skorað nokkuð hátt í alþjóðlegum gæðakönnunum, samanber grein í breska tímaritinu Lancet árið 2018 þar sem Ísland var í öðru sæti yfir þróuð ríki varðandi gæði og aðgengi í heilbrigðisþjónustu.

Lengi höfðu menn áhyggjur af því að ekki væri verið að endurnýja allt húsnæði og aðstöðu á fullnægjandi hátt, svo sem fyrir geðlækningar sem hafa liðið fyrir aðstöðuleysi umfram margar aðrar sérgreinar. Nú hafa hins vegar verið teknar tímamótaákvarðanir um að ljúka þessari uppbyggingu eins fljótt og auðið er og leggja 210 milljarða króna í verkefnið. Þetta eru stórtíðindi og mikið gleðiefni fyrir þá sem starfa í heilbrigðisþjónustunni og alla landsmenn. Búast má við því að þetta hafi jákvæð áhrif á nýliðun heilbrigðisstétta og að auðveldara verði að fá fólk til starfa í framtíðinni. Hundruð hjúkrunarfræðinga eru að vinna önnur störf og fjölmargir vel menntaðir sérfræðilæknar eru starfandi erlendis og koma ekki heim. Ísland þarf á þessum starfskröftum að halda og bygging nýs spítala getur með öðrum ráðstöfunum orðið stór liður í því að laða sérhæft starfsfólk með nýja þekkingu til landsins.

Ekki eru þó öll vandamál leyst með einni nýbyggingu þótt mikilvæg sé. Stór hluti þjónustu við sjúklinga fer fram utan sjúkrahúsa og mikilvægt er að bæði heilsugæslan og starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks fái að njóta sín á viðunandi hátt. Opinberir aðilar og einkarekin fyrirtæki eiga að vinna saman við að veita gæðaþjónustu í viðeigandi starfsumhverfi. Áríðandi er að gerður verði samningur við sjálfstætt starfandi sérfræðilækna sem tryggir vöxt og viðgang þeirrar starfsemi með eðlilegri kostnaðarþátttöku sjúkratrygginga. Nýlegur samningur um liðskiptaaðgerðir utan opinberra sjúkrahúsa er vonandi vatnaskil og mikilvægt fordæmi sem mun stytta biðlista og tryggja landsmönnum þjónustu sem þeir eiga rétt á innan tilskilins tíma. Ber að lofa núverandi heilbrigðisráðherra fyrir að taka af skarið í því máli. Þá geta sjálfstætt starfandi sálfræðingar átt mikilvæga hlutdeild í að leysa aðkallandi vandamál í geðþjónustu ef við þá verður gerður sambærilegur samningur og nú er í gildi við sérfræðilækna. Þegar á heildina er litið virðist framtíðin vera björt ef vel er á málum haldið og ef skynsamlega verður unnið úr þeirri stöðu sem er að raungerast á næstu misserum.

Höfundur er prófessor emeritus í lyflækningum og lungnasjúkdómum.

Höf.: Steinn Jónsson