Lóan er komin að kveða burt snjóinn orti Páll Ólafsson forðum um sumarboðann lóuna. Hugi Ólafsson tekur upp þráðinn þar sem frá er horfið: Lóan er komin, sá lánlitli fugl, sem laus er við árstíðagreind; hennar vorsöngvar hljóma sem voðalegt rugl þegar veturinn bítur í reynd

Lóan er komin að kveða burt snjóinn orti Páll Ólafsson forðum um sumarboðann lóuna. Hugi Ólafsson tekur upp þráðinn þar sem frá er horfið:

Lóan er komin, sá lánlitli fugl,

sem laus er við árstíðagreind;

hennar vorsöngvar hljóma sem voðalegt rugl

þegar veturinn bítur í reynd.

Hún dirrindí kveður um draumhlýja sól

sem dúnhnoðra fjörgar með yl

á meðan hún skjálfandi finnur sér skjól

undir skafli í norðvestanbyl.

Með fölskum tóni sín fattleysisljóð

hún flytur á vorlausum stað

og lóan er elskuð af íslenskri þjóð

einmitt og mest fyrir það.

Greint var frá því fyrir skemmstu að Árni Johnsen væri fallinn frá. Hann var vinmargur, átti marga hlýja strengi í brjósti sínu og var jafnan hrókur alls fagnaðar. Og svo var hann mikill vísnavinur, bæði í söng og starfi. Gott dæmi um það eru bækurnar bráðskemmtilegu Þá hló þingheimur.

Arinbjörn Vilhjálmsson minnist hans:

Nú Eyjafólkið fyllist sorg

er finnur Árni róna

og á engilhörpu í himnaborg

hengir arnarklóna.

Bjarki Karlsson bregður á leik:

Fyrst skróp heitir skólaforðun

er skjótun á fólki þá morðun?

Hvort er feimni þá löskun

eða löskunarröskun

á samfélagsþáttökuþorðun?

Jón Jens Kristjánsson kastar fram limru:

Sagt er um Guðmund frá Geysi

að hann götur á rafskútu þeysi

helst til of greitt

og hái ekki neitt

nema heyrnar- og gleraugnaleysi.

Í gömlu handriti fann ég limru eftir skáldið Kristján Karlsson:

Dimmt er vestur hjá Djúpi

og draugar á hvítum hjúpi

fara leið sína um allt.

Það er andskoti kalt.

Og ekkert gaman á Núpi.

Með þessu fylgir athugasemd skáldsins í léttum dúr: „Þarna er Vestfjörðum rétt lýst, þó að ég hafi ekki hugmynd um það.“