Sigurður Skarphéðinsson fæddist á Minna-Mosfelli í Mosfellsdal 17. febrúar 1939. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eir 31. maí 2023.

Foreldrar hans voru Skarphéðinn Sigurðsson, f. 1885, d. 1971 og Katrín Guðmundsdóttir, f. 1900, d. 1992. Bræður hans eru Guðmundur Óskar, f. 1923, d. 2000 og Skúli Viðar, f. 1930.

Eiginkona Sigurðar er Guðrún Vilborg Karlsdóttir, f. 5. maí 1945. Þau giftust 12. júní 1965. Börn þeirra eru: 1) Skarphéðinn, f. 1965, búsettur í Danmörku. 2) Karl, f. 1966, búsettur í Noregi, sambýliskona Tina Kronborg, börn hans: Robert, f. 1987, d. 2018 og Teresa, fædd 1992, í sambúð með Daniel Gran og sonur þeirra er William Robert, f. 2023. 3) Sigríður, f. 1972, búsett í Reykjavík, sambýlismaður Björn Magnússon, f. 1971. Börn hennar eru: a) Hafþór Skarphéðinn, f. 1994, kvæntur Halldóru Aðalheiði Ólafsdóttur og börn þeirra eru Róbert Logi, f. 2018 og Rebekka Sól, f. 2020. b) Katrín Mjöll, f. 1999. 4) Guðmundur, f. 1973, búsettur í Reykjavík, börn hans eru Ísak Máni, f. 2003, Adam Orri, f. 2006 og Íris Dana, f. 2012. 5) Óskar, f. 1973, búsettur í Mosfellsbæ og dóttir hans er Freydís Arna, f. 2012.

Sigurður bjó alla tíð í Mosfellsdal, fyrst á Minna-Mosfelli og byggði síðar í túninu heima, Sigtúni, og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni frá árinu 1972. Hann starfaði lengst af sem vélvirki, fyrst hjá Dráttarvélum en keypti síðan verkstæðishlutann ásamt félaga sínum og úr varð Ístraktor. Hann starfaði þar til ársins 1985, eftir það fór hann í eigin rekstur sem leiddi til stofnunar á eigin fyrirtæki, MF þjónustunni, sem hann rak ásamt Guðmundi syni sínum til ársins 2005. Þá seldu þeir hluta þess til Vélfangs þar sem hann starfaði til starfsloka árið 2009. Í störfum sínum ferðaðist hann um allt land og sinnti viðgerðum á búnaðartækjum og var vel þekktur hjá flestum bændum landsins. Áhugi hans á dráttarvélum fylgdi honum alla tíð og síðustu árin gerði hann upp marga dýrgripina ásamt því að aðstoða og leiðabeina mönnum með sama áhugamál.

Hann hafði mikinn áhuga á samfélagsmálum og sinnti félagsmálum fram á síðustu stundu. Hann var m.a. formaður Aftureldingar og UMSK á yngri árum. Þá var hann liðtækur framsóknarmaður um árabil og kom þar að sveitarstjórnarmálum. Hann var einn af stofnendum Kiwanisklúbbsins Mosfells, var fimmti forseti klúbbsins og hlaut m.a. æðstu orðu Kiwains-hreyfingarinnar í apríl 2022. Hann var einnig einn af stofnendum Fergusonfélagsins og var í stjórn þess í mörg ár. Í þessum félögum var hann heiðursfélagi.

Útför Sigurðar fer fram í dag, 12. júní 2023, klukkan 14 á Mosfelli í Mosfellsdal og verður útförinni streymt:

https://www.mbl.is/andlat

Fallinn er frá Sigurður Skarphéðinsson, heiðursfélagi Kiwanisklúbbsins Mosfells. Sigurður var kiwanismaður af lífi og sál og reyndist okkur í klúbbnum ómetanlegur og vann öll sín verk óaðfinnanlega. Til margra ára sá hann um fjármál klúbbsins. Hans hjartans mál var að efla og styðja við starfsemi barnaheimilisins Reykjadals í Mosfellsdal. Ef hann náði okkur klúbbfélögum ekki með sér fór hann og leysti verkin einn, svo sómi var að.

Ekki verður æviferill Sigurðar rekinn hér, það verður örugglega gert af öðrum. Við viljum þakka Sigurði fyrir öll þau ánægjulegu samskipti sem við höfum átt við hann gegnum tíðina og vottum Gógó eiginkonu hans og aðstandendum öllum samúð okkar. Það verður gott að eiga þennan öðling að innan við hliðið. Og ekki mun af veita þegar við komum og berjum dyra.

Pétur Jökull Hákonarson,
Magnús Þorvaldsson,
Guðni Guðmundsson.

Ég kynntist Sigga fyrst fyrir um 60 árum. Konur okkar, Gógó og Idda, eru báðar úr Djúpinu, Gógó frá Birnustöðum og Idda frá Bæjum. Þær voru saman í Reykjanesskóla frá barnsaldri til unglingsára og upp frá því voru þær alltaf góðir vinir.

Við hjónin ferðuðumst með þeim bæði hérlendis og til Evrópu, Lúxemborgar, Þýskalands, Noregs og Danmerkur. Eftirminnileg er heimferð vestan af Birnustöðum með þeim hjónum um páska er við lentum í páskahreti og ófærð á heiðunum og þurftum að fara Strandir suður en þá kom sér vel að við vorum á öflugum pallbíl þeirra.

Við Siggi fórum oft saman á skíði, bæði gönguskíði og svigskíði, á flest skíðasvæði landsins. Við fórum nokkrar ferðir í Alpana í góðra vina hópum. Margar ferðir fórum við í Skálafell sem var uppáhaldsskíðasvæði Sigga. Þegar við vorum yngri þá vorum við um helgar heilan dag og alltaf mættir þegar var opnað að morgni. Renndum okkur í brekkunum til hádegis og þá voru orðnar langar biðraðir, þá fengum við okkur nesti og síðan fórum við á gönguskíði og áður en við fórum heim voru farnar nokkrar ferðir aftur í brekkunum. Þá var nægt pláss og margir farnir heim. Við Siggi fórum eitt skiptið á skíðasvæðin hringinn í kringum landið, byrjuðum í Oddsskarði, síðan á Seyðisfjörð, Dalvík, Siglufjörð og Tindastól. Alltaf var slakað á í sundlaugunum á hverjum stað eftir skíðadaginn. Við Siggi fórum í síðustu stóru skíðaferðina 2019 til Ítalíu í tilefni 80 ára afmælis hans sem var frábær og eftirminnileg ferð.

Haust- og vorferðir fórum við í Djúpið, Birnustaði og margar smalaferðir í Bæi. Við fórum oft í fjallgöngu og gengum líka mörgum sinnum fram að Drangajökli í Kaldalóni að fylgjast með hvernig jökullinn hopaði og landið kom undan honum. Siggi var handlaginn maður og hjálpaði okkur oft og tíðum við smíðar á sumarbústað okkar á Lónseyri og hann hjálpaði mér stundum við viðgerðir á heimilisbílnum okkar. Ferðir okkar um landið voru lærdómsríkar með Sigga, hann var mjög kunnugur vegna starfa sinna við viðhald og viðgerðir á Ferguson um allt land, þekkti flesta bæi, vissi hvaða traktorstegund var á hverjum bæ, hvort þar byggi sjálfstæðismaður eða framsóknarmaður eftir tegund. Siggi var skemmtilegur sögumaður og sagði margar sögur frá heimsóknum sínum um sveitir landsins.

Ég sakna góðs vinar en gott er að eiga góðar minningar.

Við hjónin sendum innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Þórir Kjartansson.

Mosfell og Minna-Mosfell, þessar gömlu bújarðir liggja samhliða í norðanverðum Mosfellsdal; á uppvaxtarárum mínum á Mosfelli bjuggu Skarphéðinn og Katrín á Minna-Mosfelli og síðan tók Guðmundur sonur þeirra við búinu. Hann var „bóndi af guðs náð“ var eitt sinn sagt um hann í Dalnum.

Á þeim árum var Sigurður ævinlega kallaður Siggi á Minna, hann valdi sér aðra lífsleið, mér er þó í barnsminni þegar hann ók um túnin í dalnum á dráttarvél og sló ilmandi grasið inn í bjarta sumarnóttina. Það voru einmitt dráttarvélar sem urðu ævilangt viðfangsefni Sigga og vandfundinn sá maður sem var betur að sér á þeim vettvangi.

Ég á einnig góðar minningar um Sigga sem ungmennafélaga, hann var mikill leiðtogi á því sviði, formaður Aftureldingar rúmlega tvítugur og á árunum 1970-1974 gegndi hann formennsku í Ungmennasambandi Kjalarnesþings (UMSK). Um störf sín innan sambandsins sagði hann í viðtali fyrir nokkrum árum: „Þetta voru skemmtileg og gjöful ár í mínu lífi. Ég hef bara fundið fyrir þakklæti hjá fólki og maður er enn að hitta fólk á förnum vegi sem heilsar mér og segist muna eftir mér frá þessum UMSK-árum. Fólk sem var kornungt þá en er kannski orðið sextugt í dag. Það er bara gaman að því þegar það gerist.“

Siggi var mikill útivistarmaður, hann gjörþekkti náttúru og sögu dalsins og gekk löngum um sínar heimaslóðir, léttur í spori. Örlögin höguðu því þannig að við Siggi og fjölskyldur okkar urðum nágrannar í Mosfellsdal, þar á milli hefur ævinlega verið traust vinátta.

Við Þóra vottum öllum aðstandendum innilegustu samúð okkar.

Bjarki Bjarnason.

Ég kynntist Sigga fyrir mörgum árum í gegnum tengdaforeldra mína en þau eru aldavinir Sigga og Gógóar. Ég á margar góðar minningar um Sigga og ekki síst nokkrar ógleymanlegar vetrarferðir sem ég fór með honum og tengdaföður mínum vestur í Kaldalón í alls konar veðrum og færð. Siggi var skemmtilegur ferðafélagi og bjó yfir víðtækum fróðleik sem ég reyndi af besta megni að nema af honum. Sérstaklega reyndi ég að drekka af viskubrunni hans varðandi búvélar og dráttarvélar. Seinna, þegar ég fór út í kaup á slíkum vélum sjálfur, naut ég þekkingar Sigga og skoðaði hann nokkra traktora með mér. Ég keypti tvisvar sinnum Massey Ferguson-dráttarvél með hans aðstoð og í seinna skiptið fann ég mína draumavél. Sá galli var þó á henni að hún var án ámoksturstækja. Úr þessu vandamáli leysti Siggi með því að setja ámoksturstæki á vélina í bílskúrnum heima hjá sér við Sigtún. Það stóð alltaf til að við myndum vinna verkið saman en Siggi var meira og minna búinn með ásetninguna þegar ég kom. Mér er það minnisstætt hvað mér fannst það stórkostlegt hve auðvelt hann virtist eiga með þessa vinnu og vera hraustur miðað við aldur. Siggi var afslappaður, hafði góða nærveru og sýndi öðrum einlægan áhuga. Við Þórhildur kveðjum kæran vin með þakklæti og sendum fjölskyldunni hans hlýjar kveðjur.

Viggó Þór Marteinsson.