Markmið Thomson segir það m.a. hjálpa að lágmarka þann tíma sem flugvélar eru í lausagangi á leiðinni til og frá flugstöð. Sumir flugvellir hafa búið til hvata sem verðlauna flugfélög fyrir að nota sparneytnari flugvélar.
Markmið Thomson segir það m.a. hjálpa að lágmarka þann tíma sem flugvélar eru í lausagangi á leiðinni til og frá flugstöð. Sumir flugvellir hafa búið til hvata sem verðlauna flugfélög fyrir að nota sparneytnari flugvélar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Isavia og franski fjárfestingasjóðurinn Ardian hafa efnt til samstarfs um að mæla af nákvæmni óbeina losun gróðurhúsalofttegunda á Keflavíkurflugvelli. Við mælingarnar er notaður hugbúnaðurinn Ardian Air Carbon, sem gagnavísindadeild Ardian hefur þróað, og safnar hann saman ótal gögnum úr starfsemi flugvallarins sem síðan eru notuð til að reikna út losunarspor ýmissa þátta í rekstrinum.

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Isavia og franski fjárfestingasjóðurinn Ardian hafa efnt til samstarfs um að mæla af nákvæmni óbeina losun gróðurhúsalofttegunda á Keflavíkurflugvelli. Við mælingarnar er notaður hugbúnaðurinn Ardian Air Carbon, sem gagnavísindadeild Ardian hefur þróað, og safnar hann saman ótal gögnum úr starfsemi flugvallarins sem síðan eru notuð til að reikna út losunarspor ýmissa þátta í rekstrinum.

Pauline Thomson, sem stýrir stafrænni nýsköpun hjá innviðasviði Ardian, segir samstarfinu ætlað að draga betur fram svokallaða þriðja stigs kolefnislosun (e. scope 3), en það er sú óbeina losun sem á sér stað í virðiskeðju fyrirtækja: „Í tilviki flugvallar nær mælingin t.d. til þeirrar losunar sem rekja má til lendingar og flugtaks flugvéla, og til ökutækja sem notuð eru á flugvallarsvæðinu. Hugbúnaðurinn safnar saman gögnum um alla umferð um flugvöllinn og reiknar jafnharðan þá losun sem á sér stað í rekstrinum,“ útskýrir hún en Ardian Air Carbon er nú þegar í notkun á flugvöllum í eigu Ardian í Mílanó, Napólí og Tórínó.

Með nákvæmari og skýrari gögn í höndunum segir Thomson að stjórnendur Isavia geti betur komið auga á hvar ráðast megi í úrbætur til að minnka losunarspor flugvallarins enn frekar. Byggist mælingin á leiðbeiningum ACA (Airport Carbon Accredidation) sem vottar losunaraðgerðir flugvalla um allan heim. „Gagnasöfnunin og úrvinnslan fer fram með sjálfvirkum hætti og útheimtir því ekki aukna vinnu af hálfu flugvallarins, en hægt er að nýta niðurstöðurnar til að gera starfsemina skilvirkari.“

Greiðari umferð minnkar fótsporið

Sem dæmi um þau skref sem hægt er að taka, þegar nákvæm mæling liggur fyrir, er að bæta umferð flugvéla bæði fyrir og eftir lendingu. „Með því að ná fram bættu flæði er hægt að koma í veg fyrir óþarfa tafir sem þýðir að flugvélar eru síður með hreyflana í lausagangi á leið sinni til og frá flugstöðinni. Eins er hægt að bæta skilvirkni farartækja á jörðu niðri, eða skipta bensín- og díselfarartækjum út fyrir rafdrifin ökutæki,“ útskýrir Thomson. „Sumir flugvellir hafa meira að segja farið þá leið að veita flugfélögum fjárhagslega hvata til að nota sparneytnari flugvélar sem losa minna af gróðurhúsalofttegundum.“

Um prufuverkefni er að ræða og segir Thomson að fyrst um sinn verði Ardian Air Carbon matað á eldri gögnum úr starfsemi flugvallarins og útreikningar hugbúnaðarins bornir saman við þá losunarútreikninga sem Isavia hefur þegar látið gera.

Thomson bendir á að minnkað kolefnisspor geti enn fremur haldist í hendur við bættan rekstur. „Það sparar flugfélögunum eldsneyti ef flugvélar þeirra eru ekki lengi að fara í loftið og eiga greiða leið að flugstöðinni, og bætt skilvirkni í allri þjónustu á jörðu niðri þýðir að nýta má tæki og starfskrafta betur, svo ekki sé talað um betri upplifun farþega.“