Viðreisn reynir ítrekað að nýta sér neyð Úkraínu

Íslendingar hafa veitt Úkraínu margvíslegan stuðning í þeim mikla vanda sem landið glímir nú við eftir innrás Rússa. Óhætt er að segja að mikill stuðningur sé hér á landi við stuðninginn enda fáir sem hafa samúð með málstað Rússa en langflestir með úkraínsku þjóðinni.

Í fyrravor var samþykktur stuðningur sem fólst í niðurfellingu tolla á landbúnaðarafurðir. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, vék að þessu í þingræðu í lok maí og benti þar á að fyrir hefði legið að þessi stuðningur mundi falla niður. Aðgerðin hafi verið tímabundin og táknræn á sínum tíma enda hafi innflutningur frá Úkraínu verið óverulegur.

Síðan rakti Guðrún hvernig aðstæður hefðu breyst og gríðarleg aukning orðið á innflutningnum, einkum þó af alifuglakjöti. Þá sagði hún að það gæti ekki „hafa verið ætlun okkar þingmanna að raska verulega og tefla í tvísýnu rekstrargrundvelli íslenskra bænda með tímabundinni ráðstöfun“.

Niðurstaðan varð svo sú, að efnahags- og viðskiptanefnd studdi ekki framlengingu bráðabirgðaákvæðisins og það kom því ekki til afgreiðslu þingsins og fellur úr gildi.

Allt er þetta eðlilegt og sjálfsagt enda rétt ábending hjá formanni efnahags- og viðskiptanefndar að óeðlilegt væri að ógna rekstrargrundvelli einnar atvinnugreinar vegna stuðnings við Úkraínu. Það þýðir ekki að vilja skorti til að styðja Úkraínu, eingöngu að sá stuðningur má ekki hafa slíkar afleiðingar.

Jafn sjálfsagt mál og þetta hefði ekki vakið athygli nema vegna þess að þingmenn Viðreisnar settu upp leiksýningu á þingi þar sem formaðurinn fór fremstur í flokki. Sú leiksýning var ógeðfelld á ýmsan máta og þá ekki aðeins vegna ósannindanna sem fram voru sett. Það sem einna helst vakti athygli var sýndarmennskan sem þingmenn flokksins voru tilbúnir í, jafnvel í jafn alvarlegu máli og neyð úkraínsku þjóðarinnar.

Því var haldið fram að þeir sem vilji ekki að íslenskir bændur beri óeðlilegar byrðar vegna stuðningsins við Úkraínu séu á móti stuðningnum. Og þessi ógæfulegi leiðangur var allur til þess að reyna að nýta neyð Úkraínu í því skyni að knýja í gegn stefnu smáflokksins.

Það dapurlega er að þetta er fjarri því í eina skiptið sem Viðreisn beitir slíkri aðferð við að reyna að koma stefnu sinni fram. Þingmenn flokksins hafa til dæmis reynt að nota innrás Rússa í Úkraínu til að halda því fram að Ísland þurfi að ganga í Evrópusambandið, þó að öllum megi ljóst vera að þessi mál séu ótengd. En Viðreisn telur ekkert fyrir neðan virðingu sína þegar eina mál flokksins, aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru, er annars vegar.