— AFP/Anders Wiklund
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Inga Þóra Pálsdóttir ingathora@mbl.is Fimmtán ára drengur var skotinn til bana í suðurhluta Stokkhólms höfuðborgar Svíþjóðar á laugardaginn. Þrír aðrir særðust í skotárásinni.

Inga Þóra Pálsdóttir

ingathora@mbl.is

Fimmtán ára drengur var skotinn til bana í suðurhluta Stokkhólms höfuðborgar Svíþjóðar á laugardaginn. Þrír aðrir særðust í skotárásinni.

Á síðustu tólf dögum hafa níu manns verið skotnir í borginni. Þá var fimmtán ára drengur stunginn til bana á fimmtudaginn. Frá því um jól hafa sjötíu og sjö ofbeldisverk, sem talið er að séu tengd glæpagengjum, verið framin í borginni.

Svíar eru orðnir þreyttir á stöðunni og kalla eftir aðgerðum. Ulf Kristersson forsætisráðherra landsins segir stöðuna alvarlega og heitir því að grípa til aðgerða.

Tveir handteknir

Skotárásin á laugardag átti sér stað í hverfinu Farsta. Eins og segir lést fimmtán ára drengur í henni og þrír aðrir særðust. Hinir særðu eru fimmtán ára drengur, sextíu og fimm ára kona og fjörutíu og fimm ára karlmaður, sem er alvarlega særður. Sænska ríkisútvarpið hefur eftir heimildum að lögreglan rannsaki málið svo að drengirnir tveir hafi verið skotmörkin. Hin tvö hafi þar af leiðandi ekki verið skotmörk.

Lögregla hefur handtekið tvo menn sem grunaðir eru um árásina, en árásarmennirnir eru sagðir hafa hleypt af meira en tuttugu skotum. Lögreglan útilokar ekki fleiri handtökur vegna málsins.

Grípa til aðgerða

Á síðustu árum hefur orðið gífurleg fjölgun á glæpum og glæpagengjum í Svíþjóð. Ulf Kristersson forsætisráðherra greindi frá því á facebooksíðu sinni í gær að ríkisstjórn hans myndi grípa til aðgerða til að sporna við þessari þróun.

„Staðan er gríðarlega alvarleg,“ skrifaði Kristersson á Facebook. Sagði hann að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu væru um þrjátíu þúsund manns annaðhvort meðlimir í eða með tengsl við glæpagengi. Þá bættust þrír við á hverjum degi.

Nefndi Kristersson nokkrar aðgerðir sem farið verður í. Meðal þeirra er að fleiri verði fangelsaðir, sumir án tímatakmarka. Þá verður fleirum bannað að vera í sínum gömlu hverfum eða sveitarfélögum. Fleiri verða reknir úr landi og aldrei leyft að snúa aftur. Félagsþjónustan mun grípa fyrr inn í líf barna sem alast upp í kringum glæpi. Þá verður lögð áhersla á að fleiri læri sænsku, standist skólagöngu og öðlist betri fyrirmyndir.

Tekur tíma að laga ástandið

„Mér skilst að margir hafi nú áhyggjur. Sjálfra sín vegna og vegna barna sinna – en líka fyrir Svíþjóð. Skilaboð mín eru að ef þetta getur orðið svona slæmt þá getur þetta batnað. Ef við breytum rétt og gefumst ekki upp,“ skrifaði Kristersson.

Bætti hann við að það tæki tíma að laga ástandið, en Svíþjóð gæti vel gert það.