Júlíus Viggó Ólafsson
Júlíus Viggó Ólafsson
Munu Íslendingar trúa loforðunum ef þau hafa ekki verið sýnd í verki um árabil?

Júlíus Viggó Ólafsson

Segja má að síðasta vaxtahækkun Seðlabankans, hin þrettánda í röð, hafi vakið mikla reiði í samfélaginu. Fólk er farið að finna fyrir hitanum, framtíðarhorfur eru verri og ólin hjá flestum er að herðast.

Spjótin beinast að Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra. Sumir segja hann vanhæfan eða beinlínis vondan. Hann hafi takmarkaða samúð með almenningi og standi vörð um hagsmuni fjármagnseigenda.

Reiðin beinist þó í ranga átt því staðreyndin er sú að seðlabankastjórinn er sá ábyrgðaraðili sem hefur staðið sig hvað best í allri þessari atburðarás. Hann hefur í raun fylgt starfslýsingu sinni eins vel og hægt er að búast við af nokkrum manni.

Meginhlutverk seðlabankastjóra er að vinna gegn verðbólgunni og jafna út hagsveiflur. Til þess hefur hann aðeins takmarkað úrval verkfæra, þar helst stýrivextina. En það reynist erfitt fyrir seðlabankastjóra að höggva á verðbólguna þegar allir aðrir ábyrgðaraðilar vökva rætur hennar á meðan.

Mikið hefur verið rætt um ábyrgð vinnumarkaðarins. Kröfur verkalýðshreyfingarinnar eru of háar og Samtök atvinnulífsins standa ekki nægilega fast í lappirnar. Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög eiga einnig sinn þátt í hækkandi fasteignaverði sem birtist í þráhyggju þeirra fyrir þéttingu byggðar.

En það er einn aðili sem hefur ekki fengið þá gagnrýni sem hann á skilið, og hefur í raun náð að gera Seðlabankann að blóraböggli. Það er ríkisstjórnin, og að mínu mati, sem sjálfstæðismanns, Sjálfstæðisflokkurinn.

Þegar Covid skall á ríkti mikil óvissa. Þá var skrúfað frá öllum útgjaldakrönum til að takast á við óþekkt ástand. Það var skiljanlegt í fyrstu, en það er ekki til neitt sem heitir ókeypis hádegisverður, eins og Milton Friedman orðaði það, og það eiga sjálfstæðismenn að vita. Þegar leið á faraldurinn fór Sjálfstæðisflokkurinn auðveldu leiðina. Flokkurinn tók „þægilegar“ pólitískar ákvarðanir frekar en þær erfiðu og ábyrgu.

Ríkisstjórnin hélt hagkerfinu lokuðu of lengi og dældi of miklum peningum í ríkisútgjöld í allt of langan tíma. Nú erum við að glíma við verðbólguáhrif þessara ákvarðana og það er einfaldlega engin töfralausn sem mun bjarga okkur. Við líðum fyrir mistökin sem voru gerð fyrir u.þ.b. tveimur árum og það mun ef til vill taka okkur tvö ár til viðbótar að ná okkur aftur upp úr holunni.

Aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru á mánudaginn var munu ekki fela í sér lækkun ríkisútgjalda, hvað þá frystingu á upphæð útgjalda, heldur aðeins minni hækkun útgjalda en áætlað var áður fyrr. Aðgerðirnar eru því ólíklegar til að skila árangri og útgjöldin munu halda áfram að leiða út í hagkerfið sem eykur verðbólguna til lengri tíma litið. Þegar upp er staðið er stærðfræðidæmið enn það sama: meiri útgjöld munu valda meiri verðbólguþrýstingi sem mun bitna þyngst á þeim tekjulægstu í samfélaginu.

Ofan á þetta allt bætist svo hækkun skatta sem gengur þvert á stærsta loforð Sjálfstæðisflokksins í öllum kosningum sem hann gengur til.

Ef þú spyrð ráðamenn Sjálfstæðisflokksins af hverju flokkurinn virðist fara gegn öllum sínum grunngildum í ríkisrekstrinum þá munu þeir eflaust benda þér á hversu erfitt núverandi samstarf er. Hversu erfitt sé að miðla málum við flokk sem situr hinum megin á pólitíska litrófinu. En það er vert að benda á það að samstarfið sjálft er pólitísk ákvörðun sem felur í sér pólitíska ábyrgð. Hvert er virði ráðherrastólanna ef flokkurinn getur ekki unnið eftir sínum eigin gildum, ef hann getur ekki framfylgt vilja sinna kjósenda og flokksmanna?

Þegar þessu kjörtímabili lýkur munu ég og aðrir sjálfstæðismenn þurfa að ganga til kosninga berandi út boðskap lægri skatta og ábyrgra ríkisfjármála. Verður sá boðskapur trúverðugur? Munu Íslendingar kaupa loforðin ef þau hafa ekki verið sýnd í verki um árabil? Ég er hræddur um ekki.

Höfundur er formaður Heimdallar.

Höf.: Júlíus Viggó Ólafsson