Tvenna Davíð Snær Jóhannsson hjá FH í baráttu við Oliver Sigurjónsson hjá Breiðabliki. Davíð jafnaði fyrir FH með tveimur mörkum.
Tvenna Davíð Snær Jóhannsson hjá FH í baráttu við Oliver Sigurjónsson hjá Breiðabliki. Davíð jafnaði fyrir FH með tveimur mörkum. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Víkingur og Valur unnu örugga sigra í elleftu umferð Bestu deildar karla í fótbolta um helgina á meðan Breiðablik missti niður forskot gegn FH í Kaplakrika og tapaði tveimur dýrmætum stigum

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Víkingur og Valur unnu örugga sigra í elleftu umferð Bestu deildar karla í fótbolta um helgina á meðan Breiðablik missti niður forskot gegn FH í Kaplakrika og tapaði tveimur dýrmætum stigum.

Víkingar eru því áfram fimm stigum á undan Valsmönnum í toppsætunum en Blikar eru nú sjö stigum á eftir efsta liðinu.

Valsmenn unnu mjög sannfærandi sigur á HK, 5:0, í Kórnum í gær þar sem þeir gerðu út af við Kópavogsliðið með þremur mörkum á fyrstu 15 mínútum síðari hálfleiks. HK tapaði fjórða leiknum í röð en hangir þó áfram í sjötta sætinu.

Tryggvi Hrafn Haraldsson og Patrick Pedersen skoruðu tvö mörk hvor og það er Valsmönnum afar dýrmætt að fá Patrick í gang, ásamt því sem Hólmar Örn Eyjólfsson er nýbyrjaður að spila. Þessir tveir auka enn á gæðin í Valsliðinu.

Víkingar gengu nánast frá Frömurum á fyrstu 35 mínútunum í gærkvöld þegar þeir komust í 3:0. Birnir Snær Ingason skoraði þar þriðja markið eftir glæsilegan sprett og gerði sitt sjötta mark í deildinni í ár. Fred Saraiva svaraði strax fyrir Framara, líka með sínu sjötta marki, úr vítaspyrnu, en þeir ógnuðu sigri Víkinga aldrei.

Davíð Snær Jóhannsson var hetja FH-inga en hann skoraði tvívegis fyrir þá gegn Blikum í Kaplakrika eftir að Íslandsmeistararnir höfðu komist í 2:0 snemma leiks. Síðasti hálftíminn var bráðfjörugur en hvorugt liðið náði markinu sem þurfti til að hirða stigin þrjú. FH má vel við una að vera í fjórða sætinu eftir ellefu umferðir, bæting um heil sex sæti frá því í fyrra.

KA heldur sér í efri hlutanum eftir sigur á Fylki fyrir norðan, 2:1. KA náði undirtökunum með glæsimarki Sveins Margeirs Haukssonar en mikil spenna var á lokamínútunum. Fyrsta tap Fylkis í fimm leikjum.

Felix Örn Friðriksson tryggði ÍBV dýrmætt stig gegn KR í Vesturbænum þegar hann jafnaði úr vítaspyrnu í uppbótartíma, 1:1. Eyjamenn voru miklu sterkari en réðu illa við Simen Kjellevik í marki KR. Hann varði m.a. vítaspyrnu frá Sverri Páli Hjaltested.

Eggert Aron Guðmundsson tryggði Stjörnunni stig í Keflavík í gærkvöld þegar hann jafnaði með glæsilegu skoti seint í leiknum, 1:1. Keflavík hefur þar með ekki unnið í tíu leikjum í röð, frá því í fyrstu umferðinni.