Gagnsókn Úkraínskir hermenn í bryndreka í Sapórísja-héraði í gær.
Gagnsókn Úkraínskir hermenn í bryndreka í Sapórísja-héraði í gær. — AFP/Anatolii Stepanov
Úkraínumenn sögðust í gær hafa náð að frelsa tvö þorp í Donetsk-héraði í gagnsókn sinni gegn innrás Rússa. Voru það fyrstu staðfestu tíðindin sem borist höfðu frá Úkraínuher um nokkurt skeið, þar sem Úkraínumenn hafa lagt mikla áherslu síðustu vikur á að halda leyndarhjúpi yfir áformum sínum

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Úkraínumenn sögðust í gær hafa náð að frelsa tvö þorp í Donetsk-héraði í gagnsókn sinni gegn innrás Rússa. Voru það fyrstu staðfestu tíðindin sem borist höfðu frá Úkraínuher um nokkurt skeið, þar sem Úkraínumenn hafa lagt mikla áherslu síðustu vikur á að halda leyndarhjúpi yfir áformum sínum.

Hanna Maljar, aðstoðarvarnarmálaráðherra Úkraínu, sagði að Úkraínuher hefði náð að sækja fram í suðri úr tveimur áttum um 300 til 1.500 metra, og að þorpin Blahodatne og Makarívka væru nú frjáls undan hernámi Rússa. Þá sagði Maljar að Úkraínuher hefði einnig náð nokkrum árangri í austri í Donbass-héruðunum tveimur.

Rússneskir herbloggarar staðfestu að Úkraínuher hefði sótt fram við þorpin tvö og sögðu jafnframt að tilraunir Rússa til gagnárása hefðu mistekist.

Þorpin tvö sem um ræðir eru skammt sunnan við bæinn Velyka Novosilka, en fyrstu fregnir af meintum gagnárásum Úkraínumanna í síðustu viku bentu til þess að þeir hefðu reynt að sækja þar fram, en rússneska varnarmálaráðuneytið hélt því þá fram að Rússaher hefði tekist að hrinda árásum Úkraínumanna og valdið miklu mannfalli. Þá hafa Rússar birt nokkur myndskeið á samfélagsmiðlum, sem eiga að sýna ónýta Leopard 2-orrustuskriðdreka og Bradley-bryndreka.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti endurtók þær fullyrðingar á laugardaginn og sagði að gagnsókn Úkraínumanna væri að renna út í sandinn. Volodimír Selenskí Úkraínuforseti lýsti því hins vegar yfir síðar um daginn að gagnsóknin væri hafin, en að hann myndi ekki tjá sig í smáatriðum um gengi hennar. Sagði Selenskí þó að hann og aðrir í yfirherstjórn Úkraínumanna væru mjög bjartsýnir á gang mála.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson