Kristín Samúelsdóttir fæddist 3. febrúar 1931 á Akureyri. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala 27. maí 2023.

Foreldrar hennar voru Samúel Kristbjarnarson, Stapaseli, Mýrasýslu, f. 4. október 1892, d. 21. júní 1972 og Svava Sigurðardóttir, Ystuvík, Svalbarðsströnd, f. 7. júlí 1901, d. 7. júlí 1994.

Kristín var þriðja í röð sex systkina, en þau voru Ásgeir, f. 1926, d. 1995; Sigurður, f. 1927, d. 2021; Guðrún, f. 1933; Pálmi Viðar, f. 1934, d. 2014 og Kristján Björn, f. 1935, d. 2004.

2. júní 1951 giftist Kristín Magnúsi Ingva Vigfússyni, f. 12. júlí 1929 í Reykjavík, d. 20. júlí 2017, í Reykjavík þar sem þau hófu búskap.

Börn þeirra eru: 1) Svavar offsetprentari, f. 2. desember 1951, kona hans er Margrét Harðardóttir, f. 19. mars 1952. Dætur þeirra eru Ása Sóley, f. 1975; Kristín, f. 1978, maður hennar er Magnús Ómarsson, börn þeirra eru Una Margrét, f. 1997, Svavar, f. 2004 og Fannar, f. 2010; Lilja, f. 1986, sambýliskona hennar er Guðrún Una Hafsteinsdóttir. 2) Samúel Páll rafvirki, f. 1. nóvember 1953, kona hans er Inga Erna Hermannsdóttir, f. 29. júlí 1954. Börn þeirra eru Magnús Þór, f. 1977; Ari Páll, f. 1981, sambýliskona hans er Thelma Sól Steindórsdóttir; Kristín, f. 1988, barnsfaðir Guðmundur Ólafs Kristjánsson, börn þeirra eru Aníta Apríl, f. 2016 og Mikael Ólafs, f. 2020. 3) Ingvi prentsmiður, f. 7. desember 1959, kona hans er Helga Tómasdóttir, f. 12. mars 1963. Börn þeirra eru Heiða, f. 1986, sambýlismaður hennar er Kristian Valur Laursen Ólason; Andri, f. 1991, sambýliskona hans er Kolbrún Sif Hrannarsdóttir, dóttir þeirra er Elísabet Íris, f. 2020; Daði, f. 1993. 4) Hrund skrifstofumaður, f. 19. júlí 1967, maður hennar er Sigþór Magnússon, f. 25. júní 1964. Synir þeirra eru Egill Örn, f. 1989, kona hans er Erla Þórisdóttir, synir þeirra eru Jóhann Kári, f. 2018, d. 2019, Emil Óskar, f. 2020 og Benedikt Smári, f. 2022; Atli Þór, f. 1993, sambýliskona hans er Martha Malena V. Kristjánsdóttir, sonur þeirra er Óðinn Jarl, f. 2022; Magnús Orri, f. 1998.

Kristín ólst upp á Akureyri en flutti til Reykjavíkur um tvítugt. Hún hafði mikinn áhuga á garðyrkju og bar garður fjölskyldunnar í Traðarlandi í Fossvogi þess merki. Þar gat hún unað sér öllum stundum.

Hún var húsmóðir en meðfram húsmóðurstörfunum vann hún við fyrirtæki þeirra hjóna, Offsetmyndir, við bókhald og innheimtu. Kristín starfaði einnig sem sjálfboðaliði við Thorvaldsensbasar í marga áratugi og gegndi þar ýmsum störfum svo sem formennsku, gjaldkerastörfum og við afgreiðslu.

Hún hafði mikinn áhuga á útiveru og var sundið þar efst á blaði enda fór hún daglega í Laugardalslaugina meðan heilsan leyfði.

Útför fór fram í kyrrþey.

Elsku amma. Það er svo sárt að sitja hér og skrifa þessi orð, full af söknuði meðan tárin renna niður kinnar.

Alltaf tókst þú svo vel á móti okkur, svo mikil hlýja og gleði einkenndi þig í hvert skipti sem við komum í heimsókn. Þú varst alltaf svo spennt fyrir öllu því sem var að gerast í okkar í lífi. Þú forvitnaðist mikið um flutningana mína og hvattir mig sífellt þegar mér fannst lítið ganga upp. Minningarnar streyma til mín og það sem ég er þakklát fyrir þær allar. Það var alltaf svo notalegt og skemmtilegt að koma í heimsókn sem lítil stelpa í Traðarlandið og gat maður lengi gleymt sér í hálfgerðum draumaheimi að leika sér hjá ykkur, en þannig man ég einmitt eftir Traðarlandinu, sem stórum draumaheimi.

Sá tími sem ég fékk með þér þegar ég kom og hjálpaði þér með heimilið var mér mjög dýrmætur, spjallið okkar og sögurnar yfir hádegismatnum. Það var svo gaman að hlusta á sögurnar um þig á unglingsárum og pabba úr sveitinni. Alltaf sagðirðu mér söguna frá því þegar þér var svo brugðið þegar pabbi sneri til baka úr sveitinni með vinnuhendur. Símtölin okkar þar sem við gátum spjallað um allt og ekkert.

Þú varst kjarnakona mikil og vildir sjaldan aðstoð, vildir lítið láta hafa fyrir þér, en þú lést það alltaf í ljós hvað þú varst þakklát fyrir fólkið þitt, það var svo stór og fallegur eiginleiki sem þú hafðir, alltaf full af þakklæti fyrir allt og alla.

Sumarbústaðarferðirnar á Laugarvatn, sundlaugaferðirnar og laufabrauðshefðin í fjölskyldunni standa mikið upp úr, en það er hefð sem ég hef haldið mikið upp á frá því ég var barn, svo má ekki gleyma heitu ömmukleinunum sem mættu manni þegar við byrjuðum að skera út.

Ég og Aníta munum hugsa hlýtt til þín og tala um þig næst þegar við leysum þrautir úr krakkamogganum, henni þótti alltaf svo afskaplega gaman hversu vel og fallega þú hugsaðir til hennar.

Síðast þegar við hittumst sagðirðu við mig að þú vonaðist til að geta séð nýju íbúðina mína, ég lofaði þér að taka myndir og sýna þér í næstu heimsókn en því miður fengum við ekki tækifæri til að skoða það saman, ég veit að þú vakir yfir okkur núna, fylgist með og hvetur okkur úr fjarlægð ásamt afa.

Knúsaðu afa frá mér, elsku amma.

Elska þig.

Þín nafna,

Kristín Samúelsdóttir.

Elsku tengdaamma!

Þín er sárt saknað af litlu fjölskyldunni í Fjallalind. Sumt fólk hefur eitthvað sérstakt við sig og þú ert ein af þeim. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér og minnist glaðværðarinnar og Akureyrarferðarinnar 2017, þar sem við stöllur sátum tvær aftur í. Ég maulaði brjóstsykur í gríð og erg, gengin sjö vikur á leið með Jóhann Kára, en þú sagðir einhvern tímann að þú hefðir alveg séð í gegnum það að þarna væri lítill laumufarþegi með í för.

Áður en bíllinn fylltist af börnum fengum við Egill oft að sækja þig á leið í mat í Jörfalindina og þá ræddum við allt milli heima og geima. Þú áttir svo sannarlega ráð undir rifi hverju! Þegar Emil Óskar lærði að ganga bentir þú okkur á að láta hann halda í sleif sér til stuðnings og það var eins og við manninn mælt, hann gekk stoltur af stað. Þessa dagana horfir Emil Óskar upp í himininn og bendir upp og segir að amma Stína sé farin að passa Jóhann Kára, stóra bróður. Við trúum því að hann hafi tekið brosandi á móti þér með opinn faðminn. Emil Óskar og Benedikt Smári hugsa vel um ömmu Hrund þar til við hittumst öll á ný.

Takk fyrir samfylgdina, hlýjuna, ráðin og hláturinn síðasta áratuginn.

Þitt tengdabarnabarn,

Erla Þórisdóttir.