Silfur Gísli Þorgeir og félagar í Magdeburg urðu í öðru sæti.
Silfur Gísli Þorgeir og félagar í Magdeburg urðu í öðru sæti. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kiel tryggði sér í gær þýska meistaratitilinn í handknattleik karla í þriðja sinn á fjórum árum og í 23. skipti alls með því að sigra Göppingen, 34:27, á útivelli í lokaumferðinni. Kiel fékk 59 stig gegn 57 stigum hjá fráfarandi meisturum Magdeburg, sem unnu Wetzlar 35:30 á útivelli

Kiel tryggði sér í gær þýska meistaratitilinn í handknattleik karla í þriðja sinn á fjórum árum og í 23. skipti alls með því að sigra Göppingen, 34:27, á útivelli í lokaumferðinni.

Kiel fékk 59 stig gegn 57 stigum hjá fráfarandi meisturum Magdeburg, sem unnu Wetzlar 35:30 á útivelli. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir Magdeburg en Ómar Ingi Magnússon hefur verið frá keppni síðan í janúar vegna meiðsla.

Flensburg tryggði sér fjórða sæti með 49 stig með því að sigra Rhein-Neckar Löwen heima, 34:31. Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark fyrir Flensburg en Ýmir Örn Gíslason lék ekki með Löwen sem fékk 45 stig í 5. sæti.

Hannover-Burgdorf, með Heiðmar Felixson sem aðstoðarþjálfara, vann Stuttgart úti, 34:31, og endaði í 6. sæti með 38 stig.

Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk fyrir Melsungen sem tapaði 33:28 í Hamborg og endaði í 9. sæti með 34 stig. Elvar Örn Jónsson var ekki með Melsungen vegna meiðsla.

Gummersbach, með Guðjón Val Sigurðsson sem þjálfara ársins í deildinni, gerði jafntefli við Minden á útivelli, 38:38, og endaði í 10. sæti með 33 stig. Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk fyrir Gummersbach og Hákon Daði Styrmisson tvö. Sveinn Jóhannsson skoraði tvö mörk fyrir Minden sem fékk 13 stig í 17. og næstneðsta sæti og féll.

Leipzig, undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar, vann botnlið Hamm úti, 33:28, og fékk 31 stig í 11. sæti. Viggó Kristjánsson lék ekki með Leipzig vegna meiðsla.

Arnór Þór Gunnarsson lauk löngum ferli með því að skora eitt mark fyrir Bergischer sem tapaði 29:30 fyrir Erlangen á heimavelli. Bergischer endaði í 13. sæti með 30 stig. Erlangen, með Ólaf Stefánsson sem aðstoðarþjálfara, náði 12. sætinu með 30 stig.