Úkraínuher sótti fram á minnst fjórum stöðum á víglínunni um helgina að mati bandarísku hugveitunnar Institute for the Study of War (ISW). Byggði hugveitan þar meðal annars á rússneskum heimildum, sem sögðu Úkraínu hafa herjað á innrásarliðið í…

Úkraínuher sótti fram á minnst fjórum stöðum á víglínunni um helgina að mati bandarísku hugveitunnar Institute for the Study of War (ISW). Byggði hugveitan þar meðal annars á rússneskum heimildum, sem sögðu Úkraínu hafa herjað á innrásarliðið í Lúhansk-héraði við Bilohorívka, auk þess sem Úkraínuher hefði haldið áfram að þrýsta á stöður Rússa í nágrenni Bakhmút.

Þá sóttu Úkraínumenn að sögn ISW fram við Velyka Novosilka í sunnanverðu Donetsk-héraði, þar sem Úkraínuher sagðist síðar hafa náð að frelsa tvö þorp, en einnig var greint frá hörðum bardögum sunnan við þorpið Orikhív í Sapórísja-héraði, en talið er að Úkraínuher vilji sækja þaðan til borgarinnar Tokmúk. Þar er hins vegar einnig mesta andstaðan, en Rússar hafa reist þar helstu varnarmannvirki sín.

Sagði ISW í stöðumati sínu að vörn Rússa í Sapórísja-héraði byggðist á traustum kenningum um hvernig ætti að sinna vörnum í nútímahernaði, en þær snerust m.a. um að greina snemma hvar helstu árásarsveitir Úkraínumanna væru og reyna að eyða þeim, auk þess sem Rússar notuðu skriðdrekabana og jarðsprengjur til þess að stýra sóknaraðgerðum Úkraínumanna í ákveðinn farveg. Hins vegar bæri einnig að horfa til þess að Úkraínumenn ættu enn eftir að senda meginhluta árásarsveita sinna til orrustu.

Muni ekki hlýða Shoígú

Sergei Shoígú varnarmálaráðherra skipaði á laugardaginn öllum „sjálfboðaliðasveitum“ Rússa í Úkraínu að skrifa undir ráðningarsamninga við ráðuneytið fyrir lok júnímánaðar, en því væri ætlað að tryggja betri virkni sjálfboðaliðasveitanna.

Var talið að yfirlýsingunni væri sérstaklega beint að málaliðum Wagner-hópsins og sagði Jevgení Prigósjín, stofnandi hans, í gær að málaliðar sínir myndu ekki undirrita neina samninga við Shoígú.

Prigósjín og Shoígú hafa átt í deilum undanfarna mánuði, þar sem hinn fyrrnefndi hefur verið óspar á gagnrýni sína á ráðherrann og framgöngu hans í Úkraínustríðinu. sgs@mbl.is