Formaðurinn Sonja Ýr Þorbergsdóttir fer fyrir BSRB.
Formaðurinn Sonja Ýr Þorbergsdóttir fer fyrir BSRB. — Morgunblaðið/Eyþór
Verkfallsaðgerðum 2.500 félagsmanna í aðildarfélögum BSRB í þrjátíu sveitarfélögum hefur verið aflýst. Ellefu aðildarfélög BSRB og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu nýjan kjarasamning á laugardagsmorguninn eftir um fjórtán klukkustunda…

Verkfallsaðgerðum 2.500 félagsmanna í aðildarfélögum BSRB í þrjátíu sveitarfélögum hefur verið aflýst. Ellefu aðildarfélög BSRB og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu nýjan kjarasamning á laugardagsmorguninn eftir um fjórtán klukkustunda samningalotu sem hófst á óformlegum fundum á föstudagsmorgun.

BSRB stendur fyrir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sem eru samtök launafólks í opinbera geiranum á Íslandi. Á næstu dögum munu aðildarfélög BSRB kynna samninginn og verður hann í framhaldinu borinn undir atkvæði félagsmanna.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá BSRB munu mánaðarlaun hækka að lágmarki um 35.000 kr. verði samningurinn samþykktur í atkvæðagreiðslunni. Desemberuppbót á árinu 2023 verður 131.000 kr.

Samkomulag náðist um sáttagreiðslu að upphæð 105.000 kr. eftir að ríkissáttasemjari lagði fram tillögu aðfaranótt laugardags. Auk þess var samið um hækkun lægstu launa og viðbótargreiðslur fyrir tiltekin starfsheiti. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024 og nær til um sjö þúsund félagsmanna BSRB.

Aðildarfélögin sem standa að kjarasamningnum eru tíu talsins: Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, FOSS – stéttarfélag í almannaþjónustu, Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu, Starfsmannafélag Garðabæjar, Starfsmannafélag Húsavíkur, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Starfsmannafélag Mosfellsbæjar, Starfsmannafélag Kópavogs, Starfsmannafélag Suðurnesja og Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar.