Anna Leósdóttir
Anna Leósdóttir
Yfirvöld sem boða bíllausan lífsstíl og náttúruvernd um leið og þau ætla að rústa einstöku útivistarsvæði sjá ekki æpandi þversögnina sem í því er fólgin.

Anna Leósdóttir

Þær hafa eflaust farið fram hjá fáum, deilurnar sem hafa staðið um uppbyggingu nýrrar byggðar í Skerjafirði. Eins og mörg hef ég fylgst með umræðunni af hliðarlínunni um nokkurt skeið og nú er svo komið að ég get ekki lengur orða bundist.

Rétt er að taka fram að ég hef búið í Skerjafirði til margra ára og elska hann í núverandi mynd, fjöruna með öllu sínu lífríki, útsýnið að Keili, friðsældina og yndislega þorpsbraginn sem einkennir svæðið. Já, ég held að það sé leitun að stað innan borgarmarkanna þar sem jafn mikil friðsæld ríkir og einmitt hér í Skerjafirði.

En þessu á nú sem sagt að breyta, eins og fram hefur komið. Já, borgaryfirvöld vilja ólm leggja meira landsvæði undir byggð, byggja fleiri hús, leggja fleiri götur, reisa fleiri minnisvarða um sjálfa sig.

Skítt með það þótt hin nýja byggð sé ekki í neinu samræmi við þá sem fyrir er. Skítt með það þótt græn svæði þurfi að víkja. Skítt með neikvæðu áhrifin sem þetta kemur til með að hafa á gróður, strand- og sjávarlífríki, eins og sérfræðingar hafa bent á. Ekkert af þessu skiptir í raun máli í hinu stóra samhengi. Ekki frekar en áhyggjur og mótmæli íbúa í Skerjafirði.

Það er ekki laust við að manni fallist svolítið hendur. Að maður eigi erfitt með að botna í borgaryfirvöldum sem vilja engum rökum taka. Yfirvöldum sem boða bíllausan lífsstíl og náttúruvernd um leið og þau ætla að rústa einstöku útivistarsvæði. Sem sjá ekki æpandi þversögnina sem í því er fólgin. Halda bara fyrir eyrun og neita að hlusta.

Já undanfarið hefur oft verið erfitt á hlýða á rökin, eða rökleysuna, sem borgaryfirvöld fara með í þessu máli. Það er því kannski borin von að stinga niður penna og ætla að reyna að tala um fyrir þessu ágæta fólki í ráðhúsinu en þó langar mig í lokin að skilja eftir fáein orð sem verða því vonandi til umhugsunar. Þau hljóma svona:

Tapast bráðum sýn til fjalla.

Borgarstjóri mun bara labba og labba.

Klóra sér í sínum sveitta skalla,

skuldum íbúar áfram safna.

Óráðsía og húllum hæ,

en fjaran fagra hæ og bæ.

Flugvöllur skal fara burt.

Hvert flaug vitið, stórt er spurt.

Höfundur er listakona og íbúi í Skerjafirði.