Ragnar Þór Ingólfsson skipuleggur nú hver mótmælin á fætur öðrum. Það vekur athygli að stjórn VR skuli ekki taka slaginn með honum.
Ragnar Þór Ingólfsson skipuleggur nú hver mótmælin á fætur öðrum. Það vekur athygli að stjórn VR skuli ekki taka slaginn með honum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og hans nánasti vinahópur hafa með stuttu millibili staðið fyrir mótmælum á Austurvelli. Mótmælin eru ekki gegn neinu ákveðnu heldur er ýmislegt tínt til þegar til þeirra hefur verið boðað

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og hans nánasti vinahópur hafa með stuttu millibili staðið fyrir mótmælum á Austurvelli. Mótmælin eru ekki gegn neinu ákveðnu heldur er ýmislegt tínt til þegar til þeirra hefur verið boðað. Meðal þess eru verðbólga og stýrivaxtahækkanir Seðlabankans, dýrtíð, staðan á húsnæðismarkaði – jú og óréttlætið sjálft. Fréttastofa ríkisins (Rúv) hefur venju samkvæmt fjallað ítarlega um mótmælin, bæði aðdraganda þeirra og í kjölfar þeirra, án þess að það hafi þó skilað miklu ef horft er til fjölda þeirra sem hafa skundað á Austurvöll af þessu tilefni eða öðru efnislegu. Skilaboðin eru óljós en þau mætti þó draga saman í því að rétt eins og í þau 14 ár sem Ragnar Þór hefur haft sig frammi í þjóðfélagsumræðu er samfélagið einhvern veginn allt öðruvísi en hann vill að það sé.

Um þetta er ýmislegt sem ætti að vekja athygli. Það ætti vissulega að hringja einhverjum bjöllum að svo virðist sem um einkasamkvæmi Ragnars Þórs og Hagsmunasamtaka heimilanna (sem stýrt er af Ásthildi Lóu Þórsdóttur, þingmanni Flokk fólksins) sé að ræða – en stjórn VR hefur engan áhuga á því að leggja samkvæminu lið. Í raun hefur enginn tekið undir, nema kannski Rúv.

Glöggir menn sjá að það er lítil innstæða fyrir gífuryrðum af hálfu þeirra sem að mótmælunum standa. Sem dæmi má nefna fullyrðingar Ragnars Þórs í kvöldfréttum Rúv um nýliðna helgi að bankarnir væru að „græða á tá og fingri, fyrirtækin hafa hagnast gríðarlega og fólkinu í landinu blæðir“, eins og hann orðaði það. Það þarf þó ekki annað en að skoða uppgjör helstu félaga til að sjá að þau eru ekki að „hagnast gríðarlega“, arðsemi eigin fjár bankanna er undir meðaltali í samanburði við sambærilega banka í löndunum í kringum okkur – og því má við bæta að þróun hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðarins að undanförnu gefur ekki til kynna að það ríki gósentíð hjá hinum margumtöluðu fjármagnseigendum. Vissulega er staðan ekki góð í hagkerfinu, verðbólgan bítur okkur öll og hún er erfið viðureignar. Í þeirri viðureign þurfa aðilar vinnumarkaðarins, sem Ragnar Þór tilheyrir, að sýna ábyrgð.

Líklega er þetta þó ágætis dæmi um það hvernig þjóðfélags­umræðan fær ítrekað að mótast af bulli frá fólki sem er segir bara eitthvað til að sækja sér athygli – allt á kostnað málefna­legrar umræðu sem er líkleg til að skila árangri ­fyrir samfélagið í heild. Það gagnast engum, nema þeim sem bulla.