Kristinn Jens Sigurþórsson
Kristinn Jens Sigurþórsson
Nú er hins vegar ljóst af túlkun forseta kirkjuþings að Agnes M. Sigurðardóttir má ekki starfa sem biskup nema fram á mitt yfirstandandi ár.

Kristinn Jens Sigurþórsson

Nýársprédikun biskups Íslands, Agnesar M. Sigurðardóttur, flutti landsmönnum þann boðskap að hún hygðist láta af embætti eftir 18 mánuði. Af orðum hennar mátti skilja að hún sæi fyrir sér að starfa fram á mitt ár 2024. Undir venjulegum kringumstæðum væri ekkert við þetta að athuga því biskupar hafa jafnan tilkynnt með góðum fyrirvara hvenær þeir hyggjast hætta. Hefur þjóðkirkjunni þá gefist gott ráðrúm til að kjósa sér nýjan biskup. Hins vegar er til þess að líta að innan þjóðkirkjunnar eru engar venjulegar kringumstæður og hafa reyndar ekki verið um allnokkra hríð. Verður ekki annað séð en að biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, sé búin að setja bæði sjálfa sig og þjóðkirkjuna í einkennilega stöðu því eins og nánar verður vikið að er ekki að sjá að hún geti án nýs biskupskjörs starfað sem biskup nema til og með 30. júní 2023 og hefði jafnvel þurft að sækja endurnýjað umboð árið 2022, hefði lögum verið fylgt með eðlilegum hætti.

Umboð biskups dregið í efa

Vart var Agnes M. Sigurðardóttir fyrr búin að tilkynna í ársbyrjun um starfslok sín en finna mátti athyglisverðar fyrirsagnir í fjölmiðlum. Þar mátti t.d. lesa: „Dregur umboð biskups í efa“ og „Lögmaður...dregur í efa að biskup sé biskup.“ Þegar skyggnst var á bak við fyrirsagnirnar mátti finna þær upplýsingar að forseti Íslands hefði upphaflega skipað Agnesi sem biskup Íslands til fimm ára frá og með 1. júlí 2012 og að sá skipunartími hefði framlengst sjálfkrafa um önnur fimm ár árið 2017 eða til 30. júní 2022. Frá þeim tíma, þ.e. um mitt ár 2022, hefði hún ekki verið endurkjörin og skorti því að lögum umboð til að gegna biskupsembættinu.

Þess ber að geta að um mitt ár 2021 tóku gildi ný þjóðkirkjulög þar sem í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um starfsmenn þjóðkirkjunnar. Þar er það dregið fram að hafi þeir hlotið skipun í embætti í skilningi starfsmannalaga ríkisins nr. 70/1996 skuli þeir halda réttindum og skyldum út skipunartíma sinn en að öðru leyti fari um réttindi þeirra og skyldur samkvæmt starfsreglum settum af kirkjuþingi. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um skipunartíma og innihaldi bráðabirgðaákvæðis nýju þjóðkirkjulaganna átti skipunartíma Agnesar sem biskups Íslands því að ljúka þann 30. júní árið 2022 eða fyrir rúmum átta mánuðum síðan. Sú spurning kviknar hins vegar hvort kirkjuþingi hafi auðnast að setja starfsreglur í tæka tíð er hafi breytt þessum skipunartíma?

Bréf forseta kirkjuþings til biskups

Þann 29. júní 2022, þ.e. einum degi áður en seinni fimm ára skipun Agnesar sem biskups Íslands rann sitt skeið, reit forseti kirkjuþings, Drífa Hjartardóttir, henni bréf og tilkynnti um þann „úrskurð“ sinn að embættistími henni tæki enda þann 30. júní 2023. Var í bréfinu vísað til þess að í nýjum starfsreglum nr. 9/2021-2022, settum í mars 2022, um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa, væri kveðið á um sex ára skipunartíma þeirra. Var niðurstaða Drífu sú að í samræmi við þetta ákvæði í starfsreglum ætti fimm ára embættisskipun Agnesar frá árinu 2017 að framlengjast um eitt ár og standa til 30. júní 2023. Var um athyglisverða túlkun að ræða sem gerir starfsreglur settar árið 2022 af kirkjuþingi afturvirkar til ársins 2017. Jafnframt sagði í bréfi Drífu að hún myndi beita sér fyrir því að forsætisnefnd kirkjuþings legði fram þingmál á kirkjuþinginu 2022-2023, sem fæli í sér að kirkjuþingið ákvarðaði „um biskupsþjónustu þjóðkirkjunnar frá og með 1. júlí 2023.“

Ekkert þingmál um biskupsþjónustu

Samkvæmt birtri málaskrá kirkjuþings fyrir starfsárið 2022-2023 er hins vegar ekkert þingmál að finna er varðar biskupsþjónustu frá og með 1. júlí 2023 og er ekki að sjá að forseti kirkjuþings, Drífa Hjartardóttir, hafi lagt fram þingmál um efnið. Ekki er þó hægt að útiloka að hún hafi beitt sér en e.t.v. rekist á veggi í þeirri viðleitni. Staðreyndin er nefnilega sú að megn óánægja hefur grafið um sig innan þjóðkirkjunnar með framgöngu biskups Íslands í fjölmörgum málum. Er það altalað. Væri ekki vanþörf á að fjallað yrði um það allt opinberlega, því næg eru gögnin. Um kirkjusögu 21. aldarinnar er að ræða. Þegar biskup Íslands berst í tal kemur oftar en ekki að því að fram er borin spurningin: „Hvenær fer hún að hætta, þessi biskup?“ Óþreyju gætir í spurningunni og hefur henni stundum verið svarað (ranglega) á þann veg að hún megi vera til sjötugs. Nú er hins vegar ljóst af túlkun forseta kirkjuþings að biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, má ekki starfa sem biskup nema fram á mitt yfirstandandi ár en hefði jafnvel samkvæmt lögum átt að hætta á síðasta ári.

Skylt að boða til biskupskjörs

Í ljósi þess er hér hefur verið rakið verður yfirlýsing Agnesar í ársbyrjun, um að hún ætli að ljúka störfum eftir 18 mánuði eða um mitt ár 2024, afar einkennileg og er ekki að sjá að hún fái staðist skoðun. Gengur yfirlýsingin bæði í berhögg við það sem fram kemur í bréfi forseta kirkjuþings um sex ára skipunartíma hennar frá árinu 2017 til 2023 sem og starfsreglur kirkjuþings frá 2022 um biskupakjör en af þeim reglum verður ekki annað ráðið en að skipunartími biskupa framlengist ekki sjálfkrafa heldur sé kjörnefnd skylt að hverjum sex ára skipunartíma liðnum að efna til biskupskjörs.

Ef ég hins vegar þekki mitt heimafólk á vettvangi þjóðkirkjunnar rétt þá er núna á bak við tjöldin leitað leiða til að losa kirkjuna úr klandrinu, sem Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, er búin að koma bæði sjálfri sér og þjóðkirkjunni í með yfirlýsingu sinni á nýárdag. Það er full því ástæða til að benda kirkjuþingsfulltrúum á það sem segir í fyrrnefndum starfsreglum nr. 9/2021-2022 um kjörtímabil en þar er lögð áhersla á að til að fá endurnýjað biskupsumboð þarf sá sem fyrir er í embætti að vera í kjöri en til að vera í kjöri hlýtur sitjandi biskup að þurfa að sitja við sama borð og aðrir og uppfylla skilyrði um tilnefningar og fjölda meðmælenda. Þá er í þessu sambandi einnig vert að rifja upp að starfsreglurnar voru settar til að „svara kalli...um kjörtímabil biskupa“ og því kalli verður ekki svarað með undirferli og baktjaldamakki eða með því að sveigja túlkun að fyrirframgefinni niðurstöðu, eins og venja er á vettvangi þjóðkirkjunnar.

Höfundur er síðasti sóknarpresturinn sem sat Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

Höf.: Kristinn Jens Sigurþórsson