Pálmi Vilhjálmsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar, segir pólitíska umræðu vera óhjákvæmilega í ljósi þeirrar stöðu sem fyrirtækið hefur á mjólkurmarkaði í viðtali við ViðskiptaMoggann. „Staða okkar og hlutverk er óneitanlega sérstakt og ég held að svona umræða sé einfaldlega óhjákvæmilegur fylgifiskur þess.“
Stjórnmálamönnum verður tíðrætt um einokunarstöðu Mjólkursamsölunnar en Pálmi segir slíka umræðu á misskilningi byggða.
„Mjólkursamsalan er ekki í einokunarstöðu þótt hún hafi vissulega markaðsráðandi stöðu. Það mega allir selja mjólk, vinna mjólk og taka á móti mjólk sem á annað borð uppfylla ákveðin skilyrði heilbrigðisyfirvalda og opinberra stofnana.“
Aftur á móti sé fjárfesting í iðnaðinum umtalsverð, sem verður eins konar náttúruleg aðgangshindrun. „Fjárfesting í tækjabúnaði í afurðastöð eins og á Selfossi er sennilega um 10-15 milljarðar króna. Það er erfitt að reka stórt fyrirtæki um slíka fjárfestingu, þar sem hagnaður er innan við 1% af veltu, hvað þá að vera með mörg minni fyrirtæki sem eru að fjárfesta í þessum tækjum og búnaði. Opinbera verðlagningin býður heldur ekki upp á að mikið sé eftir til að fjárfesta og ekki er verið að greiða arð út úr rekstrinum. Þetta eru fyrirtæki bænda, þau greiða bændum afurðaverðið, og þessi litli rekstrarafgangur rétt nægir til þess að þau geti rekið sig og í sumum tilfellum ekki.“