Magnús Fjalar Guðmundsson fæddist 28. júní 1973 í Reykjavík og ólst upp í Selja- og Skógahverfi í Breiðholti. Hann gekk í Ölduselsskóla og var í tónlistarskóla. „Ég var frekar prúður drengur og bara einu sinni sendur heim fyrir prakkarastrik í skóla. Ég var mikið í tónlist, spilaði á trompet alveg fram undir tvítugt og var í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Tónlistarskóla FÍH.“ Íþróttaáhuginn kom seinna á lífsleiðinni.
Hann útskrifaðist af náttúrufræðibraut í Menntaskólanum í Hamrahlíð og fór þaðan í Háskóla Íslands þar sem hann lauk B.Sc. námi í hagfræði. „Ég hef alltaf verið fyrir raungreinarnar og þegar kom að því að velja sér háskólanám þá ákvað ég að skrá mig í hagfræði. Ég sá strax að þetta átti vel við mig.” Eftir námið fór hann sem skiptinemi til Handelshögskolan í Stokkhólmi og lauk M.Sc. námi frá Háskóla Íslands.
Magnús vann fyrst eftir útskrift í Kaupþingi en færði sig fljótlega yfir til Seðlabankans þar sem hann hefur unnið allar götur síðan. „Ég vinn sem hagfræðingur á hagfræðisviði –rannsóknum og spám. Starfið felst aðallega í því að vinna við þjóðhagsspár en einnig að stunda rannsóknir og líkanasmíði.“ Samhliða starfinu hjá Seðlabankanum hefur Magnús kennt hagrannsóknir og tölfræði við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
Strax eftir að náminu lauk gafst tími til að sinna áhugamálunum og Magnús fór að stunda útivist af kappi, bæði styttri og lengri gönguferðir og fjallaskíði. „Félagar í útivistinni drógu mig í hlaup sem hentaði mér ágætlega þegar við eignuðumst börn og minni tími gafst til að sinna fjallgöngum. Ég hljóp Laugaveginn nokkrum sinnum og hljóp nokkur maraþon en ég þurfti að draga úr hlaupum vegna álagsmeiðsla og færði mig þá yfir í þríþraut en fann mig síðan í hjólreiðunum sem ég hef stundað af kappi síðan. Ég hef hjólað mikið innanlands og utan og keppt í mörgum greinum hjólreiða, þó aðallega í götuhjólreiðum. Ég reyni að hjóla úti allar helgar nú yfir sumartímann og í miðri viku eins og tíminn leyfir. Þessi áhugi leiddi til þess að ég opnaði í félagi við vin minn reiðhjóla- og útivistarverslunina Peloton sem er gífurlega skemmtilegt verkefni.“
Magnús segir að öll fjölskyldan sé mikið í íþróttum. „Ég og Bryndís, konan mín, hjólum mikið saman og börnin mín þrjú stunda öll íþróttir og tónlistarnám. Katrín Hekla spilar handbolta með meistaraflokki HK og Guðmundur Birkir æfir einnig handbolta með HK og Friðrik Kári æfir fótbolta hjá Breiðabliki,“ en Magnús situr í stjórn handknattleiksdeildar HK. „Börnin hafa öll spilað á píanó frá því þau voru lítil í Suzuki-námi við Tónlistarskóla Kópavogs þar sem þau stunda enn nám. Við vorum með strákana á sumarnámskeiði hjá Íslenska Suzuki-sambandinu um liðna helgi í Hafnarfirði sem var mjög skemmtilegt.
Fjölskyldan ferðast mikið saman, bæði heima og erlendis. „Við höfum dregið börnin með í gönguferðir á Hornstrandir og víða og förum reglulega með þau á skíði. Við teljum okkur heppin að þau vilji enn ferðast með okkur og skemmtilegast finnst okkur þegar hægt er að blanda saman skemmtilegu ferðalagi og góðri hreyfingu. Þau komu t.a.m. öll með okkur í sumarhús í byrjun sumars þar sem við gengum, veiddum og spiluðum út í eitt enda var þar hvorki hægt að ná sambandi við netið, síma né sjónvarp,“ segir hann og mælir með því að aftengja sig almennilega og kúpla sig út úr annríki nútímans og vera úti í náttúrunni. „Börnin höfðu mjög gaman af þessum tíma, sem er svolítið eins og verið sé að stíga inn í annan heim og eru strax farin að telja niður í næstu ferð.“
Fjölskylda
Eiginkona Magnúsar er Bryndís Friðriksdóttir, verkfræðingur og svæðisstjóri höfuðborgarsvæðisins hjá Vegagerðinni, f. 13.8. 1976 og þau búa í Kópavogi. Foreldrar Bryndísar eru hjónin Friðrik Guðmundsson, fv . skrifstofustjóri, f. 19.4. 1949 og Helga Alexandersdóttir, fv. leikskólastjóri, f. 3.7. 1952. Þau búa í Kópavogi.
Börn Magnúsar og Bryndísar eru: 1) Katrín Hekla, f. 15. 5. 2005, nemi í Kvennaskólanum í Reykjavík, 2) Friðrik Kári, f. 11.12. 2008, nemi í Lindaskóla og 3) Guðmundur Birkir, f. 16.10. 2012, nemi í Lindaskóla.
Systkini Magnúsar eru Fjölnir Guðmundsson, verkfræðingur hjá Veitum, f. 25.7. 1974 og Erna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Parkinsonsamtakanna, f. 29.1. 1979. Þau búa bæði í Reykjavík.
Foreldrar Magnúsar eru Guðmundur M. Guðmundsson, fv. starfsmannastjóri og aðstoðaryfirlögregluþjónn, f. 8.10. 1941, d. 16.5. 2017 og Rúna Jónsdóttir, f. 21.3. 1950. Þau voru gift og bjuggu í Reykjavík þar sem Rúna býr enn.