Stefán Gunnarsson framkvæmdastjóri segir að allir í teyminu spili leikinn frá degi til dags.
Stefán Gunnarsson framkvæmdastjóri segir að allir í teyminu spili leikinn frá degi til dags. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
Það er skemmtileg áskorun fyrir mann sem ekki spilar krefjandi geimtölvuleiki frá degi til dags að heimsækja leikjafyrirtæki eins og Solid Clouds og hlusta á stjórnendur og starfsmenn skýra frá því skapandi starfi sem þar fer fram

Það er skemmtileg áskorun fyrir mann sem ekki spilar krefjandi geimtölvuleiki frá degi til dags að heimsækja leikjafyrirtæki eins og Solid Clouds og hlusta á stjórnendur og starfsmenn skýra frá því skapandi starfi sem þar fer fram.

Blaðamaður ViðskiptaMoggans tók hús á fyrirtækinu í kjölfar kauphallartilkynningar um að þrjátíu og fimm þúsund spilarar hefðu hlaðið niður tölvuleiknum Starborne Frontiers sem verið hefur í þróun í rúm tvö ár. Solid Clouds er eina fyrirtæki sinnar tegundar á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Stefán Björnsson, fjármálastjóri og einn af stofnendum, segir að unnið sé að ítrunum á öllum sviðum verkefnisins til að sníða af agnúa og gera leikinn bæði betri, lengri og áhugaverðari fyrir spilara svo að hægt sé að gefa hann endanlega út.

Leikir af þessari gerð eru ókeypis en markmiðið er að fá sem hæst hlutfall spilara til að taka upp veskið og greiða fyrir margvísleg hjálpargögn innan leiksins.

350 á dag

Núna í upphafi útgáfuferils bætast um 350 nýir spilarar við á degi hverjum og er hlutfall greiðandi spilara hærra en gengur og gerist í bransanum að sögn Stefáns og Stefáns Gunnarssonar, framkvæmdastjóra og eins af stofnendum Solid Clouds.

Spurðir að því af hverju greiðandi spilarar séu inni í leiknum á meðan hann er í prófunarfasa, segja þeir það vera hluta ítrunarferlisins. Prófa þurfi greiðslukerfin rétt eins og leikinn sjálfan. Það gangi vel.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan blaðamaður sótti höfuðstöðvar Solid Clouds á Eiðistorgi síðast heim. Aukin dýpt er komin í leikinn og meiri texti um sögu og framvindu birtist spilurum á skjánum. Barist er af kappi í geimnum. Fólk stjórnar geimskipum og nýtir herkænsku til að vernda þau fyrir árásum á sama tíma og siglt er lengra og lengra inn í víðáttur alheimsins.

Lokatakmark leiksins, hið svokallaða Ómælisdýpi (e. The Abyss), er nú í smíðum. „Grunnurinn sem við höfum byggt gefur okkur kost á að byggja margvíslega heima ofan á. Það má lýsa þessu sem uppbyggingu ólíkra leikja innan leiksins. Spilarar þurfa að vera útsjónarsamir og klókir sem er einmitt það sem þeir sækjast eftir,“ segir Stefán Björnsson. „Að fara inn í Ómælisdýpið verður eins og að hoppa inn í svarthol. Þar inni verða aðrir mjög krefjandi nýir heimar.“

Margra mánaða vinna

Spurðir að því hve langan tíma það muni taka spilara að klára leikinn allt til enda segir Stefán það verða margra mánaða vinnu en mögulegur spilatími muni sífellt lengjast eftir því sem meira efni er bætt við leikinn. „Nema þú greiðir fyrir að yfirvinna hindranir. Samt erum við alltaf að tala um margra mánaða spilun. Það er orðin veldisaukning í því sem við bjóðum upp á fyrir hvern spilara.“

Stefán Björnsson segir að lykilhugtakið í þróuninni sé líftímavirði spilara. „Það segir til um hve mikið við fáum greitt að meðaltali frá hverjum spilara á meðan hann spilar leikinn.“

Hann segir lykilinn að hámarks-líftímavirði vera þríþættan. „Við þurfum að snúa þeim sem ekki borga yfir í að verða borgandi, að fá þá til að kaupa hluti innan leiksins og fá þá til að kaupa sem allra mest í hvert skipti og halda þeim sem allra lengst. Því fleiri aðgerðir og áskoranir sem við setjum inn í leikinn því lengri verður þessi hali og þar með líftímavirðið,“ útskýrir Stefán Björnsson.

Óhætt er að segja að útlit leiksins sé í háum gæðaflokki. Ábyrgð á því ber listrænn stjórnandi Solid Clouds, Ágúst Kristinsson. Hann segir mikilvægt að hafa alla þekkingu tiltæka innan fyrirtækisins svo hægt sé að breyta og bæta hluti hratt og vel. Hann segir Solid Clouds hafa yfir að ráða framúrskarandi fólki á öllum sviðum þegar kemur að útlitshönnun.

Spurður um innblástur og stíl segir hann það sótt víða að. Sambærilegir leikir séu gaumgæfðir og myndefni úr vísindaskáldsögum skoðað. „Úr þessu verður okkar einstaki heimur til. Við leggjum mikið upp úr því að leikurinn líti afburðavel út. Ég held að allir sjái hve mikla natni við leggjum í hann.“

Stefán Gunnarsson segir að snemma hafi verið ákveðið að útlitið yrði flott. „Vísindaskáldsagnaleikir eins og þessi líta oft glæsilega út. Við skoðuðum vel hvaða geimleikir hafa náð langt. Þeir hafa allir haft útlitið með sér.“

Gervigreind notuð

Gervigreind er notuð í síauknum mæli í þróun leiksins. Það á bæði við um forritun leiksins sjálfs en einnig og ekki hvað síst við útlitshönnunina. Ágúst segir að teymið hafi notað nokkur gervigreindartól til að fjöldaframleiða hnappa, tákn og heiti í leiknum m.a., auk þess að búa til bakgrunna fyrir myndir. „Þetta er vinna sem við ætluðum upphaflega að útvista og hefði kostað okkur 15-20 milljónir. Með gervigreind fundum við leið til að vinna þetta hér á skrifstofunni á 1-2 vikum og spöruðum kostnaðinn,“ segir Stefán Björnsson.

„Gervigreind getur hjálpað litlu teymi eins og okkar að gera miklu meira en ella. Hún þýðir að ekki þarf alltaf að byrja með autt blað,“ segir Stefán Gunnarsson.

Hann segir að aragrúi af tólum séu í gervigreindinni. Með því að nýta hana t.d. innan úr Photoshop sé hægt að laga tæknina að framleiðsluferli leiksins á einfaldan og fljótlegan hátt. „Við ákveðin verk fer hún með okkur 80% af leiðinni en svo þarf að fínpússa. Þetta sparar fullt af vinnu.“

Einn stærsti kostnaðarliður tölvuleikjafyrirtækis eins og Solid Clouds er öflun nýrra spilara. Þar gildir sama lögmál og í annarri starfsemi í kringum Starborne Frontiers – stöðugt er skoðað hvaða auglýsingar virka og hverjar ekki. Það sem virkar er ítrað og svo koll af kolli þar til hámarksárangri er náð. „Við höfum til dæmis komist að því að mynd af geimskipi sem er á leiðinni í áttina að þér virkar betur en geimskip sem er á leiðinni frá þér,“ segir Daria Podenok markaðsstjóri.

Hún bendir einnig á mynd af kvenkyns skipstjóra geimskips. „Þessi hefur virkað mjög vel fyrir okkar markhóp.“

Bandaríkin lykilmarkaður

Daria segir að markaðsaðgerðir beinist aðallega að Bandaríkjunum, lykilmarkaði fyrirtækisins. Framleiddar séu myndbands- og myndaauglýsingar til birtingar á YouTube, Google Ads, á samfélagsmiðlum og í öðrum leikjaforritum. „Þessi ferill er mjög skapandi. Að fylgjast með því hvað kveikir neista hjá fólki og vinna það svo áfram. Við nýtum okkur einnig ummæli fólks um leikinn.“

Þorgeir Auðunn Karlsson, tæknistjóri Solid Clouds, ber ábyrð á ítarlegum mælingum eins og þeim sem minnst hefur verið á hér á undan, mælingum sem hjálpa stjórnendum að taka réttar ákvarðanir. „Við leggjum gríðarlega mikið upp úr prófunum, bæði formlegum prófunum spilara á staðnum en einnig rýnum við í reynslu fólks sem spilar leikinn úti í bæ. Þetta hjálpar okkur að bæta leikinn í sífellu. Við erum með hundruð mælibreyta.“

Eitt af því sem prófanir hafa leitt í ljós var að skipstjórar virkuðu betur en geimskip. „Þú vilt tengjast skipunum í gegnum andlit og spennandi útlit skipstjóranna. Þeir voru því settir í forgrunn,“ segir Þorgeir og brosir.

Sem fyrr segir er höfuðmarkmið Solid Clouds að fá fólk til að greiða fé inni í leiknum. „Núverandi hlutfall gefur góð fyrirheit um framhaldið. Við bætum svo stöðugt við meiri virkni til að halda spilurum við efnið.“

Um samkeppnina segir Stefán Gunnarsson að hún sé mikil. Hinsvegar njóti Solid Clouds góðs af því að tiltölulega fáir geimleikir séu á markaðnum. „Við teljum okkur standa út úr og erum að fá inn spilara sem hafa ekki spilað þessa tegund leikja áður. Leikurinn hefur einnig upp á margt að bjóða fyrir þá sem eru vanir geimleikjum,“ segir Stefán.

„Við skoðuðum mjög nákvæmlega áður en við fórum af stað hvaða leikir gengju best hvað tekjur á hvern notanda varðar,“ bætir Stefán Björnsson við.

„Við í teyminu spilum öll leikinn frá degi til dags og okkur finnst ganga mjög vel,“ segir Stefán Gunnarsson. „Við erum afar spennt fyrir næstu skrefum. Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að ná sér í leikinn í Google Play eða Apple App store og prófa,“ segja þeir að lokum en von er á nýrri stórri uppfærslu á næstu dögum.