Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að vísbendingum um aðlögun í hagkerfinu sé að fjölga.
„Kortavelta heimila hefur til dæmis dregist saman að raunvirði milli ára tvo mánuði í röð. Væntingakannanir teikna upp sömu mynd og þótt sumir aðrir vísar, eins og útlánaþróun og slíkt, sýni enn vöxt þá verður að hafa í huga tímatöfina. Sama má segja um vísbendingar á íbúðamarkaði og íbúðaverð samkvæmt þinglýstum kaupsamningum. Þar er um að ræða útfærslu ákvarðana og áætlana sem voru jafnvel gerðar í upphafi árs eða seint á síðasta ári.
Þannig að tímanlegum hagvísum er að fjölga sem benda til að nú sé að birtast viss snúningspunktur í hagsveiflunni og atvinnurekstri og þá sérstaklega eftirspurninni. Það var myndarlegur vöxtur í eftirspurn í fyrra en nú er að hefjast einhvers konar aðlögunarskeið.“
Fram kom í Morgunblaðinu í gær að velta fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu í mars/apríl dróst saman frá sama tímabili í fyrra, samkvæmt greiningu Analytica. Þá hefur blaðið sagt frá því að væntingavísitala Gallup hefur lækkað úr tæpum 100 stigum í janúar í tæp 80 stig í maí.
Spurður hvað niðursveiflan muni vara lengi segir Jón Bjarki að það fari svolítið eftir því hvað aðlögunin er hröð.
„Við teiknuðum upp sviðsmynd í hagspá okkar í síðasta mánuði sem gerir ráð fyrir hægri og sígandi aðlögun sem tekur að minnsta kosti næstu tvö ár. Það er að mörgu leyti heppilegra að ekki verði hraðar sviptingar í hagkerfinu. Þegar aðlögun er hröð eykst hættan á að hún lendi með mismiklum þunga á ólíkum kimum hagkerfisins, heimilum sem eru í misjafnri stöðu og svo framvegis. Hæg og sígandi aðlögun gefur hins vegar meira ráðrúm til að stilla af viðbrögð, áætlanagerð og annað slíkt. Við höfum auðvitað dæmi um svoleiðis þróun. Það var til dæmis einhvers konar aðlögunarskeið hafið áður en faraldurinn skall á.“
Farsóttin herti á
Með því vísar Jón Bjarki til aðlögunar sem fylgdi að hluta falli WOW air í mars 2019 og samdrætti í ferðaþjónustu. Síðan skall farsóttin á með fullum þunga í mars 2020.
„Árið 2019 var ákveðinn aðlögunartími og svo herti auðvitað mjög á því öllu saman árið 2020. Þannig að við þekkjum dæmi um hvort tveggja. En ég tel heppilegast og líklegast að núna gerist þetta jafnt og þétt.“
– Mun það kæla vinnumarkaðinn?
„Það gæti tekið tíma vegna þess að helstu sýnilegu vaxtarbroddarnir eru svo mannaflsfrekir: ferðaþjónustan og mannvirkjagerðin. Við höfum líka sveigjanlegan vinnumarkað og stuðpúða sem felst í taktinum á innflutningi á nýju vinnuafli. Það getur þá tekið hluta af sveiflu í eftirspurn eftir vinnuafli, án þess að við sjáum endilega atvinnuleysi breytast mikið.“
Verða aðhaldssamari
– Munu heimilin sjá þetta birtast í því að það verður minna til skiptanna eftir að búið er að borga reikninga og hærri afborganir af lánum? Verða áhrif niðursveiflunnar á heimilin í mildara lagi miðað við fyrri niðursveiflur?
„Já, ef þetta gengur eftir held ég að við sjáum góðu heilli að heimilin horfi fyrst og fremst fram á aðhaldssamari heimilisfjármál og að fólk horfi kannski meira í aurinn og dreifi stærri neyslu yfir lengri tíma. Þar með talið við kaup á húsgögnum, heimilistækjum og við utanlandsferðir og bílakaup. Það verður fróðlegt að sjá hvernig vísitala stórkaupa mælist um mánaðamótin,“ segir Jón Bjarki.