Þegar blaðamaður gengur inn í höfuðstöðvar Mjólkursamsölunnar, eða MS eins og hún er jafnan kölluð, tekur á móti honum stafræn móttaka. Þar sem blaðamaður er að reyna að skrá sig inn í kerfið gengur maður inn, með „bluetooth“-stykki í eyranu, og býður góðan daginn. Í fljótu bragði heldur blaðamaður að sennilega sé um að ræða einn af mjólkurbílstjórum fyrirtækisins en þegar betur er að gáð reynist þetta vera Pálmi Vilhjálmsson, forstjóri samsölunnar, að koma í hús eftir fundarhöld á Selfossi, en það er einmitt maðurinn sem blaðamaður hafði mælt sér mót við.
Tilgangur fundarins er að fræðast um Mjólkursamsöluna og markaðinn sem hún starfar á. Mjólkursamsalan annast framleiðslu, vöruþróun, markaðssetningu og dreifingu á mjólkurafurðum og er sem slík í markaðsráðandi stöðu. Markaðurinn lýtur sérstökum lögmálum að lögum og er fyrirkomulag hans reglulega á milli tannanna á fólki, ekki síst þeim sem starfa á vettvangi stjórnmálanna. Verð á markaðinum ákvarðast af opinberri verðlagsnefnd en í henni eiga sæti fulltrúar ríkis, bænda, afurðastöðva og neytenda og er þar annars vegar ákvarðað verð til neytenda og hins vegar bænda.
„Afkoma Mjólkursamsölunnar er í raun stillt í gegnum tekjurnar. Ef það þarf að hækka verð á mjólk eða mjólkurvörum, þá gerist það alltaf eftir á. Við lítum í baksýnisspegilinn og förum yfir þróun kostnaðarliða, til dæmis launa, olíuverðs, rafmagns og fleira. Atvinnugreinin býr þannig við mjög mikið aðhald í tekjum sínum, byggt á þessari verðlagningu,“ segir Pálmi.
Hann bendir á að á síðasta ári hafi verið tæplega 300 milljóna króna hagnaður af 35 milljarða veltu Mjólkursamsölunnar – eða um 0,8%. „Má í því samhengi nefna að fyrrnefndir kostnaðarliðir hjá Mjólkursamsölunni hafa sumir hverjir hækkað um 150-600 milljónir kr. á ársgrunni. Þannig er ljóst að það má lítið út af bera til þess að fyrirtækið verði ósjálfbært í rekstri, en þetta er stillt af í gegnum verðlagninguna.“
Spurður hvort ekki sé hætt við því að rekstraraðhald fari fyrir lítið þegar tekjur eru einfaldlega stilltar af eftir því hver kostnaðurinn er, telur Pálmi litla hættu á því.
„Aðhald í rekstri kemur ekki síst frá eigendum Mjólkursamsölunnar – það er frá bændum. Ef ekki væri gætt að kostnaði myndi það að endingu bitna á afurðaverði til þeirra. Ef við færum ógætilega í rekstri félagsins, þá á endanum bitnar það einfaldlega á bændunum. Við erum sífellt að móta fyrirtækið og starfsemi þess til lækkunar á kostnaði og reyna samhliða að sníða okkur stakk eftir vexti.“
Verð til neytenda fryst um árabil
Pálmi lýsir því hvernig atvinnugreinin hefur tekið breytingum á undanförnum árum, undir stýrðum kringumstæðum í samráði við stjórnvöld, þar sem farið var í viðamikla hagræðingu sem hafi skilað sér til neytenda og bænda.
„Afurðastöðvum sem voru að vinna mjólk og pakka mjólkurvörum víðsvegar um landið hefur fækkað verulega, úr 18 í 5, sem hefur dregið verulega úr kostnaði og hefur ávinningnum verið skilað að tveimur þriðju til neytenda og einum þriðja til bænda. Þessi þróun mun halda áfram í frekari sérhæfingu í vinnslu og starfsemi afurðastöðva – en það hefur í för með sér minni fjárfestingaþörf og þar með lækkandi kostnað.“
Inntur eftir því með hvaða hætti ávinningnum var skilað til neytenda og bænda, segir Pálmi:
„Þegar kostnaður bænda hækkaði, til að mynda áburður, olía eða kornmeti í kjarnfóður, þá hækkaði mjólkurverð til þeirra, en mjólkurfyrirtækin fóru ekki út á markaðinn með hækkun til neytenda. Verð til þeirra var einfaldlega fryst á árunum 2003-2007, þannig að sparnaðurinn sem þá varð til skilaði sér til neytenda á sama tíma og afurðaverð til bænda hækkaði.“
Þegar allt er tekið saman segir Pálmi hagræðinguna hafa skilað lægri rekstrarkostnaði um sem nemur þremur og hálfum milljarði kr. á ársgrundvelli. „Ef við skoðum hvað drykkjarmjólkin hefði þurft að kosta á þessum tíma ef ekki hefði verið farið í hagræðinguna, þá hefði hún þurft að vera 35 krónum dýrari. Það eru 10 lítrar af mjólk í einu kílói af osti sem þýðir að kílóverð hans hefði þurft að vera um 350 krónum hærra.“
Hann segir að á sama tíma og vinnslustöðvum MS hafi fækkað hafi aðrar stækkað. „Til dæmis á Selfossi, þar var áður verið að vinna um 30 þúsund tonn en þegar mest var fór framleiðslan upp í 85 þúsund tonn, með sama mannskap og sama tækjabúnaði félagsins, þannig að framleiðni hefur aukist verulega.“
Forsenda hagræðingarinnar er lagagrein sem tekist hefur verið á um í gegnum tíðina, það er 71. grein búvörulaga nr. 99/1993 en hún er svohljóðandi:
„Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.“
Á móti hefur fyrirkomulag verðlagningar, það er að henni sé stýrt af hinni opinberu verðlagsnefnd, verið til þess fallið að skila ávinningi af verkaskiptingu og samstarfi til neytenda og bænda. Af þessu skýrist fyrirkomulagið á markaði eins og við þekkjum það í dag.
„Þessu til viðbótar verður að nefna það að ríkisstuðningur til bænda, á hvern framleiddan lítra mjólkur fyrir innanlandsmarkað, hefur dregist umtalsvert saman á síðastliðnum einum og hálfum áratug. Þessu hefur ekki verið haldið mikið á lofti í umræðunni um starfsumhverfi bænda og afurðastöðva í mjólkuriðnaði,“ segir Pálmi.
Framtíð landbúnaðar er ákvörðun
Annar angi sem hefur verið töluvert til umræðu eru tollar á mjólkurvörum, líkt og í landbúnaði almennt.
„Í umræðunni vill oft gleymast að milliríkjasamningar eru gagnkvæmir samningar um réttindi og skyldur. Með þeim fáum við aðgang að erlendum mörkuðum og erlend fyrirtæki fá aðgang að íslenskum markaði. Fyrirtæki innan Evrópusambandsins hafa fengið umtalsverðan aðgang að íslenskum makaði. Ef þær skorður sem settar eru samkvæmt samningum eru ekki virtar, leiðir það af sér að bændur verða fyrir enn meiri markaðsskerðingu en samið var um. Með því er þá einfaldlega vegið að forsendu þess að þeir geti starfað. Í raun eru búvörusamningar eins konar kjarasamningar bænda og það er mjög mikilvægt að ekki sé verið að fara fram hjá ákvæðum þeirra og milliríkjasamninga sem gerðir eru. Búvörusamningar, opinber verðlagning og milliríkjasamningar eru samverkandi áhrifaættir í starfsemi kúabænda – en allt þetta er rammað inn í gildandi búvörulög þar sem landbúnaðarstefnan er sett fram.“
Hann segir að á litlum markaði eins og Íslandi sé það opinber ákvörðun hverju sinni að viðhalda landbúnaði.
„Hér á þeirri breiddargráðu sem við búum verður ekki landbúnaður nema það sé ákvörðun stjórnvalda. Þannig hefur það verið og þannig verður það. Fólksfæðin hér er slík og markaðurinn lítill í alþjóðlegum samanburði að þetta er ekki lífvænleg grein nema stjórnvöld og samfélagið ákveði að við ætlum að framleiða þessi matvæli hér á landi. Til þess þarf að skapa hér aðstæður sem vernda íslenskan landbúnað. Við höfum ekki fjárhagslega burði gagnvart þessum gríðarstóru alþjóðlegu fyrirtækjum sem búa við allt aðrar aðstæður en við. Það verður að vera ákvörðun samfélagsins að það sé stunduð matvælaframleiðsla hér á landi, og það er bara þannig.“ Án aðgangshindrana myndu erlend fyrirtæki taka markaðinn yfir. „Þeir hafa fjárhagslega burði til þess, en ég tel ekki að það myndi tryggja lægra verð til neytenda til lengri tíma litið, og engin trygging fyrir því,“ segir hann.
Fjárfesting náttúruleg aðgangshindrun
Í pólitískum umræðum er gjarnan talað um einokunarstöðu MS en Pálmi segir þá umræðu á misskilningi byggða. „Mjólkursamsalan er ekki í einokunarstöðu þótt hún hafi vissulega markaðsráðandi stöðu. Það mega allir selja mjólk, vinna mjólk og taka á móti mjólk sem á annað borð uppfylla ákveðin skilyrði heilbrigðisyfirvalda og opinberra stofnana.“
Aftur á móti sé fjárfesting í iðnaðinum umtalsverð, sem verður eins konar náttúruleg aðgangshindrun.
„Fjárfesting í tækjabúnaði í afurðastöð eins og á Selfossi er sennilega um 10-15 milljarðar króna. Það er erfitt að reka stórt fyrirtæki um slíka fjárfestingu, þar sem hagnaður er innan við 1% af veltu, hvað þá að vera með mörg minni fyrirtæki sem eru að fjárfesta í þessum tækjum og búnaði. Opinbera verðlagningin býður heldur ekki upp á að mikið sé eftir til að fjárfesta, og ekki er verið að greiða arð út úr rekstrinum. Þetta eru fyrirtæki bænda, þau greiða bændum afurðaverðið og þessi litli rekstrarafgangur rétt nægir til þess að þau geti rekið sig og í sumum tilfellum ekki. Það er svo lítið upp á að hlaupa að það er ekki með léttu móti farið inn á þennan markað með þeim fjárfestingum sem mjólkurvinnsla krefst.“
Hann bendir á að vegna stöðu sinnar verði MS að sinna vöruflokkum sem jafnvel skili neikvæðri framlegð.
„Aðilar sem koma inn á markaðinn geta farið í framlegðarhærri vörur, en við verðum að sinna öllum vöruflokkum, jafnvel vörum með enga eða neikvæða framlegð,“ segir Pálmi og tekur þar smjör sem dæmi.
Spurður hvort MS gæti ekki ákveðið að sneiða hjá slíkum vörum eins og aðrir svarar hann: „Mjólkursamsalan hefur þá stöðu að við verðum að sinna öllum markaðinum hvort sem vöruframlegð er lítil eða engin. Afhendingarskylda okkar við markaðinn er rík og verðum við að tryggja hana.“
Pólitísk umræða fylgir stöðunni
Pálmi virðist láta pólitíska umræðu lítið fara í taugarnar á sér, jafnvel þótt hún sé oft á misskilningi byggð.
„Við erum stór aðili á markaði sem býr til neysluvöru fyrir alla þjóðina og afhendir hvert á land sem er, á sama verði til allra verslana um allt land. Staða okkar og hlutverk er óneitanlega sérstakt og ég held að svona umræða sé einfaldlega óhjákvæmilegur fylgifiskur þess.“
Mjólkursamsalan í eigu kúabænda
Pálmi Vilhjálmsson hefur verið forstjóri Mjólkursamsölunnar frá því síðla árs 2020, þegar samsölunni var skipt upp og innlend og erlend starfsemi aðskilin. Áður var hann aðstoðarforstjóri.
Mjólkursamsalan annast framleiðslu, vöruþróun, markaðssetningu og dreifingu á mjólkurafurðum til viðskiptavina sem eru um 3.000 og staðsettir um allt land. Mjólkursamsalan er eitt þeirra fyrirtækja sem Stjórnarráð Íslands hefur skilgreint sem þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki með tilliti til matvælaframleiðslu á landinu.
Fyrirtækið er jafnframt eitt stærsta dreifingarfyrirtæki landsins fyrir tilstilli flutninga þess á mjólk frá bændum til framleiðslustöðva og dreifingar á tilbúnum vörum til viðskiptavina og verslana. Bílar Mjólkursamsölunnar flytja á hverju ári sem nemur um 150.000 tonnum af mjólk frá framleiðendum og tæplega 60.000 tonn af tilbúnum afurðum til dreifingarstöðva og viðskiptavina.
Eigendur Mjólkursamsölunnar eru samvinnufélögin Auðhumla með 80% eignarhlut og Kaupfélag Skagfirðinga með 20% eignarhlut. Auðhumla er í eigu 448 kúabænda um land allt og fjölskyldna þeirra og hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir en það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni. Hluti af fjölda félagsmanna í Kaupfélagi Skagfirðinga eru 45 kúabændur og fjölskyldur þeirra. Heildarfjöldi starfandi kúabænda á landinu er því 493.