Dagbjört Þorsteinsdóttir fæddist 13. janúar 1960. Hún lést 5. júní 2023. Útför Dagbjartar fór fram 15. júní 2023.
Missirinn af Döggu er mikill. Hún var einstaklega kærleiksrík kona og tók sérstaklega vel á móti mér í fjölskylduna þegar við Brynjólfur tókum saman um árið. Hún var alltaf að þegar maður kíkti í heimsókn í Leirutangann, með tuskuna eða moppuna á lofti eða að græja kvöldmatinn. Hún var ætíð áhugasöm um allt sem á daga manns hafði drifið og var spennt fyrir væntanlegum erfingja og fórum við í eftirminnilega ferð til Spánar þegar ég var langt gengin með Storm. Þar áttum við góðar stundir í sólinni og kíktum í búðir til að versla á ömmubarnið. Ömmuhjartað stækkaði þegar litli drengurinn okkar fæddist og geislaði þegar þau Mogens mættu upp á fæðingardeild að berja dagsgamlan ungann augum.
Henni fannst ekkert skemmtilegra en að fá litla manninn í heimsókn til ömmu og afa í Mosó og þar var hann dekraður daginn út og inn.
Stormur elskaði ömmu sína afar heitt og var hún dugleg við að gauka að honum alls konar gúmmelaði og leika við hann úti í garði og fylgdist vel með á samfélagsmiðlum þegar Stormi brá við. Hún vildi aldrei láta mikið fyrir sér fara eða láta hafa mikið fyrir sér, gerði alltaf sitt í topp og bað aldrei um neitt í staðinn. Heiðarlegri og umhyggjusamari kona er vanfundin. Henni fannst þó alltaf gaman að slá sér upp, ég heyri dillandi hláturinn og sé ég hana fyrir mér með lögg af Grand Marnier í glasi í draumalandinu að sleikja sólina.
„Amma Dagga var góðasta amma í heimi af því hún knúsaði mig mikið og gaf mér oft nammi, ég elska hana mjög mikið og sakna hennar líka.“
Góða ferð elsku amma Dagga, við sjáumst síðar,
Kristín Pétursdóttir og Stormur Löve Brynjólfsson.