Hörður Ægisson og Andrés Magnússon ræða í Dagmálum þann ólgusjó sem Íslandsbanki er nú í vegna lögbrota sem upplýst hefur verið um.
Hörður Ægisson og Andrés Magnússon ræða í Dagmálum þann ólgusjó sem Íslandsbanki er nú í vegna lögbrota sem upplýst hefur verið um.
„Þetta er ekki fyrsti bankinn sem er seldur á Íslandi. En hvað er það sem allar þessar bankasölur sem hafa átt sér stað hér á landi eiga sameiginlegt? Jú, þær hafa allar verið rannsakaðar. Það er um það bil það eina við bankasölu sem er hægt…

„Þetta er ekki fyrsti bankinn sem er seldur á Íslandi. En hvað er það sem allar þessar bankasölur sem hafa átt sér stað hér á landi eiga sameiginlegt? Jú, þær hafa allar verið rannsakaðar. Það er um það bil það eina við bankasölu sem er hægt að ganga út frá að muni gerast.“

Þetta segir Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra á Morgunblaðinu, í nýjasta þætti Dagmála þar sem hann er gestur ásamt Herði Ægissyni, ritstjóra Innherja. Hann segir þessa staðreynd skipta máli þegar horft er til þeirra vinnubragða sem viðhöfð voru á vettvangi Íslandsbanka þegar starfsmenn bankans fengu það verkefni að selja hluti í honum sjálfum.

Líkt og áður hefur komið fram hafa forsvarsmenn Íslandsbanka gengist undir svokallaða sátt við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands vegna lögbrota sem áttu sér stað í tengslum við söluferlið og nemur sáttagreiðsla vegna þess 1.160 milljónum króna. Hörður Ægisson bendir á að sú fjárhæð sé tvöfalt hærri en allar sektir og sáttagreiðslur sem greiddar hafa verið á fjármálamarkaði frá árinu 2007. Enginn hafi átt von á því á fyrstu stigum máls að upphæðin gæti orðið jafn tröllaukin. Það sjáist best á því að Íslandsbanki hafi gjaldfært í bókum sínum 300 milljónir króna vegna meintra brota. Heimildir hans hermi þó að bankinn hafi gert ráð fyrir að sektargreiðslan gæti numið eitthvað hærri fjárhæð en sem nam varúðarfærslunni.

„Ég skil vel að bankastjórinn hafi viljað fá tekjurnar. Það munar um það. En ef það var einhver einn banki í heiminum sem átti ekki að koma nálægt því [söluferlinu] þá var það Íslandsbanki því þú ert að búa til möguleg vandamál varðandi innherjaþekkingu og hagsmunaárekstra.“ Þetta segir Andrés og segir að bankinn hafi mátt sjá fyrir þau vandamál sem síðan komu upp. Hörður tekur undir það en segir að fyrst bankinn tók ákvörðun um að koma að útboðinu og heimila starfsfólki að taka þátt í því, þá hefði þurft að fara fram greining á áhættunni sem því var samfara.

Þeir eru báðir mjög gagnrýnir á viðbrögð bankans eftir að sáttin var tilkynnt.

„Jafnvel þótt stjórnarformaðurinn komi þarna inn fimm dögum fyrir útboð þá stýrir hann viðbrögðum bankans í þessari vinnu. Ég held að Andrés orði það réttilega að þetta ber þann blæ að það sé verið að taka hagsmuni bankastjórans fram yfir hagsmuni bankans […] og fara ekki í þau hjólför að taka undir með Birnu um að þetta sé lærdómur sem við getum dregið eitthvað af,“ segir Hörður.