Hörður Kristinsson grasafræðingur lést fimmtudaginn 22. júní, 85 ára að aldri. Hörður var afkastamikill fræðimaður og brautryðjandi í rannsóknum á útbreiðslu íslenskra plantna, en eftir hann liggja tæplega 150 ritsmíðar á því sviði

Hörður Kristinsson grasafræðingur lést fimmtudaginn 22. júní, 85 ára að aldri. Hörður var afkastamikill fræðimaður og brautryðjandi í rannsóknum á útbreiðslu íslenskra plantna, en eftir hann liggja tæplega 150 ritsmíðar á því sviði.

Hörður fæddist á Akureyri 29. nóvember 1937 og var alinn upp á Arnarhóli í Eyjafjarðarsveit. Foreldrar hans voru þau Kristinn Sigmundsson bóndi og Ingveldur Hallmundsdóttir húsfreyja.

Hörður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1958 og hélt þaðan í háskólanám til Göttingen í Þýskalandi þar sem hann lærði grasa- og dýrafræði. Eftir að hafa lokið doktorsprófi í grasafræði árið 1966 hóf Hörður rannsóknir á íslenskum fléttum við Duke-háskólann í Norður-Karólínuríki Bandaríkjanna.

Að lokinni dvölinni í Bandaríkjunum starfaði Hörður við Náttúrugripasafnið á Akureyri og Lystigarð Akureyrar. Þá var hann prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands 1977-1987 og stýrði Náttúrufræðistofnun Norðurlands, síðar Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands, á árunum 1987-1999. Hann starfaði sem sérfræðingur hjá stofnuninni þar til hann fór á eftirlaun árið 2007. Þó dró lítið úr framlagi Harðar til grasafræði Íslands þegar eftirlaunaaldri var náð og vann hann af kappi að ýmsum rannsóknarefnum innan grasafræðinnar á meðan heilsan leyfði.

Ásamt því að vera vísindamaður beitti Hörður sér fyrir fræðslu og skrifaði hann meðal annars Íslensku plöntuhandbókina, Íslenskar fléttur og átti hlut að stórvirkinu Flóra Íslands. Hann hélt einnig úti vefnum Flóra Íslands, gaf út fréttablaðið Ferlaufung og skipulagði dag hinna villtu blóma á Íslandi.

Hörður var alla tíð vörður íslenskrar tungu, en árið 2002 var hann sæmdur viðurkenningu menntamálaráðuneytisins fyrir framlag sitt til gagnagrunns um íslensk plöntunöfn. Árið 2016 hlaut hann riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir rannsóknir og kynningu á íslenskum gróðri.

Eftirlifandi eiginkona Harðar er Sigrún Björg Sigurðardóttir. Hann skilur eftir sig tvær dætur úr fyrra hjónabandi, þær Fanneyju og Ingu Björk Harðardætur.