Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Fyrirtækið Thor landeldi ehf. hefur lagt fram til kynningar matsáætlun vegna byggingar fiskeldisstöðvar vestan við Þorlákshöfn þar sem ætlunin er að ala lax og ef til vill silung í kerum á landi.
Miðað er við 20 þúsund tonna framleiðslu á ári í fullbyggðri stöð ásamt seiðastöð og þjónustubyggingum. Er þetta þriðja stóra landeldisverkefnið á þessu svæði en auk þess eru þrjár stórar seiðastöðvar í nágrenninu. Áformuð heildarframleiðsla í landeldinu er 76.500 tonn á ári.
Vanir menn
Lóðin sem Thor landeldi ehf. hefur fengið hjá Sveitarfélaginu Ölfusi er 2,5 kílómetrum vestan við Þorlákshöfn. Þar stóð áður fiskeldisstöðin Fjörfiskur. Í forsvari fyrir fyrirtækið eru reyndir fiskeldismenn, Jónatan Þórðarson og Þórður Þórðarson, og mynda þeir verkefnisstjórn fyrir umhverfismatsferlið ásamt fleirum og ráðgjöfum frá Eflu.
Gert er ráð fyrir að stöðin verði byggð upp í þremur áföngum. Í fyrsta áfanga á að byggja seiðaeldisstöð og áframeldisstöð fyrir 5 þúsund tonna framleiðslu á ári. Seiðastöðin á einnig að duga fyrir annan áfanga þar sem gert er ráð fyrir 7.500 tonna viðbót.
Í þriðja áfanga verður seiðastöðin stækkuð svo hægt verði að auka áframeldið enn um 7.500 tonn á ári, þannig að heildarframleiðslan verði 20 þúsund tonn. Stefnt er að því að framkvæmdir við fyrsta áfanga hefjist vorið 2024 og stöðin geti tekið til starfa haustið 2025.
Thor landeldi er þriðja fyrirtækið sem hyggur á umfangsmikið landeldi austan við Þorlákshöfn. Landeldi hf. hefur hafið starfsemi á lóð austan við lóð nýja fyrirtækisins og hyggur á 32.500 tonna framleiðslu á ári.
Geo Salmo hefur lóð nokkuð vestan við Thor landeldi og áformar um 24 þúsund tonna framleiðslu. Ef öll þessi áform ganga eftir verður heildarframleiðslan 76.500 tonn á ári. Til viðbótar eru þrjár seiðaeldisstöðvar austan við landeldislóðirnar, nær Þorlákshöfn, það eru stöðvar Ice Fish Farm og tvær stöðvar í eigu Arnarlax. Samanlagður hámarkslífmassi þessara þriggja stöðva er áætlaður 4.400 tonn.
Eldisstöðvarnar þurfa mikið ferskvatn og jarðsjó til eldisins og getur vatnstaka eins fyrirtækis úr borholum haft áhrif á önnur. Við umhverfismatið verða áhrif vatnstökunnar metin.