Halldóra Kristín Jónsdóttir fæddist 6. júní 1941. Hún lést 2. júní 2023. Útförin var gerð 14. júní 2023.
Kveðjustund var frá Djúpavogskirkju 16. júní 2023.
Nú hefur kvatt okkur ein besta kona sem ég hef kynnst, tengdamóðir mín, Dóra eins og hún var alltaf kölluð. Þrautseigja, æðruleysi og þolinmæði er það sem mér dettur helst í hug þegar ég minnist Dóru. Lífið var ekki alltaf auðvelt, fimm börn, atvinna stopul og tekjur óreglulegar en aldrei heyrði ég hana kvarta yfir peningaleysi eða vera að rembast í einhverju lífsgæðakapphlaupi. Þegar við Harpa vorum að hefja okkar búskap var ekki alltaf öruggt húsnæði og þurftum við því stundum að flytja aftur í Sætún eftir að hafa fengið íbúð í einhverja mánuði en aldrei fann ég neitt annað en að við værum velkomin aftur. Seinna, eftir að við fluttum til Reykjavíkur, fórum við oft í heimsóknir austur og alltaf biðu mín nýbakaðar heitar kleinur og brosmild tengdamamma, alveg sama hve seint við komum. Í þessum ferðum okkar austur þurfti ég að sjálfsögðu að veiða einhverja silunga en aldrei kvartaði hún yfir slori og subbuskap sem sjálfsagt hefur fylgt mér. Dóra var svolítið dæmigerð fyrir konu af hennar kynslóð, hlutverk kynjanna voru dálítið klár, konur sáu um sitt og karlarnir um sitt. Ein af mínum uppáhaldsminningum er þegar við Bríet svilkona stóðum við vaskinn í Álfaskeiði og vorum að vaska upp eftir eitthvert jólaboðið, þá kom Dóra inn í eldhúsið og sagði furðu lostin: „Stendur þú hér og vaskar upp, Jónas minn!“ Bríet auðvitað á réttum stað, en ekki ég. Ég gæfi mikið fyrir að hafa bara lítinn hluta af þeirri þolinmæði sem Dóra bjó yfir og mun ég reyna að temja mér það.
Takk fyrir allt elsku tengdamamma.
Þinn,
Jónas.