Lítið er eftir af Il-stjórnstöðvarflugvél Rússa sem skotin var niður af vígamönnum Wagner um helgina. Hún bar skráningarnúmerið RF-75917.
Lítið er eftir af Il-stjórnstöðvarflugvél Rússa sem skotin var niður af vígamönnum Wagner um helgina. Hún bar skráningarnúmerið RF-75917.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í brennidepli Kristján H. Johannessen khj@mbl.is

Í brennidepli

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Vígamenn málaliðahópsins Wagner, undir forystu stofnanda hópsins, Jevgení Prigósjín, skiptust á skotum við hersveitir Moskvuvaldsins innan landamæra Rússlands síðastliðna helgi. Stóð þá sókn Wagner-liða í átt að Moskvu sem hæst, en Prigósjín hafði þá lýst yfir „stríði“ á hendur yfirstjórn rússneska hersins, þeim Sergei Sjoígú varnarmálaráðherra og Valerí Gerasimov, yfirmanni rússneska herráðsins. Voru þeir sakaðir um að hafa staðið á bak við árásir á bækistöðvar Wagner-hópsins í Úkraínu. Skömmu áður en liðsmenn Wagner náðu inn í höfuðborgina skipaði Prigósjín þó mönnum sínum aftur til herbúða sinna. Höfðu málaliðar þá skotið niður sex rússneskar herþyrlur og eina skrúfuþotu. En hvaða tæki voru þetta eiginlega?

Flugvélin sem skotin var niður er af gerðinni Ilyushin Il-22M-11 og var hún sérstaklega búin til að gegna hlutverki stjórnstöðvar í lofti. Átti hún að auðvelda ólíkum einingum hersins að samræma aðgerðir sínar í orrustum og beita fjölbreyttum vopnakerfum með nákvæmum hætti. Til að sinna þessu hlutverki mátti finna flókinn fjarskipta- og tæknibúnað um borð í vélinni, en áhöfn taldi alls tíu manns. Þeir fórust allir þegar Wagner-liðar beittu vopnum sínum gegn flugvélinni.

Afar sjaldséð flugvél

Il-vélin bar skráningarnúmerið RF-75917 og var hún framleidd árið 1983 fyrir flugher Sovétríkjanna sálugu. Var þá með skráningarstafina CCCP, fyrir Sovétríkin, á undan áðurnefndu raðnúmeri. Samkvæmt opinberum gögnum þá á rússneski flugherinn nú alls 11 Ilyushin Il-22M og voru þær afhentar hernum eftir miklar endurbætur, en Rússar hafa undanfarin ár unnið að því að taka gamlar og úr sér gengnar Ilyushin og uppfæra þær með nýtt hlutverk í huga. Auk stjórnstöðvarflugvéla, líkt og þeirri sem skotin var niður yfir Rússlandi, hafa þeir tekið Il-vélar og búið þær undir rafeindahernað, m.a. með það í huga að geta tekist á við AWACS-ratsjárvélar Atlantshafsbandalagsins (NATO).

Hernaðarsérfræðingar segja Rússa með þessu vera að spara sér pening, ódýrara sé að taka margreynda flugvél og uppfæra hana eftir þörfum flughersins í stað þess að hanna nýja frá grunni.

Árið 2019 mættu tvær breskar orrustuþotur af gerðinni Typhoon Il-stjórnstöðvarflugvél Rússa yfir Eystrasalti. Í tilkynningu breska varnarmálaráðuneytisins frá þeim tíma segir að „afar sjaldgæft“ sé fyrir vélar NATO að rekast á slíkar flugvélar. Fyrir þetta atvik hafði það ekki gerst í um þrjú ár.

Í ljósi þess hve fá eintök Rússar eiga af Il-stjórnstöðvarflugvélum, hve sjaldan þær sjást á lofti og hversu flókinn og dýr búnaður er um borð telja sérfræðingar ljóst að tjón Rússlands sé mikið eftir atburði helgarinnar. Slæmt sé að missa slíka flugvél á stríðstímum.

Nokkrar tegundir þyrlna

Þá skutu Wagner-liðar niður þrjár þyrlur af gerðinni Mi-8MTPR, sem sérstaklega eru búnar undir rafeindahernað; eina Mi-8-flutningaþyrlu og tvær árásarþyrlur, svonefndar Mi-35 og Ka-52. Árásarþyrlurnar eru sagðar hafa beitt sér gegn Wagner-liðunum sem þá svöruðu með flugskeytum.

Kamov Ka-52, eða krókódílinn svonefndi, er að líkindum fullkomnasta árásarþyrla rússneska heraflans, hönnuð skömmu fyrir aldamótin 2000. Tugir slíkra véla hafa farist í Úkraínu undanfarið.

Loftvarnir Wagner

Voru með Pantsir-kerfi

Wagner-liðar sóttu í átt að Moskvu á brynvörðum ökutækjum, jeppabifreiðum og skriðdrekum. Til að verjast hugsanlegum árásum á leiðinni voru inni á milli ökutæki búin Pantsir-S1-loftvarnakerfi.

Kerfi þetta skýtur loftvarnaflaugum sem eru með miðlungsdrægni og eiga að geta grandað nær hvaða loftfari sem er. Auk skotflauga er Pantsir-kerfið útbúið tveimur öflugum 30 millimetra vélbyssum sem eru afar banvænar í návígi. Talið er nær öruggt að þessu kerfi var beitt gegn Rússum.

Höf.: Kristján H. Johannessen