Fyrirvaralaust hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra vakti ríkar tilfinningar í liðinni viku. Þær risu hæst á fjölmennum borgarafundi á Akranesi, en virtust svo þurfa að víkja fyrir fréttum af ógöngum Íslandsbanka og starfsháttum, sem ganga á svig við lög og reglur.
Hvalveiðibann Svandísar er samt ekki frá eða frágengið, en það markast einnig af því að ráðherra hefur teflt á tæpasta vað gagnvart lögum og góðri stjórnsýslu. Eiginlega kominn á bólakaf.
Hæpið lögmæti ákvörðunarinnar hefur komið skýrt fram í viðbrögðum sérfræðinga við hinum og þessum álitaefnum hvalveiðibanns Svandísar undanfarna daga. Í gær var svo birt heilsteypt lögfræðiálit, unnið af lögmannsstofunni Lex fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), og niðurstaðan sú að ákvörðunin sé ólögmæt og ekki reist á traustum lagagrundvelli.
Í álitinu er bent á ófrávíkjanleg fyrirmæli stjórnarskrár um að reglugerðir verði að hvíla á lögum, en í hvalveiðilög vanti heimild til að ráðherra megi í reynd stöðva hvalveiðar eða koma í veg fyrir að veiðirétthafar geti nýtt réttindi sín. Fyrirvaralaust hvalveiðibann, án aðlögunartíma, standist ekki meðalhófsregluna, en auk þess sé ekki góð stjórnsýsla að setja reglugerð um bannið í stað þess að fylgja málsmeðferð stjórnsýslulaga. Loks hafi hvorki andmælaréttur Hvals hf. né rannsóknarregla ráðherra verið virt. Hvert og eitt þessara atriða kippir grundvellinum undan hvalveiðibanni Svandísar.
Í áliti Lex er ekki vikið sérstaklega að afleiðingum ólögmætrar stjórnsýslu ráðherrans nema að Hvalur hf. og starfsfólkið kunni að eiga skaðabótarétt á hendur íslenska ríkinu. Þar er þó ekki um að ræða litla hagsmuni, bæði útgerðarinnar og um 150 fjölskyldna, sem nú eru með heimilisbókhaldið í uppnámi vegna bráðlætis ráðherrans. Nýlegir dómar í makrílmálunum benda til þess að það geti reynst skattgreiðendum ákaflega kostnaðarsamt.
Hvort Svandís láti sig það einhverju varða er önnur saga. Árið 2011 var hún dæmd í Hæstarétti fyrir að hafa sem umhverfisráðherra neitað að staðfesta skipulag í Flóanum af því að hún var á móti Urriðafossvirkjun. Hún væri sko í pólitík og léti náttúruna njóta vafans, eins og þá yrðu lög og stjórnskipan að víkja.
Hvalveiðibannið nú bendir til þess að Svandís sitji við sinn keip um það og telji pólitíska sannfæringu sína taka öðru fram. Það er misskilningur. Lög ganga fyrir og matvælaráðherra er ekki aðeins pólitíkus, heldur embættismaður með úrskurðarvald, og getur ekki farið fram að pólitískum smekk í því frekar en dómarar.
Svör matvælaráðherra í þinginu fyrr í mánuðinum, spurður um bann við hvalveiðum, gátu þó bent til þess að Svandís hefði látið sér dóminn að kenningu verða:
„Samkvæmt ráðgjöf sem lögfræðingar matvælaráðuneytisins hafa gefið mér er ekki að finna skýra lagastoð fyrir stjórnsýsluviðurlögum, svo sem afturköllun leyfis að svo búnu.“
En svo virðast hafa orðið pólskipti í ráðuneytinu, því bannið var lagt fram án fyrirvara og á föstudag var ráðherrann alveg viss um hitt:
„Það er mitt mat og míns ráðuneytis að reglugerðin sé reist á mjög traustum lagagrundvelli og það er alveg ljóst að það er skýr og ótvíræð heimild til að takmarka veiðar við ákveðinn tíma.“
Það er nú gott að það sé mat matvælaráðherra, en hvar er rökstuðningurinn?
Þrátt fyrir að Alþingi, fjölmiðlar og hagsmunaaðilar hafi óskað eftir álitsgerðum, minnisblöðum og öðrum pappírum málsins innan úr ráðuneytinu bólar ekkert á þeim. Verður þó ekki öðru trúað en að ráðherra hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína áður en ákvörðunin var tekin og öll skjölin bíði tilbúin í möppum. Biðin eftir þeim er hins vegar farin að verða sjálfstætt vandamál, sem grefur undan trúverðugleika ráðherrans dag frá degi.
Ekki má leika minnsti vafi á embættisfærslu ráðherrans. Komi skjölin, rétt dagsett, ekki skjótt í leitirnar, gætu Vinstri græn skjótt þurft að leita sér að nýjum ráðherra.