Eftir brautskráninguna Erna Guðrún Árnadóttir á gleðistundu.
Eftir brautskráninguna Erna Guðrún Árnadóttir á gleðistundu. — Ljósmynd/Eiríkur Baldursson
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Svo lengi lærir sem lifir, segir máltækið, og Erna Guðrún Árnadóttir, sem er 75 ára, er sprelllifandi dæmi um það. Hún útskrifaðist með BA-próf í íslensku frá Háskóla Íslands 1971 og brautskráðist með MA-gráðu í íslenskum bókmenntum frá sama skóla um liðna helgi. „Námið var mjög skemmtilegt og ég lauk því á rúmlega tveimur árum.“

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Svo lengi lærir sem lifir, segir máltækið, og Erna Guðrún Árnadóttir, sem er 75 ára, er sprelllifandi dæmi um það. Hún útskrifaðist með BA-próf í íslensku frá Háskóla Íslands 1971 og brautskráðist með MA-gráðu í íslenskum bókmenntum frá sama skóla um liðna helgi. „Námið var mjög skemmtilegt og ég lauk því á rúmlega tveimur árum.“

Íslenskan hefur alla tíð verið Ernu hugleikin og hún á ekki langt að sækja áhugann á málinu. Árni Böðvarsson íslenskufræðingur var faðir hennar og hún ólst upp við bækur og lestur. Samt langaði hana ekki í framhaldsnám eftir að hafa lokið fyrstu háskólagráðunni fyrr en hálfri öld síðar. „Margir þeirra sem voru með mér í íslenskunáminu á árum áður héldu áfram, sumir urðu prófessorar og voru að hætta um það leyti sem ég byrjaði í framhaldsnáminu.“

Eldklerkurinn fræðimaður

Erna vann lengi hjá Orðabók Háskólans. Stundaði síðan nám í norrænum fræðum í Lundi í Svíþjóð í einn vetur og vann jafnframt við að skrifa sænsk-íslenska orðabók. Þaðan lá leiðin til Bandaríkjanna. Eftir heimkomuna kenndi Erna í tíu ár í Æfingaskólanum. Að nokkrum árum liðnum í Ríkisútvarpinu starfaði Erna í um tuttugu ár í menntamálaráðuneytinu. „Eftir að ég var komin á eftirlaun velti ég því fyrir mér af hverju ég hélt ekki áfram í námi á sínum tíma,“ segir hún. Þá hafi hún byrjað á því að bæta við sig í frönsku. „Mér fannst ég þurfa að gera eitthvað annað en sitja og prjóna,“ segir hún um MA-námið.

Lokaritgerð Ernu fjallar um séra Jón Steingrímsson eldklerk. Lítið hafi verið skrifað um hann og hann hafi fyrst og fremst verið þekktur sem prestur og fyrir, að sögn, að hafa stöðvað hraunið í Skaftáreldum með eldmessu sinni. „Hann er forfaðir minn, ég fékk snemma áhuga á honum og kenndi meðal annars tilraunanámsefni um hann í Æfingaskólanum. Hann var miklu merkilegri maður en mig óraði fyrir og skrifaði mun meira en ævisögu sína.“ Annað eftir hann hafi ekki verið gefið út, en auk þess hafi hann skrifað fyrstu íslensku lækningabókina og eldritið, ort sálma og kvæði. „Fátt af þessu hefur verið rannsakað.“ Í ritgerðinni setji hún fram þá tilgátu að merkilegasta framlag Jóns, sem hafi hrifist af upplýsingastefnunni, hafi verið að fræða fólk og kenna því. Ekki sé hægt að afgreiða ævisögu hans sem varnarrit, því margt sé í henni. „Þetta er játningabók en líka menningarsaga skrifuð til að fræða fólk um 18. öld.“

Aðeins þrír nemendur brautskráðust úr meistaranámi í íslenskum bókmenntum og enginn í málfræði að þessu sinni. „Ég hef áhyggjur af þessari grein,“ segir Erna. „Það er eins og allir ætli að vera skáld, því nú er móðins að fara í ritlist og þýðingafræði. Ég velti fyrir mér hver eigi að kenna íslenskuna í framhaldsskólum. Ekki ég, því ég er orðin 75 ára og kenni ekki meir.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson