Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Lögmannsstofan LEX segir í álitsgerð að tímabundið bann sem matvælaráðherra ákvað að leggja við hvalveiðum hafi ekki verið reist á lagaheimild sem stenst kröfur stjórnarskrár, bæði hvað varðar ákvæði um friðhelgi eignarréttar og atvinnufrelsi. Álitsgerðin var unnin að beiðni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Í álitinu kemur fram að fyrirvaralaus setning reglugerðar og án aðlögunartíma standist ekki meginreglu um stjórnskipulegt meðalhóf. Þá hafi álit fagráðs MAST, sem matvælaráðherra byggði ákvörðun sína um tímabundna stöðvun hvalveiða á, hvorki gætt að andmælarétti sem mælt sé fyrir um í stjórnsýslulögum, né heldur því að fylgja rannsóknarreglu. Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., segir þessa niðurstöðu í takti við álit lögfræðilegra ráðgjafa fyrirtækisins.
Matvælaráðherra gaf ekki kost á viðtali við Morgunblaðið vegna þessa máls. Þá hefur ráðherrann í engu svarað kröfum Verkalýðsfélags Akraness um afturköllun hvalveiðibannsins og heldur ekki spurningu félagsins um það hvernig fjártjón félagsmanna vegna ákvörðunarinnar verði bætt. Formaðurinn segir það ámælisvert. Hann segir kaldhæðnislegt að fjárhagslegt tap starfsfólksins vegna þessa sé hið sama og fjárhæðin sem Íslandsbanka sé gert að greiða vegna starfshátta sinna, 1.200 milljónir kr.