Framkvæmdir standa nú yfir við Álfaskeið og Sólvangsveg í Hafnarfirði við lagningu nýrra stofnlagna á svæðinu frá hitaveitu Veitna. Kolbeinn Björgvinsson, verkefnisstjóri Veitna, segir í samtali við Morgunblaðið að nýju stofnlagnirnar muni bæta þjónustu á svæðinu og að framkvæmdirnar hafi verið nauðsynlegar með tilliti til fólksfjölgunar á Völlunum í Hafnarfirði.
Framkvæmdirnar hófust þann 18. nóvember á síðasta ári en Kolbeinn segir þær ganga vel og að framkvæmdir séu nokkurn veginn á áætlun þó þær gætu dregist aðeins fram yfir áætluð verklok. Stefnt er á að ljúka lagningu stofnlagnanna þann 30. september næstkomandi.
„Það er margþætt. Það eru þarna gamlar lagnir til staðar sem eru barn síns tíma með ekki næga afkastagetu og síðan er gífurlega mikil uppbygging á Völlunum í Hafnarfirði. Þetta kallar allt á meiri flutningsgetu,“ segir hann, spurður hvers vegna ráðist var í framkvæmdir.
Kolbeinn bætir við að nýju lagnirnar muni auka rekstraröryggi töluvert og tryggja að nægt vatn skili sér til íbúa á svæðinu.
Þá segir Kolbeinn að framkvæmdirnar hafi að mestu leyti farið fram í sátt og samlyndi við íbúa á svæðinu. „Við höfum verið í miklum samskiptum við íbúa. Við höfum reynt að lágmarka ónæði fyrir íbúa eins og mögulegt er,“ segir hann og bætir við að óumflýjanlegt hafi verið að takmarka umferð ökutækja.