Ég er frá Vestmannaeyjum, ólst þar upp og bjó þar til 25 ára aldurs. Ég bjó reyndar á Selfossi í nokkur ár eftir gos og hóf mína skólagöngu þar,“ segir Sigurjón þegar hann er spurður hvar ræturnar liggja.
Hvar líður þér best?
„Mér líður best í faðmi fjölskyldunnar. En mína hugarró sæki ég með því að fara til fjalla, hvort sem er gangandi, á mótorhjólinu eða á bíl.“
Hvað finnst þér ómissandi að gera í Vestmannaeyjum?
„Þegar ég er heima í Eyjum finnst mér alveg ómissandi að fara í bátsferð. Saga Vestmannaeyja er stórbrotin og birtist manni hvergi eins ljóslifandi og í siglingu um eyjarnar, enda sagan okkar mjög samtvinnuð sjónum og úteyjalífinu.“
Gaman að tengja sögu við ferðalögin
Hefur þú alltaf verið duglegur að stunda útivist?
„Ég hef alla tíð verið náttúrubarn, enda alinn upp við aðstæður þar sem allt atvinnulíf og mannlíf var nátengt náttúrunni. Í Eyjum var ég alinn upp við klettaklifur og sprönguna sem var félagsmiðstöð þess tíma.“
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera á ferðalögum?
„Ég er mikill áhugamaður um sögu og jarðfræði og ég legg mikið á mig að upplifa landið með það í huga. Ég hef til að mynda í mörg ár skipulagt og verið leiðsögumaður í mótorhjólaferðum um landið og mínar uppáhaldsferðir þar eru söguferðir, þar sem hjólað er á ákveðna staði og sögur sagðar af landi og þjóð.“
Áttu þér uppáhaldsstað á Suðurlandi?
„Ég á marga staði sem eru mér afar kærir á Suðurlandi. Ég átti mér lengi draum um að eignast jörð þar sem ég sæi til Heklu og sá draumur rættist árið 2020 þegar við fjölskyldan keyptum Hvítholt í Flóahreppi og þar er okkar annað heimili. En í dag er nýi uppáhaldsstaðurinn minn Höfn í Hornafirði. Það er ekkert sem jafnast á við útsýnið til jökla og fjalla þaðan. Svo skemmir fallegt mannlíf ekki fyrir heldur.“
Hefur þú farið í eftirminnilegt ferðalag á Íslandi?
„Ég á gríðarlega margar góðar minningar um ferðalög um landið, heilan fjársjóð. Ég nefni hér til dæmis eftirminnilegt nokkurra daga ferðalag þar sem ég fór á Vatnajökul á snjómótorhjóli fyrir nokkrum árum.“
Humar á Höfn
Hvernig líður þér á Höfn?
„Mér líður dásamlega hér í Hornafirði og ekki mikið sem hefur komið mér á óvart nema ánægjulega. Starfið er fjölbreytt og skemmtilegt og mikill kraftur í samfélaginu. Svo hafa Hornfirðingar tekið svo vel á móti mér og ekki skemmir það fyrir.“
Hvernig væri draumadagurinn á Höfn og nágrenni?
„Ég lifi drauminn alla daga, satt best að segja. Að starfa með góðu fólki að skýrri framtíðarsýn og fá tækifæri til að hafa áhrif. Í þessu sambandi má nefna helgi um miðjan júní sem var algjör draumur. Hún hófst með alvöruútskriftarveislu dóttur minnar heima í Hvítholti á föstudag. Samveru og skemmtun með Öræfingum á þjóðhátíðardaginn og um kvöldið. Og síðan samveru með eiginkonunni og tengdaforeldrum í kringum Höfn á sunnudeginum þar sem við borðuðum humar í hádeginu og fórum í gönguferðir í stórkostlegri náttúru í nágrenni Hafnar – fullkomið.“
Hvað ætlar þú að gera í sumar?
„Í sumar ætla ég fyrst og fremst að vinna. Verkefnin eru næg og ég er fullur af orku og áhuga fyrir daglega amstrinu. Ég bauð heim á Humarhátíð á Höfn nýverið og eldaði humarsúpu fyrir hverfið mitt hér á Höfn. Svo er Goslokahátíð í Eyjum fyrstu vikuna í júlí, og svo náttúrulega Þjóðhátíð. Þar er skyldumæting og við fjölskyldan flytjum í hvíta tjaldið okkar í dalnum þessa helgi. Svo ætla ég að stelast í stutt frí eftir Þjóðhátíð – og jafna mig,“ segir Sigurjón.